Ferill 580. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1009  —  580. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Birgi Þórarinssyni um áburðarforða.


     1.      Hefur verið gripið til ráðstafana til að tryggja sjálfbærni Íslands um áburð?
    Stefna íslenskra stjórnvalda er að ná kolefnishlutleysi 2040 en mikilvægur hluti þess er að bæta nýtingu og meðhöndlun lífrænna áburðarefna, t.d. búfjáráburðar, fiskeldismykju, seyru og fleiri efna. Í lífrænum áburðarefnum eru verðmæt næringarefni á borð við nitur, fosfór og kalí. Samkvæmt skýrslu Matís frá 2022, Greining á magni lífrænna áburðarefna á Íslandi og tækifæri til aukinnar nýtingar, féll jafn mikið til af þessum næringarefnum í lífrænum áburðarefnum og í innfluttum áburði árið 2019. Stórum hluta þessara efna er nú fargað og þar fara næringarefni til spillis. Urðun lífrænna efna veldur myndun metans sem hefur neikvæð áhrif á loftslagið og stefnt er að því að urðun slíkra efna verði hætt á næstu árum. Í þeim tilfellum þar sem lífrænum efnum er fargað í sjó geta þau valdið mengun og útbreiðslu óæskilegra efna í lífríki sjávar. Það er því jákvætt framfaraskref að nýta lífræn efni í áburð í stað þess að farga þeim með tilheyrandi neikvæðum umhverfisáhrifum
    Matvælaráðuneytið undirbýr útgáfu vegvísis um bætta nýtingu lífrænna efna til áburðar í landbúnaði og landgræðslu, m.a. af þessum orsökum. Unnið hefur verið að verkefninu seinni hluta árs 2022 með samstarfi ráðuneytisins, Landgræðslunnar, Matís, Matvælastofnunar og Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins. Það er áskorun fyrir Ísland að verða sjálfbært um innlendan áburð en með útgáfu vegvísis er stefnt að því að minnka hlutfall hans verulega á næstu árum með því að nýta betur þau næringarefni sem til falla í lífrænum áburðarefnum.
    Matís hefur síðustu misseri unnið að verkefninu „Sjálfbær áburðarframleiðsla – heildstæð nálgun á hringrásarhagkerfi“. Verkefnið er styrkt af markáætlun Rannís. Að því koma einnig Landbúnaðarháskóli Íslands, Landgræðslan, Landsvirkjun, Hafrannsóknastofnun og sprotafyrirtækið Atmonia, sem vinnur að þróun aðferða til framleiðslu köfnunarefnis með endurnýjanlegri raforku. Í verkefninu fara fram prófanir á notkun ýmissa lífrænna efna til jarðræktar. Endurnýting hráefna getur lækkað rekstrarkostnað bænda umtalsvert, bætt fæðuöryggi, byggt upp störf á Íslandi og sparað gjaldeyri. Atmonia og fleiri aðilar sem eru að þróa lausnir til bættrar nýtingar lífrænna efna til áburðar hafa auk þess fengið stuðning stjórnvalda með styrkjum til eflingar hringrásarhagkerfisins.

     2.      Hefur verið skoðað hvort tilefni sé til að koma á fót áburðarverksmiðju hér á landi að nýju?
    
Gert er ráð fyrir að átt sé við verksmiðju til framleiðslu tilbúins áburðar eins og starfaði hérlendis þar til skömmu eftir síðustu aldamót. Slík athugun hefur ekki farið fram af hálfu matvælaráðuneytisins. Ráðuneytinu er kunnugt um að hagkvæmnisathugun sé í gangi hjá einkaaðilum eins og fram hefur komið í fjölmiðlum.
     3.      Hvaðan koma innfluttur áburður og önnur jarðvegsbætandi efni helst, sundurliðað eftir framleiðslulöndum? Hefur innrás Rússlands í Úkraínu haft mælanleg áhrif hvað það varðar?
    Leitað var til Matvælastofnunar um upplýsingar til að svara þessum tölulið fyrirspurnarinnar. Svarið tekur til áburðar sem fluttur var inn til jarðræktar eða garðyrkju/ylræktar í atvinnuskyni.
    Meðfylgjandi eru upplýsingar um innfluttan áburð eftir framleiðslulöndum og svæðum innan og utan EES. Þess ber að geta að framleiðslulöndin eru þau lönd þar sem áburðurinn er blandaður og honum pakkað en uppruni hráefnanna getur verið margs konar.
    Meginhluti fosfórs í áburðinum hefur komið frá Rússlandi en sá fosfór er laus við eiturefnið kadmíum. Nú þarf að leita á önnur mið og fá kadmíumríkari fosfór af öðrum uppruna, aðallega frá Norður-Afríku. Það er stærsta merkjanlega breytingin fyrir áburðarinnflutning á þessu ári sem rekja má beint til afleiðinga stríðsins í Úkraníu og viðskiptahamla vegna þess. Aðrar beinar afleiðingar vegna þessa eru ekki komnar í ljós, enda fer megináburðarinnflutningurinn fram frá mars til maí ár hvert. Fosfórinn var farinn frá Rússlandi til viðkomandi birgja áður en stríðið hófst á síðasta ári og hafði því ekki áhrif þá.
    Áburður sem kemur utan EES-svæðisins er frá Bretlandi og Ísrael.

Innfluttur áburður 2022 eftir framleiðslulöndum.

Land Magn kg Hlutfall %
Belgía 1.050 0,00
Danmörk 338.753 0,67
Eistland 8.393.180 16,59
Finnland 18.986.900 37,53
Holland 1.102.474 2,18
Ísrael 50.300 0,10
Ítalía 63.600 0,13
Litháen 450.000 0,89
Noregur 10.833.200 21,41
Pólland 1.050 0,00
Svíþjóð 21.000 0,04
Slóvakía 12.000 0,02
Bretland 8.966.586 17,72
Þýskaland 1.375.174 2,72
Samtals 50.595.267 100

Innfluttur áburður 2022 eftir svæðum.

Svæði Magn kg Hlutfall %
Innan EES 41.578.381 82,18
Utan EES 9.016.886 17,82
Samtals 50.595.267 100

     4.      Hvert er hlutfall innflutts áburðar af öllum áburði hér á landi
?
    Nær allur tilbúinn áburður og jarðvegsbætandi efni sem hér er notað er innflutt. Á árinu 2021 fluttu 24 fyrirtæki inn áburð og jarðvegsbætandi efni. Alls voru flutt inn 46.446 tonn. 98,6% magnsins voru áburður til jarðræktar eða ylræktar/garðyrkju, 1,2% voru jarðvegsbætandi efni, einkum kalk, 0,2% voru síðan blómaáburður og áburður fyrir íþróttavelli.
    Í skýrslu Matvælastofnunar um áburðareftirlit 2021 kemur fram að á skrá Matvælastofnunar eru 16 fyrirtæki sem framleiða áburð og jarðvegsbætandi efni á Íslandi. Fyrst og fremst er um áburð úr lífrænum efnum að ræða. Í fyrrnefndri skýrslu er gerð stuttlega grein fyrir þessum fyrirtækjum og hvaða áburð þau framleiða en magntölur liggja ekki fyrir. Áburðarfyrirtæki sem voru með skráða starfsemi á árinu voru því 40.
    Jafnframt liggur fyrir að bændur nýta búfjáráburð mikið í sinni ræktun. Í umsóknum um jarðræktarstyrki og landgreiðslur samkvæmt búvörusamningum sem skilað var til ráðuneytisins árið 2021 kom fram að borin hefðu verið á rúmlega 760.000 tonn af búfjáráburði á árinu. Heildstætt yfirlit um alla notkun búfjáráburðar eða annars lífræns áburðar á landsvísu er ekki fyrir hendi. Þó má taka fram að samkvæmt upplýsingum Landgræðslunnar hefur stofnunin sexfaldað notkun lífræns áburðar við uppgræðslu á tímabilinu 2015–2021. Þá er skeljasandur sem fenginn er innanlands nýttur sem kalkgjafi í jarðrækt en þar eru magntölur ekki til staðar.