Ferill 494. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1083  —  494. mál.




Svar


heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Jóhanni Páli Jóhannssyni um sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslunni.


     1.      Hver er biðtími eftir sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslustöðvum? Óskað er eftir yfirliti yfir árlegan meðalbiðtíma á öllum heilsugæslustöðvum á landinu síðustu fjögur ár.
    Upplýsingarnar í svari við 1. og 2. tölul. fyrirspurnarinnar byggjast á gögnum beint frá þeim stofnunum sem reka heilsugæslustöðvar og frá einkareknum heilsugæslustöðvum. Gögnin, skráning og aðgengi að þeim, eru misjöfn milli stöðva. Þar sem þau eru ekki samræmd er hvorki ekki hægt að gera beinan samanburð milli heilsugæslustöðva eða milli ára.
    Meðalbiðtími er yfirleitt notaður í þessu svari. Meðalbiðtími getur gefið ákveðnar vísbendingar um bið eftir þjónustu en mikilvægt er að hafa í huga að það er forgangsraðað eftir alvarleika mála. Ef þörf er á bráðaþjónustu er hún veitt umsvifalaust og/eða vísað á rétt þjónustustig. Einnig geta verið tvítalningar á listunum og einstaklingar enn skráðir sem hafa þegar fengið þjónustu annars staðar. Er verið að vinna að því að samræma skráningu til að stuðla að nákvæmari gagnaöflun og betri yfirsýn.
    Í heilbrigðisumdæmi höfuðborgarsvæðisins er Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins með 15 heilsugæslustöðvar og þar eru einnig fjórar einkareknar heilsugæslur. Í hinum heilbrigðisumdæmunum sex sér hver heilbrigðisstofnun í hverju heilbrigðisumdæmi fyrir sig um heilsugæsluþjónustu í viðkomandi heilbrigðisumdæmi.
     Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH). Eftirfarandi tölur eru meðaltalstölur fyrir biðtíma eftir sálfræðiþjónustu hjá 15 heilsugæslustöðvum HH:
    2019: 65 dagar fyrir fullorðna, 66 dagar fyrir börn.
    2020: 90 dagar fyrir fullorðna, 76 dagar fyrir börn.
    2021: 141 dagur fyrir fullorðna, 168 dagar fyrir börn.
    1.1.–1.12.2022: 152 dagar fyrir fullorðna, 234 dagar fyrir börn.
     Heilsugæslan Höfða. Upplýsingarnar liggja ekki fyrir.
     Heilsugæslan Kirkjusandi. Upplýsingarnar liggja ekki fyrir.
     Heilsugæslan Salahverfi. Upplýsingarnar liggja ekki fyrir.
     Heilsugæslan Urðarhvarfi. Biðtími eftir sálfræðiþjónustu hefur að meðaltali verið um þrjár til fjórar vikur en undanfarið hefur hann þó verið að lengjast og er núna um sex til átta vikur.
     Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE) sér um heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vesturlands. Biðlistakerfi stofnunarinnar var nokkurn tíma í þróun og skráning í kerfið hófst í árið 2020. Fyrsta úttekt á biðlista þar er frá 30. júní 2020. Meðalbiðtími þá var 16,1 vika. Í janúar 2021 er meðalbiðtími barna 16,4 vikur en fullorðinna 23,4 vikur. Í október 2022 er staðan sú að stofnunin hefur skipt biðtímanum upp í fjögur tímabil þar sem horft er á þriggja mánaða viðmið eins og á öðrum biðlistum. Á þeim tíma hefur 21 barn, þ.e. 17 ára og yngra, beðið skemur en þrjá mánuði, 10 börn beðið í þrjá til sex mánuði, 25 börn í sex til 12 mánuði og 43 börn beðið lengur en eitt ár. Á sama tíma er staðan á lengd biðtíma fullorðinna, þ.e. 18 ára og eldri, þannig að 71 einstaklingur hefur beðið skemur en þrjá mánuði, 49 þrjá til sex mánuði, 46 í sex til 12 mánuði og 30 einstaklingar lengur en í eitt ár.
     Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST) sér um heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæmi Vestfjarða. Síðustu tvö ár hefur biðtíminn verið um tvær vikur. Upp á síðkastið hefur biðtíminn aðeins lengst og er núna um einn mánuður. Ekki liggja fyrir upplýsingar um biðtíma fyrir þremur og fjórum árum.
     Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN) sér um heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæmi Norðurlands. Fyrsta viðtal fullorðinna við sálfræðing hjá HSN er matsviðtal þar sem lagt er mat á vanda og ákvörðun tekin um meðferð. Bið eftir fyrsta matsviðtali getur verið mismunandi eftir starfsstöðvum HSN og er nú frá u.þ.b. fjórum vikum til allt að 12 vikum. Bið eftir frekari meðferð eftir matsviðtalið í formi hópmeðferðar eða einstaklingsmeðferðar getur aftur á móti verið lengri.
    Biðtími hjá HSN fyrir börn að 16 ára aldri er styttri en biðtími fullorðinna. Listinn fyrir börn er aðeins einn en ekki svæðaskiptur eins og biðlistar fullorðinna. Það skýrist af því að nær allri sálfræðiþjónustu við börn er sinnt frá Akureyri. Tilvísanir fyrir börn eru metnar við móttöku og þeim skipt í þrjá hópa eftir forgangi. Þegar barn er metið í forgangi fær það að jafnaði viðtal innan einnar viku til tveggja vikna. Í öðrum forgangi er bið nú lengst sjö vikur og í þriðja forgangi er lengsta bið nú níu til ellefu vikur. Nokkrar árstíðasveiflur geta verið í tilvísanafjölda fyrir börn sem aftur hefur þá áhrif á biðtíma.
     Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) sér um heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæmi Austurlands. Biðtími eftir sálfræðiþjónustu innan HSA er að meðaltali sex mánuðir. Undanþágur eru þó vegna bráðra mála, m.a. vegna ofbeldis, sjálfsvígshugsana/sjálfsvígstilrauna og kvenna á meðgöngu.
     Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSU) sér um heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæmi Suðurlands. Meðalbiðtími eftir sálfræðiþjónustu hjá HSU er aðeins breytilegur eftir forgangsröðun og starfsstöðum (frá 1–24 mánuðir) en meðalbiðtími væri líklega um 18–24 mánuðir.
     Heilbrigðisstofnun Suðurnesja (HSS) sér um heilsugæsluþjónustu í heilbrigðisumdæmi Suðurnesja. Hjá HSS er sálfræðiþjónusta veitt fullorðnum hjá geðteymi fullorðinna og börnum hjá forvarnar- og meðferðarteymi barna. Í desember 2022 er biðtími fullorðinna sex til sjö mánuðir en biðtími barna í forvarnar- og meðferðarteymi barna er tveir til þrír mánuðir. Meðalbiðtími síðustu fjögur ár liggur ekki fyrir.

     2.      Hversu margir eru á biðlista eftir sálfræðiþjónustu hjá heilsugæslustöðvum? Óskað er eftir yfirliti yfir fjölda á biðlistum síðustu fjögur ár.
     Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH). Heildarfjöldi á biðlista eftir sálfræðiþjónustu hjá öllum 15 heilsugæslustöðvum HH í lok hvers árs:
    Í lok árs 2019: 144 á bið eftir sálfræðingi fyrir fullorðna (32 luku meðferð á árinu). 63 á bið eftir barnasálfræðingi (16 luku meðferð).
    Í lok árs 2020: 546 á bið eftir sálfræðingi fyrir fullorðna (525 luku meðferð á árinu). 408 á bið eftir barnasálfræðingi (377 luku meðferð).
    Í lok árs 2021: 1.091 á bið eftir sálfræðingi fyrir fullorðna (1.064 luku meðferð á árinu). 763 á bið eftir barnasálfræðingi (688 luku meðferð).
    1. desember 2022: 914 á bið eftir sálfræðingi fyrir fullorðna, (1.081 luku meðferð). 765 á bið eftir barnasálfræðingi (647 luku meðferð).
     Heilsugæslan Höfða. Upplýsingarnar liggja ekki fyrir.
     Heilsugæslan Kirkjusandi. Upplýsingarnar liggja ekki fyrir.
     Heilsugæslan Salahverfi. Upplýsingarnar liggja ekki fyrir.
     Heilsugæslan Urðarhvarfi. Skjólstæðingar fá tíma hjá sálfræðingi um leið og beiðni berst en síðan getur verið bið eftir tímanum sjálfum. Þannig að ekki er eiginlegur biðlisti til staðar.
     Heilbrigðisstofnun Vesturlands (HVE). Eftirfarandi tölur sýna fjölda á biðlista á tilteknum tíma:
    Í júní 2020 voru 224 á biðlista en samtals 198 í meðferð.
    Í janúar 2021 voru 350 á biðlista, þar af 80 börn og 270 fullorðnir, en samtals 340 í meðferð.
    Í október 2021 voru 362 á biðlista, þar af 114 börn og 248 fullorðnir, en samtals 307 í meðferð.
    Í október 2022 voru 295 á biðlista, þar af 99 börn og 196 fullorðnir, en samtals 378 í meðferð.
    Heilbrigðisstofnun Vestfjarða (HVEST). Síðustu tvö ár hefur nánast enginn biðlisti verið en ekki liggja fyrir upplýsingar um stöðuna fyrir þrem og fjórum árum.
    Heilbrigðisstofnun Norðurlands (HSN). Á HSN bíða nú 80–90 fullorðnir og ungmenni 16–17 ára eftir fyrsta matsviðtali hjá sálfræðingi á heilsugæslustöðvum stofnunarinnar og 35 börn.
     Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA). Á HSA eru nú 54 einstaklingar á biðlista fullorðinna, 29 börn 13 ára og eldri og 58 börn 12 ára og yngri.
     Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Ekki liggja fyrir upplýsingar um fjölda á biðlista heldur einungis fjölda tilvísana.
     Heilbrigðisstofnun Suðurnesja. Í desember 2022 eru 53 fullorðnir á biðlista en 28 börn á biðlista barna.

     3.      Hvernig hyggst ráðherra bregðast við þeirri stöðu að hátt í þriðjungur af komum á heilsugæslu er vegna andlegs vanda?
    Í almennri móttöku á heilsugæslum landsins taka læknar og hjúkrunarfræðingar á móti langflestu fólki og þar af leiðir taka þeir einnig á móti flestum þeim sem koma í almenna móttöku með geðrænar áskoranir. Þeim sem þurfa á annarri þjónustu að halda er þá vísað áfram í viðeigandi úrræði, svo sem sálfræðiþjónustu.
    Þingsályktun um stefnu í geðheilbrigðismálum var samþykkt á Alþingi í júní síðastliðnum með öllum greiddum atkvæðum. Meginstef stefnunnar snýr að því að geðheilbrigðisþjónusta skuli byggjast á bestu mögulegu gagnreyndu meðferðarúrræðum, verði samþætt og heildræn og veitt af hæfu starfsfólki á viðeigandi þjónustustigum. Mikil áhersla er á þverfaglegt samstarf og að geðheilbrigðisþjónusta verði í vaxandi mæli notendamiðuð, batahvetjandi og valdeflandi. Einn áhersluþáttur stefnunnar lýtur að mikilvægi heildrænnar geðheilsueflingar þar sem áhersla er á geðrækt, forvarnir og snemmbær úrræði. Allt þetta beinist að því að stuðla að betri geðheilsu þjóðarinnar og því að veita sem besta geðheilbrigðisþjónustu.
    Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu haghafa. Vinnu við fyrstu aðgerðaáætlunina er að ljúka.

     4.      Hvernig hyggst ráðherra tryggja aukið aðgengi að sálfræðiþjónustu fyrir börn og fullorðna?
    Geðheilbrigðisþjónusta fyrir börn og fullorðna er í stöðugu umbótaferli á landsvísu. Miklar framfarir hafa orðið undanfarin ár í því að auka aðgengi barna, fullorðinna og skilgreindra hópa að geðheilbrigðisþjónustu. Þar ber helst að nefna aukna þverfaglega geðheilbrigðisþjónustu á öllum heilbrigðisstofnunum landsins, þ.m.t. sálfræðiþjónustu. Er hún veitt bæði á 1. stigi og 2. stigi heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. með geðheilbrigðisþjónustu á heilsugæslustöðvunum sjálfum og svo með geðheilsuteymum sem vinna náið með annarri þjónustu heilsugæslunnar. Heilsugæslur veita bæði einstaklings- og hópmeðferð við geðrænum vanda. Geðheilsuteymin eru almenn og sérhæfð. Þau vinna í heilbrigðisumdæmunum, en önnur vinna á landsvísu og eru þá sérhæfðari, svo sem geðheilsuteymi fangelsa og geðheilsuteymi taugaþroskaraskana.
    Á þessu ári hafa þrjár nýjar einingar farið af stað hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem veita 2. stigs þjónustu á landsvísu. Þær eru Heilaörvunarmiðstöðin, ADHD-teymi fullorðinna og Geðheilsumiðstöð barna. Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu er ætlað að samræma þjónustuna á landsvísu og á þessu ári gaf hún út gæðahandbók fyrir sálfræðiþjónustu tengda heilsugæslunni.
    Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fara í átaksverkefni til þess að vinna á biðlistum eftir ADHD-greiningum barna hjá Geðheilsumiðstöð barna í samvinnu við sjálfstætt starfandi barnalækna og barnageðlækna. Heilbrigðisráðherra undirbýr einnig skipun nefndar um gerð grænbókar um stöðu ADHD-mála á Íslandi. Grænbókin verður unnin út frá samráðssjónarmiðum með áherslu á upplýsingasöfnun, stöðumat og framtíðarsýn. Einnig verður í henni lýst samvinnu helstu kerfa sem snerta málaflokkinn og þeim áskorunum og tækifærum sem þar leynast. Væntingar standa til þess að grænbókarvinnan leiði af sér tillögur til úrbóta í málaflokknum.
    Í fyrrnefndri nýrri stefnu í geðheilbrigðismálum til 2030 er lögð áhersla á áframhaldandi þróun og eflingu geðheilbrigðisþjónustu í landinu. Til að hrinda stefnunni í framkvæmd verða gerðar áætlanir um aðgerðir til fimm ára í senn í samráði við helstu haghafa. Er vinnunni við þá aðgerðaáætlun að ljúka.

     5.      Hvaða skipulagsbreytingar voru gerðar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hinn 22. mars 2022?
    Þær skipulagsbreytingar voru gerðar að 50% staða fagstjóra sálfræðinga var lögð niður.

     6.      Hvers vegna var staða fagstjóra sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins lögð niður?
    Framkvæmdastjóri geðheilbrigðisþjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) var ráðinn í fullt starf 1. ágúst 2021 en hann ber faglega ábyrgð á geðheilbrigðisþjónustu HH. Klínískur fagstjóri sálfræðinga í 50% starfi var staðsettur miðlægt í skipuriti HH sem kom niður á samþættingu sálfræðiþjónustunnar. Markmiðið með breytingunni var því að einfalda og bæta skipurit. Núna er HH að auglýsa og ráða í tvær leiðtogastöður sálfræðinga, þ.e. barna og fullorðinna, sem verða 50% stöður hvor um sig. Leiðtogar munu koma að skipulagi, útfærslu og þróun sálfræðiþjónustu við aðra starfsemi HH.

     7.      Var haft samráð við fagfélag sálfræðinga þegar skipulagsbreytingarnar voru gerðar?
    Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi sinnar stofnunar, í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Enn fremur ber forstjóri ábyrgð á að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma stofnunarinnar sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt, skv. 2. mgr. 38. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Umboð forstjóra til skipulagsbreytinga er víðtækt til að tryggja að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt. Fyrrgreindar skipulagsbreytingar varða innra stjórnendaskipulag Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og það var metið svo af HH að ekki þyrfti að bera þær undir fagfélög.

     8.      Hve margir sálfræðingar hafa hætt störfum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins síðan ráðist var í skipulagsbreytingarnar?
    Tíu sálfræðingar á heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) hættu störfum árið 2022. Fimm þeirra voru í tímabundnum ráðningum/afleysingum og hættu þegar ráðning þeirra rann út. Fimm sálfræðingar í ótímabundnum ráðningum sögðu starfi sínu lausu, tveir þeirra hættu vegna óánægju með skipulagsbreytingarnar.
    Á nýstofnaðri Geðheilsumiðstöð barna hættu að auki sjö sálfræðingar á árinu vegna skipulagsbreytinga. Þeir voru starfandi á Þroska- og hegðunarstöð sem var lögð niður og starfsemin sameinuð Geðheilsumiðstöð barna.
    Alls hafa því níu sálfræðingar sagt upp á árinu tengt skipulagsbreytingum en 46 sálfræðingar eru nú að störfum hjá HH, eða jafn margir og fyrir ári.

     9.      Hver hefur meðalbiðtími og fjöldi á biðlista eftir sálfræðiþjónustu hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins verið á árinu 2022, sundurliðað eftir mánuðum?
    Tölur varðandi mánaðarlega sundurliðun fyrir árið 2022 liggja ekki fyrir samkvæmt upplýsingum frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.