Ferill 597. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1919  —  597. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á lögum á sviði íþrótta- og æskulýðsstarfs (hlutverk samskiptaráðgjafa, öflun upplýsinga o.fl.).

Frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Önnu Tryggvadóttur, Hildi Ýri Þórðardóttur og Silju Stefánsdóttur frá mennta- og barnamálaráðuneyti, Önnu Láru Steindal og Unni Helgu Ottósdóttur frá Landssamtökunum Þroskahjálp, Steinunni Birnu Magnúsdóttur frá Persónuvernd, Sigurbjörgu Sigurpálsdóttur og Hjálmar Karlsson, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, Auði Ingu Þorsteinsdóttur frá Ungmennafélagi Íslands og Andra Stefánsson frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands.
    Nefndinni bárust umsagnir um málið frá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands, Landssamtökunum Þroskahjálp, Persónuvernd, samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og Ungmennafélagi Íslands, auk minnisblaðs frá mennta- og barnamálaráðuneyti.
    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, nr. 45/2019, sem er ætlað að skýra hlutverk samskiptaráðgjafa með hliðsjón af þeirri þróun sem hefur orðið frá því að samskiptaráðgjafi tók til starfa og að tryggja fullnægjandi heimildir til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga. Jafnframt eru lagðar til breytingar á íþróttalögum, nr. 64/1998, í því skyni að samræma orðalag milli málsgreina.

Umfjöllun meiri hluta nefndarinnar.
Heildstæð endurskoðun.
    Nefndin hefur fjallað um málið og telur meiri hlutinn mikilvægt að skýra starf og hlutverk samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og laga það að því hvernig það hefur þróast frá því að samskiptaráðgjafi tók til starfa. Þá telur meiri hlutinn mikilvægt að fyrir hendi séu fullnægjandi heimildir til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga. Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II í lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs skulu lögin endurskoðuð eftir 1. janúar 2024. Meiri hlutinn telur æskilegt að þær breytingar sem felast í frumvarpinu nái fram að ganga nú svo lögin nái betur markmiði sínu en að heildstæð endurskoðun fari fram síðar líkt og kveðið er á um í lögunum.

Ráðgefandi álit.
    Í 1. gr. frumvarpsins er mælt fyrir um heimildir samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs til útgáfu ráðgefandi álita til viðeigandi aðila. Fyrir nefndinni kom fram að ráðgefandi álit fela oft á tíðum í sér leiðbeiningar til þolenda, gerenda, íþróttafélaga, sérsambanda eða annarra sem geta átt hagsmuna að gæta af ráðgjöf samskiptaráðgjafa. Meiri hlutinn telur mikilvægt að samskiptaráðgjafi hafi heimildir til útgáfu ráðgefandi álita enda geta þau verið til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á stöðu þeirra aðila sem um ræðir. Þá áréttar meiri hlutinn að útgáfa ráðgefandi álita hefur ekki áhrif á lögbundin hlutverk annarra, svo sem lögreglu og barnaverndar.
    Ráðgefandi álit eru að mati meiri hlutans vel til þess fallin að ná þeim markmiðum sem fram koma í 2. gr. laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs um að íþrótta- og æskulýðsstarf fari fram í öruggu umhverfi og að börn, unglingar og fullorðnir, óháð kynferði eða stöðu að öðru leyti, geti stundað íþróttir eða æskulýðsstarf og leitað sér aðstoðar eða leitað réttar síns vegna atvika og misgerða sem eiga sér stað án þess að þurfa að óttast afleiðingarnar.

Persónuvernd.
    Í umsögn Persónuverndar til nefndarinnar kemur fram að fjöldi aðila geti fallið undir heimild 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins til miðlunar. Í minnisblaði mennta- og barnamálaráðuneytisins til nefndarinnar er tekið undir það að nokkur fjöldi aðila falli undir starfssvið samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þeir aðilar séu aftur á móti tilgreindir í 1. gr. laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Meiri hlutinn telur skýrt afmarkað í lögunum sem og frumvarpinu til hvaða aðila heimildin tekur og telur gildissvið 2. mgr. 2. gr. frumvarpsins nægilega afmarkað.
    Þá kemur fram í umsögn Persónuverndar að stofnunin geri athugasemdir við víðtækar heimildir samskiptaráðgjafa til miðlunar persónuupplýsinga. Í minnisblaði ráðuneytisins er bent á að í 4. mgr. 6. gr. laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs kemur fram að samskiptaráðgjafi skuli gæta þess að persónuupplýsinga sé aflað með sanngjörnum, málefnalegum og lögmætum hætti og að öll meðferð þeirra sé í samræmi við vandaða vinnsluhætti persónuupplýsinga samkvæmt fyrirmælum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, nr. 90/2018. Þá kemur fram að samskiptaráðgjafi skuli einungis afla viðeigandi upplýsinga og ekki umfram það sem nauðsynlegt er miðað við tilgang þeirra og að þær séu áreiðanlegar og uppfærðar eftir þörfum. Með frumvarpinu er ekki lagt til að gerð verði breyting á tilvitnuðu ákvæði og verði frumvarpið að lögum telur ráðuneytið ljóst að túlka beri þær málsgreinar sem lagt er til að bætist við ákvæðið með hliðsjón af ákvæði 4. mgr. 6. gr. laganna sem og ákvæðum laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga. Þá bendir ráðuneytið á að þær breytingar sem lagðar eru til með frumvarpinu þurfi að skoða með markmið laganna í huga. Ráðuneytið telur ljóst að því markmiði þeirra verði ekki náð án þess að tryggt sé að samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs hafi fullnægjandi lagaheimildir til vinnslu og miðlunar persónuupplýsinga.
    Í umsögn samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs til nefndarinnar kemur fram að viðkvæmar persónugreinanlegar upplýsingar berast ráðgjafanum í nær öllum málum. Þá kemur jafnframt fram í umsögninni að félög hafi óskað eftir því að samskiptaráðgjafi geti jafnframt miðlað mikilvægum upplýsingum á milli félaga, með það fyrir augum að auka öryggi iðkenda. Í minnisblaði ráðuneytisins kemur fram að þau sjónarmið hafa einnig komið fram í samtölum ráðuneytisins við samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þar hafi komið fram að samskiptaráðgjafi telji raunar mikilvægt fyrir framkvæmd starfsins að fá enn víðtækari heimild til miðlunar upplýsinga en lögð er til með frumvarpinu. Ráðuneytið mat það, með hliðsjón af sjónarmiðum um meðalhóf og friðhelgi einkalífs þeirra einstaklinga sem um ræðir, ekki rétt að leggja til svo víðtæka heimild. Að mati ráðuneytisins er sú heimild sem lögð er til með frumvarpinu hófleg þegar litið er til ólíkra sjónarmiða Persónuverndar annars vegar og samskiptaráðgjafa hins vegar. Meiri hlutinn tekur undir framangreint mat ráðuneytisins og áréttar nauðsyn þess að fram fari mat á nauðsyn allrar lagasetningar sem felur í sér einhverja takmörkun réttinda, svo sem friðhelgi einkalífs, sbr. 71. gr. stjórnarskrár eins og í því tilviki sem hér um ræðir.
    Í minnisblaði ráðuneytisins er fjallað um athugasemdir Persónuverndar í umsögn til nefndarinnar um tilgreiningu á aðkomu hins skráða að vinnslu og miðlun persónuupplýsinga og hvernig miðlun persónuupplýsinga um hann skuli háttað. Í því sambandi telur ráðuneytið ljóst að við vinnslu mála beri samskiptaráðgjafa að líta til gildandi reglna laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga, þ.m.t. með þeim hætti að vinnsla persónuupplýsinga sé gagnsæ gagnvart hinum skráða. Ráðuneytið telur ekki þörf á því að útfæra aðkomu þeirra aðila sem um ræðir sérstaklega í lögum um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs enda gilda almennar reglur stjórnsýsluréttar sem og laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga um störf samskiptaráðgjafa, þ.m.t. að því er varðar aðkomu aðila að málum. Að mati ráðuneytisins kalla athugasemdir Persónuverndar er varða skilyrði fyrir heimild til miðlunar upplýsinga og aðkomu hins skráða því ekki á breytingar á frumvarpinu. Meiri hlutinn tekur undir framangreint mat ráðuneytisins.

Þagnarskylda.
    Í 3. gr. frumvarpsins er lagt til að við 1. mgr. 7. gr. laga um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs bætist nýr málsliður sem kveður á um að samskiptaráðgjafinn sé bundinn þagnarskyldu skv. X. kafla stjórnsýslulaga. Við yfirferð nefndarinnar á frumvarpinu kom fram, sbr. einnig umsögn Persónuverndar, að ósamræmi væri á milli ákvæðisins og þess sem fram kemur í 3. kafla greinargerðar frumvarpsins. Í 3. kafla er meginefni frumvarpsins tiltekið og kemur þar fram að með 3. gr. sé lagt til að kveðið verði á um að þagnarskylda samskiptaráðgjafa gangi framar upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum. Í minnisblaði mennta- og barnamálaráðuneytis til nefndarinnar kemur fram að framangreint misræmi sé því um að kenna að við lokayfirlestur hafi misfarist að breyta umfjöllun í 3. kafla greinargerðarinnar. Meiri hlutinn áréttar að ákvæði 3. gr. frumvarpsins felur ekki í sér reglu sem gengur framar ákvæðum upplýsingalaga heldur reglu um lagagrundvöll þagnarskyldu samskiptaráðgjafa.

Fræðsluskylda og fyrirbyggjandi aðgerðir.
    Með frumvarpinu er lagt til að í reglugerð skuli fjallað um fræðslu um vinnslu og miðlun persónuupplýsinga en í 8. gr. er þegar mælt fyrir um að ráðherra skuli með reglugerð setja nánari reglur um starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs, m.a. um kynningarstarf og útgáfumál. Samkvæmt upplýsingum nefndarinnar hefur ekki verið sett reglugerð heldur er aðeins fjallað nánar um skyldur í samningi við þann aðila sem samið hefur verið við um að sinna starfi samskiptaráðgjafa. Meiri hlutinn beinir því til ráðherra að reglugerð á grundvelli 8. gr. verði sett sem fyrst, enda mikilvægt að skýra enn betur þann ramma sem samskiptaráðgjafi starfar eftir. Þá vill meiri hlutinn undirstrika mikilvægi þess að samskiptaráðgjafi sinni kynningar- og forvarnarstarfi. Skv. 4. tölul. 2. mgr. 5. gr. laganna er það eitt af hlutverkum samskiptaráðgjafa að veita ráðgjöf til þeirra sem taka þátt í starfsemi félaga og samtaka sem falla undir lög þessi um fyrirbyggjandi aðgerðir. Meiri hlutinn áréttar mikilvægi þess að stuðla að því að draga úr hættu á að atvik komi upp og að innan íþrótta- og æskulýðsstarfs verði sameiginlegur skilningur á því hvers konar hegðun sé óásættanleg. Allsherjar- og menntamálanefnd lagði á sínum tíma til breytingu á frumvarpinu þegar lög um samskiptaráðgjafa voru sett til að árétta hlutverk samskiptaráðgjafa að því er snertir forvarnir.

Breytingartillögur meiri hlutans.
Íþróttalög og refsidómar.
    Nefndin tók til skoðunar hvort tilefni væri til að gera frekari breytingar á ákvæði 16. gr. íþróttalaga en lagðar eru til í 5. gr. frumvarpsins þannig að einstaklingum sem hlotið hafa refsidóm vegna alvarlegra brota, einkum 211. og 218. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, væri einnig óheimilt að starfa hjá þeim aðilum sem falla undir gildissvið íþróttalaga.
    Í 1. mgr. 16. gr. laganna kemur fram að óheimilt sé að ráða til starfa hjá aðilum sem falla undir lögin og sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í íþróttastarfi einstaklinga sem hlotið hafa refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga. Sama gildi um þá sem hlotið hafa refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Ákvæðið nær einnig til þeirra sem falin er umsjón með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri á grundvelli sjálfboðaliðastarfs.
    Meiri hlutinn telur afar brýnt að í 1. mgr. 16. gr. íþróttalaga verði einnig vísað til 211. og 218. gr. almennra hegningarlaga sem fjalla um manndráp og alvarlegar líkamsárásir. Í því sambandi horfir meiri hlutinn til alvarleika þeirra brota og þess viðkvæma hóps sem reglunni er ætlað að taka til. Þá vísar meiri hlutinn til þess að bæði í lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir, nr. 38/2018, eru til að mynda ákvæði þar sem fjallað er um bann við ráðningum einstaklinga sem hlotið hafa refsidóma vegna brota á ákvæðum 211. eða 218. gr. almennra hegningarlaga. Meiri hlutinn telur einsýnt að sama regla eigi að gilda um aðila sem starfa með börnum og ungmennum undir 18 ára aldri í íþróttastarfi.
    Þá tók nefndin til skoðunar hvort tilefni væri til að fella erlenda refsidóma fyrir þau brot sem ákvæði 1. mgr. 16. gr. íþróttalaga tekur til undir ákvæðið, þannig að brot hérlendis og erlendis yrðu gerð að jöfnu. Í því sambandi horfir meiri hlutinn til þess að almennt verður að telja að slíkt ákvæði sé til þess fallið að styrkja réttarvernd barna og ungmenna. Það þarf þó að vera mögulegt að afla slíkra upplýsinga og öflun slíkra upplýsinga má ekki vera útilokandi fyrir einstaklinga sem t.d. koma frá eða hafa starfað í ríkjum þar sem öflun slíkra upplýsinga er ómöguleg. Í einhverjum tilvikum eru slíkar upplýsingar þó aðgengilegar hjá Útlendingastofnun. Meiri hlutinn telur því rétt að beina því til ráðuneytisins að skoða framangreint heildstætt og útfæra leið þannig að unnt verði að afla þeirra upplýsinga sem a.m.k. eru fyrirliggjandi.
    Í minnisblaði mennta- og barnamálaráðuneytisins til nefndarinnar er vísað til þess að ef nefndin leggur til breytingar á 5. gr. frumvarpsins þá telji ráðuneytið fara vel á því að gera sambærilegar breytingar á ákvæði 3. mgr. 10. gr. æskulýðslaga, nr. 70/2007, til að tryggja samræmi milli ákvæða íþróttalaga og æskulýðslaga. Meiri hlutinn tekur undir framangreint sjónarmið en telur ekki unnt að leggja til þess háttar breytingu á frumvarpinu sem hér er til umfjöllunar. Meiri hlutinn beinir því til ráðuneytisins að skoða framangreint samræmi milli íþróttalaga annars vegar og æskulýðslaga hins vegar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hluti nefndarinnar til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:

    Við 5. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Á eftir orðunum „XXII. kafla“ í 1. málsl. 1. mgr. 16. gr. laganna kemur: 211. eða 218. gr.

    Bergþór Ólason, Birgir Þórarinsson og Helga Vala Helgadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins. Birgir Þórarinsson og Helga Vala Helgadóttir rita undir álitið samkvæmt heimild í 2. mgr. 29. gr. þingskapa.
    Helga Vala Helgadóttir ritar undir álit þetta með fyrirvara um að gera ætti að skilyrði að umsækjendur sem búið hafa erlendis á síðustu 10 árum leggi fram erlent sakavottorð.

Alþingi, 31. maí 2023.

Bryndís Haraldsdóttir,
form.
Jóhann Friðrik Friðriksson, frsm. Birgir Þórarinsson.
Helga Vala Helgadóttir, með fyrirvara. Jódís Skúladóttir. Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Tómas A. Tómasson.