Ferill 575. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 932  —  575. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Lenyu Rún Taha Karim um neyslurými.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Er unnið að því í ráðuneytinu að fjölga neyslurýmum? Ef svo er, hvenær má búast við að niðurstöður þeirrar vinnu komi til framkvæmda?
     2.      Stendur til að útbúa staðbundið neyslurými í varanlegu húsnæði? Ef svo er, verður húsnæðið í Reykjavík?
     3.      Ef til stendur að útbúa staðbundið neyslurými í varanlegu húsnæði, mun færanlega neyslurýmið Ylja áfram standa skjólstæðingum neyslurýmanna til boða?


    Í 2. gr. a laga um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, er kveðið á um heimild til handa sveitarfélögum að sækja um leyfi til embættis landlæknis þess efnis að stofna og reka neyslurými þar sem varsla og meðferð ávana- og fíkniefna, sbr. 6. gr., er heimil.
    Í reglugerð nr. 170/2021 um neyslurými er ákvæði til bráðabirgða sem heimilar embætti landlæknis, þar til húsnæði hefur verið opnað sem neyslurými, að veita sveitarfélagi leyfi til að nýta tímabundið sérútbúinn bíl sem uppfyllir kröfu reglugerðarinnar, eftir því sem við á.
    Með vísan til framangreindra laga- og reglugerðarákvæða er það því undir sveitarfélögum komið hvort þar séu sett á fót neyslurými. Árið 2022 gerði Reykjavíkurborg samning um rekstur neyslurýmis við Sjúkratryggingar Íslands byggðan á bráðabirgðaákvæði reglugerðar. Jafnframt er það undir Reykjavíkurborg komið hvort Ylja verði áfram rekið sem færanlegt neyslurými sem og hvort komið verði á fót staðbundnu neyslurými á vegum sveitarfélagsins. Ráðherra er jákvæður fyrir áframhaldandi samstarfi við Reykjavíkurborg vegna reksturs neyslurýmis.