Ferill 522. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 941  —  522. mál.




Svar


utanríkisráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.


     1.      Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá utanríkisráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
                  a.      hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
                  b.      hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
                  c.      hversu mörg ný störf er um að ræða.
                      a.      Á tímabilinu 28. nóvember 2021 til loka nóvember 2022 hefur engin skipun í embætti átt sér stað í utanríkisráðuneytinu. Til starfa hafa verið ráðin 33, þar af 22 sérfræðingar og fulltrúar, en 11 starfsnemar.
                      b.      Eðli máls samkvæmt eru starfsnemar ávallt ráðnir í tímabundið starf til sex eða til tólf mánaða. Þrjár af stöðum sérfræðinga eru tímabundnar vegna afleysinga.
                      c.      Ráðið hefur verið í tvö ný störf.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
    Öll störf sem ráðið var í á tímabilinu voru auglýst í átta auglýsingum.

     3.      Hver var fjöldi stöðugilda hjá utanríkisráðuneyti við skipan nýrrar ríkisstjórnar í nóvember 2017 samanborið við fjölda stöðugilda í september 2022? Hafi orðið breyting á málefnasviði ráðuneytisins á þessum tíma er óskað eftir að tilgreind sé breyting á starfsmannafjölda með tilliti til þess.
    Árið 2017 voru 206,57 stöðugildi í utanríkisráðuneytinu, þ.e. starfsfólk á launaskrá á Íslandi. 1 Eftir þann tíma urðu tvær meginbreytingar á málefnasviði og verkefnum ráðuneytisins. Annars vegar tók utanríkisráðuneytið við útgáfu Schengen-vegabréfsáritana fyrir hönd Útlendingastofnunar og stofnuð var innan ráðuneytisins sérstök áritanadeild þar sem starfa tíu starfsmenn á Íslandi, auk starfsmanna í sendiráðum erlendis sem koma að sömu vinnu. Hins vegar voru í kjölfar sameiningar Þróunarsamvinnustofnunar Íslands og ráðuneytisins ráðnir fimm sérfræðingar á sviði þróunarmála til starfa í utanríkisráðuneytinu. Enn fremur hefur verið bætt við tveimur stöðugildum á sviði alþjóðlegra öryggis- og varnarmála með áherslu á fjölþáttaógnir.
    Stöðugildi í utanríkisþjónustunni í september 2022 voru 227,39. Skýrist fjölgunin af ofangreindum breytingum.

     4.      Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá utanríkisráðuneyti á kjörtímabilinu?

    Ráðuneytið hefur fengið fjárheimildir til að standa undir verkefnum sem tengjast fjölþáttaógnum á sviði öryggis- og varnarmála sem hafa m.a. verið notaðar til að fjármagna stöður sérfræðinga á því sviði. Engar aðrar sérstakar fjárheimildir hafa komið til á kjörtímabilinu vegna nýrra starfsmanna.

    Alls fóru 3 vinnustundir í að taka svarið saman.

1    Ekki eru taldir með staðarráðnir starfsmenn á sendiskrifstofum erlendis sem starfa á vinnumarkaði hver í sínu landi og eru í ráðningarsambandi við sendiskrifstofu en ekki ráðuneytið.