Ferill 560. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1171  —  560. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Diljá Mist Einarsdóttur um skipulag og stofnanir ráðuneytisins.


     1.      Stendur yfir vinna í ráðuneytinu varðandi stofnanaskipulag þess með það að markmiði að ná fram aukinni hagræðingu og skilvirkni í starfsemi? Ef já, hvaða?
    Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið er stöðugt að greina hvernig verkaskiptingu og stofnanaskipulagi er háttað á verksviði ráðuneytisins til að meta hvað sé hentugast hverju sinni til að ná fram skilvirkni, málefnalegu starfi og rekstrarhagræði. Um þessar mundir vinnur ráðuneytið að því að sameina tvær stofnanir þess, þ.e. Fjölmenningarsetur og Vinnumálastofnun. Markmiðið með sameiningunni er m.a. að tryggja heildræna og samþætta þjónustu við innflytjendur og flóttafólk í einni stofnun og nýta þjónustuskrifstofunet Vinnumálastofnunar til að ná til þjónustuþega um allt land.

     2.      Hefur ráðherra brugðist við tillögum til úrbóta í stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar frá desember 2021? Ef já, hvernig?
    Frá því að stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar var gerð árið 2021 um stofnanir ríkisins, fjölda, stærð og stærðarhagkvæmni hefur átt sér stað veigamikil breyting á stjórnarráðinu, fjölda ráðuneyta og verkaskiptingu þeirra. Með forsetaúrskurði frá í febrúar 2022 færðust til að mynda þrjár stórar stofnanir undan forræði félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins til annarra ráðuneyta. Svigrúm ráðuneytisins til sameiningar eða endurskipulagningar stofnana sinna þrengdist sem þessu nam en engu að síður heldur ráðuneytið áfram að vinna að slíkum verkefnum eins og sjá má í svari við 1. tölul. fyrirspurnarinnar. Ráðuneytið hefur einnig haldið áfram reglubundnu samtali við forstöðumenn stofnana sinna um verkaskiptingu þeirra í millum og hvernig megi tryggja skilvirka og hagkvæma þjónustu þeirra.

     3.      Hversu margar eru stofnanir ráðuneytisins?
    Þær eru níu.

     4.      Hversu margar stofnanir ráðuneytisins hafa færri en 50 starfsmenn?
    Sex þeirra hafa færri en 50 starfsmenn.

     5.      Er til skoðunar að sameina stofnanir ráðuneytisins?
    Sjá svar við 1. tölul. fyrirspurnarinnar.