Ferill 611. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1129 — 611. mál.
Svar
utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um viðbrögð við vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra og sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn ráðuneyta.
1. Hvert geta starfsmenn utanríkisráðuneytis leitað sem telja sig verða fyrir vanvirðandi framkomu af hálfu ráðherra eða ráðuneytisstjóra, svo sem einelti og áreitni eða annars konar ofbeldi?
Ef starfsmaður hefur orðið fyrir, verið vitni að, eða hefur rökstuddan grun um að atvik sem telja mætti einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi (EKKO) hafi átt sér stað, ber honum að upplýsa sinn næsta yfirmann, mannauðsfulltrúa eða mannauðsstjóra, eða skrifstofustjóra sem viðkomandi treystir. Einnig getur starfsmaður leitað til trúnaðarmanns eða öryggistrúnaðarmanns til að koma á framfæri upplýsingum eða leita ráðgjafar um næstu skref. Utanríkisráðuneytið hefur gert samstarfssamning við fagaðila, Auðnast, sem ráðuneytið fær til aðstoðar og ráðgjafar í EKKO-málum eða felur fagaðila að taka mál í ferli þegar um óformlegt eða formlegt ferli er að ræða. Starfsfólk er hvatt til að láta vita af stórum sem smáum atvikum, en slíkt eykur öryggi vinnuumhverfis
2. Hefur ráðuneytið gert samning um sálfræðiþjónustu fyrir starfsmenn sl. 5 ár? Ef svo er, hvert var tilefni slíks samnings/samninga og hver var kostnaður af honum/þeim? Svör óskast sundurliðuð eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
Utanríkisráðuneytið gerði samning við Auðnast um heilsufars- og trúnaðarlæknisþjónustu síðla árs 2018. Meginmarkmið með þeim samningi var að gæta að heilsutengdum hagsmunum starfsmanna, lágmarka fjarvistir vegna veikinda og streitutengdra þátta. Einnig veitir sá fagaðili starfsfólki ráðgjöf varðandi heilsufarsvandamál sem snúa að líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu.
3. Hver er útlagður kostnaður ráðuneytisins af kaupum á sálfélagslegum stuðningi við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags á vinnustað sl. 5 ár? Svar óskast sundurliðað eftir málefnasviðum ráðuneytisins í ljósi þeirra breytinga sem gerðar voru á ráðuneytunum í fyrra.
Utanríkisráðuneytið hefur greitt útlagðan kostnað vegna sálfélagslegs stuðnings við starfsfólk vegna vanlíðunar og/eða álags í starfi síðastliðin fimm ár sem nemur 2.667.250 kr.
Alls fór ein vinnustund í að taka svarið saman.