Ferill 600. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2224  —  600. mál.




Svar


mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um andlega líðan barna.


     1.      Hefur ráðherra látið rannsaka ástæður versnandi andlegrar líðanar barna á undanförnum áratug í ljósi sláandi niðurstaðna í skýrslu nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í COVID-19-faraldrinum?
    Í skýrslu nefndar sem skipuð var til að greina áfallastjórnun íslenskra stjórnvalda í COVID-19-faraldrinum og gefin var út af forsætisráðuneyti á síðasta ári var fjallað um nýlegar niðurstöður Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar og Rannsókna og greiningar ehf. á líðan barna og ungmenna. Fram kom að depurð og kvíði barna og ungmenna hefði aukist talsvert á undanförnum árum, sérstaklega hjá stúlkum, og að mun færri börn og ungmenni segðust hamingjusöm, eða rétt rúmur fjórðungur stúlkna og tæpur helmingur drengja árið 2022, miðað við 40% stúlkna og 57% drengja árið 2018.
    Árið 2021 fól þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra menntavísindasviði Háskóla Íslands framkvæmd Íslensku æskulýðsrannsóknarinnar til ársins 2026 á grundvelli 12. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007. Verkefnið felst í reglubundinni gagnaöflun um velferð og viðhorf barna og ungmenna um land allt og nýtast niðurstöður því við stefnumótun á málefnasviði mennta- og barnamálaráðuneytis. Meðal annars er upplýsinga aflað um líðan barna og ungmenna á Íslandi og ýmsa tengda áhrifaþætti. Niðurstöður ársins 2022 sýndu til að mynda að kvíði var mun meiri meðal stúlkna en drengja í 6., 8. og 10. bekk grunnskóla. Algengi tíðra kvíðaeinkenna meðal stúlkna mældist meira í efri bekkjum en yngri, eða 56% í 10. bekk miðað við 37% í 6. bekk. Einkenni kvíða héldust aftur á móti nokkuð svipuð meðal drengja milli árganga, eða um 20%. Svipaða sögu var að segja um algengi depurðareinkenna sem mældust meiri meðal eldri árganga stúlkna en yngri, það er um 41% í 10. bekk samanborið við 26% í 6. bekk. Hjá drengjum var algengi depurðareinkenna svipað milli árganga, eða um 15–19%. Öll einkenni vanlíðanar mældust meiri hjá börnum og ungmennum sem töldu fjölskyldu sína búa við slæma eða mjög slæma fjárhagslega stöðu.
    Ástæður vanlíðanar eru margþættar og einstaklingsbundnar og því nokkuð flókið að bera kennsl á beinar orsakir en bent hefur verið á ýmsa áhættuþætti og verndandi þætti. Ljóst þykir að heimsfaraldur kórónuveiru hafði mikil áhrif á líf og líðan fólks, ekki síst barna og ungmenna, m.a. vegna tilheyrandi röskunar á skóla-, frístunda-, íþrótta- og tómstundastarfi. Vísbendingar um versnandi líðan barna og ungmenna höfðu þó komið fram fyrr. Rannsóknir undanfarinna ára hafa t.d. leitt í ljós að bág félagsleg og efnahagsleg staða fjölskyldu, skortur á tengslum við jafnaldra og starfsfólk skóla og reynsla af einelti spá fyrir um andlega vanlíðan barna og ungmenna. Að auki virðast stúlkur, hinsegin börn og ungmenni, börn og ungmenni með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn og fötluð börn og ungmenni í sérstaklega viðkvæmri stöðu hvað þetta varðar.

     2.      Hefur verið gripið til aðgerða til að bæta andlega líðan barna, sér í lagi ungra stúlkna? Ef svarið er já, til hvaða aðgerða hefur verið gripið?
    Efling geðheilbrigðis, forvarna og stuðnings innan skóla er forgangsmál í ráðuneytinu. Þar er skólinn kjörinn vettvangur til að ná til allra barna og ungmenna í samfélaginu. Unnið er að fjölbreyttum og markvissum aðgerðum í því efni á sviði skóla- og menntamála og almennt í þágu farsældar barna.
    Menntastefna fyrir árin 2021–2030 var samþykkt á Alþingi í mars 2021. Menntastefnan snýst m.a. um að efla skólastarf og skólaþjónustu til samræmis við lög nr. 86/2021, um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, sem tóku gildi 1. janúar 2022. Markmið farsældarlaganna er að öll börn og fjölskyldur þeirra sem á þurfa að halda hafi greiðan aðgang að samþættri þjónustu við hæfi. Í fyrstu aðgerðaáætlun í menntastefnunni, sem lögð var fram haustið 2021 og gildir til ársins 2024, má því finna fjölda aðgerða sem beinast að farsæld barna og ungmenna, þar á meðal að geðheilbrigði. Framkvæmd þessarar fyrstu aðgerðaáætlunar er þegar hafin í samráði við haghafa.
    Sýnt hefur verið fram á að markviss geðrækt og forvarnir á sviði geðheilbrigðis fyrirbyggja vanlíðan barna og ungmenna og stuðla að velsæld þeirra í námi og leik. Niðurstöður landskönnunar á vegum embættis landlæknis frá 2019 í leik-, grunn- og framhaldsskólum sýndu að verulega þyrfti að styrkja geðrækt, forvarnir, stuðning og hagnýtingu gagna í skólastarfi. Til þess þyrfti starfsfólk skóla aukna leiðsögn, ráðgjöf og tækifæri til starfsþróunar.
    Til að bregðast við því er í menntastefnu fyrir árin 2021–2030 gert ráð fyrir aðgerðaáætlun fyrir innleiðingu þrepaskiptra forvarna og stuðnings í öllu menntakerfinu með öflugri leiðsögn og handleiðslu fyrir stjórnendur og starfsfólk skóla og frístundar. Þrepaskiptur stuðningur felur í sér breytta starfshætti skóla og skólaþjónustu með aukinni áherslu á þverfaglega samvinnu, snemmtækan stuðning, gagnreyndar aðferðir og markvissa hagnýtingu gagna í skólastarfi. Með þrepaskiptum forvörnum og stuðningi er átt við heildstætt skipulag starfshátta og stuðnings í skólum með jafnræði að leiðarljósi, þar sem markvisst geðræktarstarf nær til allra nemenda og reglulega er skimað fyrir stuðningsþörf á sviði tilfinninga, félagsfærni, hegðunar og náms. Almenn skimun af þessum toga gerir starfsfólki skóla og skólaþjónustu kleift að benda á nemendur sem þurfa á auknum stuðningi að halda og á ýmsa verndandi þætti og áhættuþætti líðanar, svo sem kyn, tungumála- og menningarbakgrunn, námslega stöðu og fleira.
    Áhersla er lögð á gagnreyndar aðferðir á öllum þrepum forvarna og stuðnings, þar sem stuðningurinn miðast við þarfir hvers og eins barns og ungmennis. Markmiðið er þar með að öll börn og ungmenni fái stuðning vegna líðanar í samræmi við þarfir.
    Haustið 2022 hófst vinna við frumvarp til nýrra laga um heildstæða skólaþjónustu sem byggist á þrepaskiptum stuðningi, með það að markmiði að samhæfa þjónustu þvert á skólastig hvað varðar aðgengi, þjónustustig og framkvæmd, eflingu rafrænna lausna og þverfaglega samvinnu milli skóla-, félags- og heilbrigðisþjónustu í þágu farsældar nemenda óháð búsetu. Vinna við frumvarpið hefur farið fram í ríku og beinu samráði við haghafa, svo sem leik-, grunn- og framhaldsskóla, sveitarfélög, skólastjórnendur, kennara, nemendur og foreldra og annað starfsfólk í skóla-, frístunda- og tómstundastarfi. Áætlað er að leggja frumvarpið fram á 154. löggjafarþingi.
    Brýnt er að stjórnendur og starfsfólk innan skóla, frístundar og tómstunda fái tækifæri til starfsþróunar og njóti stuðnings við innleiðingu og eftirfylgni þessara breytinga. Ný þjónustustofnun á sviði menntamála er í undirbúningi. Stofnuninni er ætlað mikilvægt hlutverk, m.a. að sinna beinum stuðningi við starfsfólk skóla- og frístundasamfélagsins. Þannig er gert ráð fyrir að þessi nýja stofnun verði fagleg þekkingarmiðstöð skólaþróunar og skólaþjónustu.
    Að auki þarf að styrkja foreldra í uppeldishlutverkinu og tryggja öflugt samstarf þeirra við skóla, frístund og tómstundir. Mennta- og barnamálaráðherra skrifaði fyrr í ár undir tvo samstarfssamninga er þetta varða, annars vegar við Háskóla Íslands um samstarf háskólans, ráðuneytis og skólasamfélags um að efla foreldrafærni, og hins vegar við Heimili og skóla um að styrkja foreldrastarf í skólum út frá nýjum farsældarlögum.