Ferill 615. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1140 — 615. mál.
Svar
matvælaráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.
1. Hvert geta starfsmenn matvælaráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
Í matvælaráðuneytinu geta starfsmenn leitað til trúnaðarmanna sinna á vinnustaðnum, næsta yfirmanns eða þess skrifstofustjóra sem þeir treysta best.
2. Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
Ráðuneytið hefur þegið þjónustu Auðnast ehf. allt frá árinu 2019 í tíð atvinnu- og nýsköpunarráðuneytisins. Mánaðarleg áskrift um heildstæða þjónustu á sviði heilsuverndar var 149.000 kr. frá september 2021.
Eftir uppskiptingu ráðuneytanna hefur matvælaráðuneytið notið þjónustu Auðnast ehf. og greitt mánaðargjald að fjárhæð 129.000 kr.
Tilefni gerðar slíks samnings er að tryggja gott aðgengi að heildstæðri þjónustu á sviði heilsu- og vinnuverndar. Markmiðið er að stjórnendur og starfsfólk geti nýtt sér þau úrræði sem Auðnast ehf. hefur upp á að bjóða til að bæta heilsu og tryggja öryggi starfsfólks. Þar ber helst að nefna heilsufarsmat, fræðslu, trúnaðarlækni, bólusetningu, sálfræðiþjónustu og handleiðslu.
Veitt sálfræðiþjónusta hefur ekki verið flokkuð sérstaklega eftir málefnasviðum af persónuverndarástæðum og af virðingu við starfsfólk sem þegið hefur þjónustu hjá Auðnast ehf.
3. Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
Heildarkostnaður ráðuneytisins af kaupum sálfræðiviðtala fyrir starfsfólk sl. 5 ár er samtals 321.500 kr. sbr. sundurliðun:
Ár | Fjöldi viðtala | Kostnaður | Samtals |
2022 | 7 | 19.500 | 136.500 |
2019 | 10 | 18.500 | 185.000 |
Veitt sálfræðiþjónusta er nafnlaus og hefur hvorki verið flokkuð sérstaklega eftir málefnasviðum né ástæðum þess að óskað er eftir sálfélagslegum stuðningi af persónuverndarástæðum og af virðingu við það starfsfólk sem hefur þegið slíka þjónustu hjá Auðnast ehf.