Ferill 521. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1593 — 521. mál.
Svar
umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra við fyrirspurn frá Helgu Völu Helgadóttur um fjölgun starfsfólks og embættismanna.
1. Hversu margt starfsfólk hefur verið ráðið til starfa hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti frá því að ný ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur tók við völdum 28. nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því:
a. hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu,
b. hvort um er að ræða tímabundnar ráðningar/skipanir eða ótímabundnar,
c. hversu mörg ný störf er um að ræða.
Gerðir hafa verið fjórir ráðningarsamningar á tímabilinu frá 28. nóvember 2021.
Einn sérfræðingur var ráðinn ótímabundið til starfa á tímabilinu að undangenginni auglýsingu. Ekki var um nýtt starf að ræða.
Einn forstöðumaður stofnunar fluttist í ótímabundna stöðu sérfræðings í ráðuneytinu á grundvelli 2. mgr. 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um nýtt starf var að ræða. Ákvæði um auglýsingu á ekki við um það starf.
Tengt breytingu á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta, þegar málaflokkur orkumála fluttist til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis, var tveimur starfsmönnum menningar- og viðskiptaráðuneytis boðið starf í ráðuneytinu með vísan til 4. mgr. 21. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Ákvæði um auglýsingu starfa á ekki við um þau störf.
2. Hversu margar stöður hafa verið auglýstar frá því í nóvember 2021? Svar óskast sundurliðað eftir því hvort um er að ræða skipun í embætti eða ráðningu.
Á tímabilinu hefur ein staða sérfræðings verið auglýst og eitt embætti skrifstofustjóra.
3. Hver er fjöldi stöðugilda á málefnasviðum umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis samanborið við fjölda stöðugilda sömu málefnasviða í viðeigandi ráðuneytum í nóvember 2017?
Þrjú stöðugildi voru á málefnasviði orkumála í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti árið 2017. Þegar málaflokkur orkumála fluttist til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis með breytingu á forsetaúrskurði fjölgaði um tvö stöðugildi í ráðuneytinu.
Málefnasvið menningarminja fluttist einnig frá mennta- og menningarmálaráðuneyti til ráðuneytisins. Um 1,2 stöðugildi var að ræða hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti árið 2017 og færðist það ekki til umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis með breytingu á forsetaúrskurði.
4. Hver er áætlaður viðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti á kjörtímabilinu?
Með málaflokki orkumála færðust tveir starfsmenn til ráðuneytisins og auk þess fluttist forstöðumaður stofnunar í stöðu sérfræðings í ráðuneytinu. Á tímabilinu hefur einnig fækkað um fjóra starfsmenn vegna aldurstengdra starfsloka og auk þess fækkaði um tvo starfsmenn í fullu starfi en einnig var ráðið í tvær stöður, sbr. svar við 2. tölul. fyrirspurnarinnar. Heildarbreytingin á kjörtímabilinu er fækkun um eitt starf en áætlaður kostnaðarábati vegna frestunar ráðningar frá byrjun kjörtímabils og fram til september 2023 nemur um 71,6 millj. kr.
Fram undan eru auglýsingar fyrir störf fjögurra sérfræðinga í tengslum við nýtt skipurit ráðuneytisins sem tók gildi 1. janúar sl. en áætlaður heildarviðbótarkostnaður vegna fjölgunar starfsfólks hjá ráðuneytinu á þessu ári að meðtöldum nýráðningum er um 31 millj. kr.