Ferill 487. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Microsoft Word.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 577  —  487. mál.
Stjórnartillaga.



Tillaga til þingsályktunar


um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145.


Frá forsætisráðherra.



    Alþingi ályktar að eftirfarandi breytingar verði gerðar á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145:
     a.      1. mgr. orðist svo:
                      Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að fylgja eftirfarandi stefnu um þjóðaröryggi sem tryggi sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegt stjórnarfar og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og mikilvægra innviða samfélagsins.
     b.      1. tölul. orðist svo: Að tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála, afvopnun, virðingu fyrir lýðræðislegum gildum, mannréttindum og réttarríkinu, jafnrétti kynjanna og baráttu gegn ójöfnuði, hungri og fátækt að leiðarljósi. Lögð verði áhersla á mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til og að stjórnvöld taki virkan þátt í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu hvert á sínu sviði.
     c.      2. tölul. orðist svo: Að horft verði sérstaklega til umhverfis- og öryggishagsmuna Íslands á hafsvæðinu umhverfis landið og á norðurslóðum í alþjóðasamvinnu og innlendum viðbúnaði.
     d.      7. tölul. orðist svo: Að stuðlað verði að vernd og órofa virkni mikilvægra innviða og styrkingu áfallaþols samfélagsins gagnvart hvers kyns ógnum. Lögð verði áhersla á að tryggja skilvirkan og samhæfðan viðbúnað og viðbrögð til þess að takast á við afleiðingar hvers kyns ógna við líf og heilsu fólks, umhverfi, eignir og innviði. Tekið verði mið af ógnum sem tengjast, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum.
     e.      Á eftir 7. tölul. komi nýr töluliður, 8. töluliður, svohljóðandi, og breytist röð annarra töluliða samkvæmt því: Að sporna við röskun á lífsskilyrðum og búsetu vegna loftslagsbreytinga, m.a. með samdrætti í kolefnislosun, orkuskiptum, grænni fjárfestingu og virkri þátttöku í alþjóðlegu samstarfi til að bregðast við loftslagsbreytingum.
     f.      8. tölul. orðist svo: Að stuðla að auknu net- og upplýsingaöryggi á öllum sviðum samfélagsins með samhæfðum aðgerðum, áframhaldandi uppbyggingu á eigin getu og með samstarfi við önnur ríki.
     g.      9. tölul. orðist svo: Að stefna stjórnvalda taki mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, svo sem hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og ógnum við stjórnskipun, stjórnkerfi og fjarskipti, þar á meðal fjarskiptatengingar við útlönd, orkuöryggi og fjármála- og efnahagsöryggi.
     h.      11. tölul. orðist svo: Að þjóðaröryggisráð, er starfi á grundvelli sérstakra laga, meti ástand og horfur í þjóðaröryggismálum með reglulegum hætti, hafi eftirlit með framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar, endurspegli þá breiðu sýn á þjóðaröryggi sem birtist í stefnunni og standi fyrir endurskoðun hennar eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Greinargerð.

Almennt.
    Með samþykkt þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145, 13. apríl 2016 fól Alþingi ríkisstjórninni að fylgja stefnu um þjóðaröryggi, sem tryggi sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins.
    Samkvæmt lögum um þjóðaröryggisráð ber ráðinu að stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á fimm ára fresti. Þjóðaröryggisráð hefur fjallað um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar á reglulegum fundum og á sérstökum vinnufundi. Var litið til þess að störf þjóðaröryggisráðs á undanförnum árum eru til þess fallin að leggja góðan grunn að ábendingum um endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar. Má þar nefna umræður á vettvangi ráðsins, skýrslur varðandi eftirlit ráðsins með framfylgd stefnunnar, skýrslu um mat ráðsins á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum frá árinu 2021 og skýrslu um upplýsingaóreiðu og COVID-19. Auk þess má nefna ráðstefnur og málþing sem þjóðaröryggisráð hefur staðið fyrir, m.a. um fullveldi og þjóðaröryggi og um fjölþáttaógnir. Í skýrslu þjóðaröryggisráðs um mat á ástandi og horfum í þjóðaröryggismálum sem birt var í febrúar 2021 var lagt mat á margvíslega áhættuþætti og í þeim efnum tekið mið af markmiði og áherslum þjóðaröryggisstefnunnar. Margir þessara áhættuþátta tengjast innbyrðis og eru bæði af alþjóðlegum og innlendum toga. Lagt var mat á einstaka áhættuþætti, aðlögunarhæfni samfélagsins og áfallaþol þess, m.a. í tengslum við virkni mikilvægra innviða samfélagsins. Í skýrslunni var einnig að finna ábendingar um þætti sem þjóðaröryggisráð telur að þurfi að taka til sérstakrar skoðunar af hálfu stjórnvalda.
    Að mati þjóðaröryggisráðs hefur þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti árið 2016 staðið vel fyrir sínu. Stefnan endurspeglar áherslur sem bera vott um framsýni, annars vegar vegna þess að í stefnunni er lögð til grundvallar víðtæk nálgun á öryggishugtakið og hins vegar byggist hún á mikilvægi samhæfingar innan stjórnkerfisins í því skyni að ná markmiðum hennar.
    Ein af frumskyldum stjórnvalda hvers ríkis er að tryggja öryggi og varnir lands og þjóðar – að tryggja þjóðaröryggi. Með þjóðaröryggi er átt við öryggi gegn ógnum er kunna að valda sjálfstæði, fullveldi, lýðræðislegu stjórnarfari og friðhelgi landamæra Íslands, öryggi borgaranna og stjórnkerfi og mikilvægum innviðum samfélagsins stórfelldum skaða, hvort sem um er að ræða innri eða ytri ógnir af mannavöldum eða vegna náttúruhamfara.
    Þjóðaröryggisstefnan byggist á víðtækri skilgreiningu öryggishugtaksins þar sem litið er til hnattrænna, samfélagslegra og hernaðarlegra áhættuþátta. Stefnan felst m.a. í virkri utanríkisstefnu, almannaöryggi og varnarsamstarfi við önnur ríki og tekur mið af samþættingu og tengslum öryggisþátta. Í stefnunni er að finna meginmarkmið í þjóðaröryggismálum bæði í innlendu og alþjóðlegu samhengi.
    Stefnan byggist á þeim skuldbindingum sem felast í stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna og hefur grunngildi þjóðarinnar að leiðarljósi; lýðræði og virðingu fyrir réttarríkinu og alþjóðalögum, mannúð og verndun mannréttinda, jafnrétti og sjálfbæra þróun, afvopnun og friðsamlega lausn deilumála. Vernd grundvallarréttinda, réttaröryggi borgaranna og stöðugleiki í stjórnskipulegu, efnahagslegu, menningarlegu og félagslegu tilliti eru meðal þeirra grundvallargilda sem borgaralegt og þjóðfélagslegt öryggi hvílir á. Grundvallarforsenda þjóðaröryggisstefnunnar er staða Íslands sem fámennrar eyþjóðar sem hvorki hefur burði né vilja til að ráða yfir her og tryggir öryggi sitt og varnir með virkri samvinnu við önnur ríki og innan alþjóðastofnana.
    Þjóðaröryggisráð hefur bent á að ógnir og aðrar áskoranir í öryggismálum eru síbreytilegar og flóknari en áður. Hröð tækniþróun, einkum í net- og upplýsingatækni, hefur leitt til margvíslegra framfara en um leið nýrra áskorana. Tækifærin sem felast í tæknibreytingum okkar tíma þarf að nýta af ábyrgð og tryggja að þær verði til þess að styrkja þau grunngildi sem liggja þjóðaröryggisstefnunni til grundvallar og endurspeglast í stjórnarskránni. Á hinn bóginn getur andvaraleysi á þessu sviði grafið undan lýðræðislegu stjórnarfari og grunngildum á kostnað mannréttinda og lýðræðis. Þannig hefur hnattvæðing og hröð tækniþróun gjörbreytt stöðunni á alþjóðavettvangi.
    Ný staða í öryggismálum Evrópu, alvarlegar afleiðingar hernaðar Rússa í Úkraínu og aukin spenna í alþjóðasamskiptum kalla á aukna árvekni á fjölmörgum málefnasviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til.
    Með vísan til framangreinds er rétt að auka skýrleika á tilteknum sviðum þeirrar stefnu sem lagt er til að Alþingi feli ríkisstjórninni að fylgja á næstu árum til að tryggja grundvallarhagsmuni þjóðarinnar. Efni þessarar tillögu um breytingu á þingsályktun um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, nr. 26/145, tekur mið af framangreindum sjónarmiðum þjóðaröryggisráðs.
    Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem Alþingi samþykkti árið 2016 eru tilgreindar áherslur sem ríkisstjórnin á að framfylgja og hafa allar jafnt vægi. Ákvarðanir stjórnvalda er varða framfylgd þjóðaröryggisstefnunnar eru teknar í þeim ráðuneytum sem falin hefur verið ábyrgð á tilgreindu stjórnarmálefni samkvæmt forsetaúrskurði.
    Að aftan má finna skýringar á einstökum liðum tillögunnar.

1. Um a-lið.
    Opin og upplýst lýðræðisleg umræða er grundvallarþáttur í lýðræðislegri stjórnskipan. Lýðræði og mannréttindum er sífellt ögrað um allan heim með margvíslegum aðferðum, sem sérstaklega er ætlað að skapa glundroða og óstöðugleika í samfélögum ásamt því að grafa undan trausti og lýðræðislegum ferlum. Það að standa vörð um opna og upplýsta lýðræðislega umræðu þarf að byggjast á virðingu fyrir lýðræði og mannréttindum en ekki fela í sér aðgerðir sem grafa undan þeim grundvallargildum sem þarf að verja eða þeirri ábyrgð sem er kjarni lýðræðisskipulagsins.
    Hugtakið fjölþáttaógnir tekur til aðferðar sem felst í því að beita mismunandi aðgerðum með samtengdum og skipulögðum hætti í þeim tilgangi að veikja áfallaþol samfélagsins, draga mátt úr lýðræðinu og minnka traust. Má þar nefna undirróðursherferðir, dreifingu falsfrétta, íhlutun í kosningar, efnahagsþvinganir, netárásir og hagnýtingu veikleika í innviðum sem raska virkni þeirra sem og beitingu óhefðbundinna herflokka eða málaliða sem jafnvel falla ekki formlega undir herafla árásarríkisins. Þó að herferðir upplýsingafölsunar og falsfréttir séu þekktar í sögunni eru dreifingaraðferðir flóknari og hraðari nú en áður. Hraði nýju tækninnar gerir það að verkum að áhrifin geta orðið bæði öflug og skyndileg. Þessi þróun kallar á aukna árvekni á fleiri sviðum en áður hefur þekkst og krefst víðtæks samráðs og samhæfingar innan stjórnkerfisins og á alþjóðavettvangi.
    Því er mikilvægt að þjóðaröryggisstefnan taki mið af þessari þróun og að í upphafsorðum stefnunnar sé tekið skýrt fram að tilgangur hennar sé að tryggja lýðræðislegt stjórnarfar og að í 1. tölul. sé hnykkt á því að það sé haft að leiðarljósi í alþjóðasamstarfi.

2. Um b-lið.
    Lagt er til að lögð sé áhersla á að hafa að leiðarljósi í alþjóðasamstarfi að tryggja lýðræðislegt stjórnarfar og að sú viðleitni sé höfð að leiðarljósi í alþjóðasamstarfi. Þá er lagt til að áréttað verði mikilvægi samvinnu og samhæfingar í stjórnkerfinu á þeim sviðum sem þjóðaröryggisstefnan tekur til og að stjórnvöld taki virkan þátt í norrænni, evrópskri og alþjóðlegri samvinnu hvert á sínu sviði.
    Ákvarðanir er lúta að því að framfylgja þjóðaröryggisstefnunni eru teknar víða í stjórnkerfinu.
    Breytt öryggisumhverfi hefur áhrif á Ísland og kallar á aukna árvekni á fleiri sviðum og krefst víðtæks samráðs og samhæfingar innan stjórnsýslunnar og á alþjóðavettvangi.
    Því er lagt til að árétta að öll ráðuneyti leggi áherslu á samstarf á innlendum sem erlendum vettvangi á sínum málefnasviðum í ljósi þess hversu fjölbreyttir og samtvinnaðir þeir hagsmunir sem þjóðaröryggisstefnan hvílir á eru.
    Net- og upplýsingatækni er orðin órjúfanlegur þáttur nútímasamfélags, forsenda framfara en um leið veikleiki sem unnt er að misnota. Truflanir í einu kerfi hvar sem er á hnettinum geta haft áhrif á stóru svæði. Þetta getur haft það í för með sér að margar ógnir tvinnast saman, t.d. með þeim hætti að truflanir annars staðar á hnettinum geta haft áhrif hérlendis t.d. vegna mikils vaxtar í tölvutengingum milli landa. Öryggis íslensks samfélags verður ekki gætt án náins samstarfs við önnur ríki og alþjóðastofnanir á flestum sviðum. Gagnkvæmur trúnaður og milliliðalaus samskipti stofnana eru mikilvæg forsenda fyrir árangri í öryggismálum. Í því samhengi skiptir miklu að leggja mat á hvaða lagaheimildir þurfa að vera fyrir hendi til að tryggja lögmætan grundvöll nauðsynlegra upplýsingasamskipta og trúnaðarmeðferðar gagna hjá íslenskum stjórnvöldum í alþjóðlegu samstarfi.

3. Um c-lið.
    Mikilvægi norðurslóða og hafsvæðisins umhverfis Ísland hefur aukist undanfarin ár og mun sú þróun halda áfram. Norðurslóðir eru víðfeðmt svæði í vistfræðilegum, efnahagslegum, pólitískum og öryggistengdum skilningi og því ber að skoða málefni svæðisins frá víðu sjónarhorni.
    Þingsályktun um stefnu Íslands í málefnum norðurslóða, nr. 24/151, var samþykkt á Alþingi 19. maí 2021. Samkvæmt henni er lögð áhersla á að gæta öryggishagsmuna á norðurslóðum á borgaralegum forsendum og á grundvelli þjóðaröryggisstefnunnar, vakta vel þróun í öryggismálum í samráði við aðrar Norðurlandaþjóðir og önnur bandalagsríki Íslands í NATO, mæla gegn hervæðingu og vinna markvisst að því að viðhalda friði og stöðugleika á svæðinu. Efla beri samstarf við önnur ríki um viðbúnað við eftirlit, leit, björgun og mengunarvarnir. Þar er enn fremur ítrekuð nauðsyn þess að efla og styrkja Norðurskautsráðið sem mikilvægasta samráðs- og samstarfsvettvang um málefni norðurslóða.
    Lagt er til að árétta mikilvægi þess að horft sé til umhverfisverndar, löggæslu, eftirlits, leitar og björgunarþjónustu á hafsvæðinu umhverfis Ísland í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland.
    Fullveldisréttur Íslands nær til landhelginnar, hafsbotnsins innan hennar og loftrýmisins yfir henni. Lögsaga Íslands í tilteknum málum nær enn fremur til 24 sjómílna aðlægs beltis. Efnahagslögsaga Íslands er svæði utan landhelgi sem afmarkast af línu sem miðast við 200 sjómílur frá grunnlínum landhelginnar. Innan efnahagslögsögunnar hefur Ísland fullveldisrétt að því er varðar rannsóknir, hagnýtingu, verndun og stjórnun auðlinda, lífrænna og ólífrænna, á hafsbotni og í honum, sem og í hafinu yfir honum. Enn fremur nær fullveldisrétturinn til annarra athafna varðandi efnahagslega nýtingu og rannsóknir innan svæðisins. Þá bera íslensk stjórnvöld ábyrgð á leitar- og björgunarsvæði sem er 1,9 milljónir ferkílómetra að flatarmáli. Svæðið teygir sig að hluta eða í heild yfir efnahagslögsögu fimm ríkja. Ísland ber ábyrgð á að hefja aðgerðir og stýra þeim vegna flugatvika og sjóatvika á þessu svæði.
    Önnur helstu öryggismál á hafsvæðinu við Ísland tengjast sjávarauðlindum, siglingaleiðum og landhelgi Íslands. Áhættuþættir lúta einkum að mengun, sjó- og flugslysum, farsóttum og sæstrengjum. Þá hefur hafsvæðið milli Grænlands, Íslands og Bretlands, svonefnt GIUK-hlið, fengið aukna athygli Atlantshafsbandalagsins á liðnum árum. Ný Atlantshafsherstjórn NATO í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum gegnir því hlutverki að tryggja öryggi og varnir siglingaleiða yfir Norður-Atlantshaf, í GIUK-hliðinu og norður í Íshaf.
    Landhelgisgæsla Íslands fer með löggæslu á hafi og sinnir þar öryggisgæslu, eftirliti og björgun. Löggæslan lýtur einkum að ólöglegum fiskveiðum, losun mengandi efna, siglingum innan landhelgi, smygli og mansali. Landhelgisgæslan fylgist með athöfnum og umferð um efnahagslögsögu í lofti og á sjó á leitar- og björgunarsvæði Íslands, og hefur samskipti við hafnaryfirvöld, Isavia og aðra aðila eftir því sem við á. Um er að ræða bæði rafrænt eftirlit og rauneftirlit, þ.e. eftirlitsferðir með þyrlum, skipum og flugvélum.
    Landhelgisgæsla Íslands annast mengunarvarnir og mengunareftirlit á hafinu á grundvelli sérstaks þjónustusamnings. Talsverð hætta er talin á mengun vegna losunar frá skipum og getur uppsöfnuð hætta ógnað öryggi með því að spilla auðlindum og umhverfi.

4. Um d-lið.
    Í stað þess að kveða á um að tiltekin stefna sem sett er af stjórnvöldum sé hluti af þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem Alþingi setur, er lagt til að fram komi í þjóðaröryggisstefnunni sjálfri hvaða þætti Alþingi felur ríkisstjórninni að leggja áherslu á að því er snertir almannaöryggi.
    Er hér lagt til annars vegar að árétta mikilvægi þess að tryggja vernd og samfellda virkni mikilvægra innviða og auka áfallaþol samfélagsins gagnvart allri ógn og hins vegar að takast á við afleiðingar hvers kyns ógna með skilvirkum og samhæfðum viðbúnaði og viðbragði. Tekið verði mið af ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, náttúruhamförum, fæðu- og matvælaöryggi, heilbrigðisöryggi og farsóttum og vernd og samfelldri virkni þýðingarmikilla innviða samfélagsins.
    Talin er ástæða til þess að ítreka þýðingu mikilvægra innviða samfélagsins í þjóðaröryggisstefnunni, þ.e. þeirra kerfa og þeirrar starfsemi sem er nauðsynleg fyrir virkni samfélagsins og efnahag, enda hefði það alvarlegar afleiðingar fyrir líf og heilsu íbúa og þá félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu þætti sem liggja til grundvallar samfélagsöryggi ef þessir innviðir virkuðu ekki sem skyldi. Algengast er að kalla þessi kerfi og þjónustu mikilvæga innviði. Tryggja þarf að starfsemi þeirra mikilvægu innviða sem íslenskt samfélag reiðir sig á lúti íslenskum lögum og samrýmist íslenskum þjóðaröryggishagsmunum.
    Áfallaþol samfélagsins er að mjög miklu leyti háð samfelldri virkni mikilvægra innviða, sem byggist í auknum mæli á samvirkni skipulags, mannvirkja og net- og upplýsingakerfa. Vöktun og stjórnun þessara kerfa er háð raforku, fjarskiptum og netöryggi. Virkni þeirra er tengd innbyrðis á margvíslegan hátt. Því getur kerfisbrestur á einu sviði haft alvarleg áhrif á virkni annarra kerfa og truflanir annars staðar á hnettinum haft áhrif hérlendis. Framangreind tenging mikilvægra innviða samfélagsins getur falið í sér kerfislægan veikleika sem unnt er að hagnýta með skipulögðum hætti, t.d. í tengslum við fjölþáttaaðgerðir. Öflugt og gott samstarf stjórnsýslustiga, stofnana og samtaka á öllum sviðum samfélagsins hér á landi og á alþjóðavettvangi er forsenda þess að unnt sé að lágmarka áhættu og bregðast við áföllum á árangursríkan hátt.
    Hvað varðar samhæfðan viðbúnað og viðbrögð til að takast á við afleiðingar hvers kyns almannahættu kveða lög um almannavarnir á um heildarskipulag íslenskra stjórnvalda til að samhæfa áhættuminnkandi aðgerðir og viðbrögð við neyðarástandi. Ábyrgðarsvið, skyldur ráðuneyta og ríkisaðila, sveitarstjórna og einkaaðila í þágu almannavarna og allar boðleiðir eru skýrar til að tryggja skilvirkni og samhæfingu. Almannavarnakerfið er altækt og tekur til alls íslensks yfirráðasvæðis í lofti, á láði og legi. Það endurspeglar mikilvægi öflugs og góðs samstarfs stjórnsýslustiga, stofnana, sveitarfélaga, fyrirtækja og samtaka enda forsenda þess að unnt sé að bregðast við áföllum á árangursríkan hátt.

5. Um e-lið.
    Loftslagsbreytingar af mannavöldum hafa alvarleg áhrif á lífsskilyrði, búsetu og pólitískan og samfélagslegan stöðugleika á heimsvísu. Flest bendir til að hlýnun lofthjúps jarðar haldi áfram næstu áratugi í takt við mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Loftslagsbreytinga verður vart á flestum sviðum sem snerta áherslur þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þær geta leitt til aukinnar tíðni náttúruhamfara og aftakaveðurs og haft margvísleg áhrif á náttúrufar og vistkerfi. Þær geta haft alvarlegar og langvarandi afleiðingar fyrir samfélag og efnahag, t.d. að því er varðar samgönguöryggi, orkuöryggi, matvælaöryggi, fæðuöryggi og samfellda virkni þýðingarmikilla innviða samfélagsins. Náttúruhamfarir og ofsaveður geta ógnað mikilvægum innviðum samfélagsins og loftslagsbreytingar auka hættu á tjóni. Mikilvægt er því að lögð sé áhersla á þennan veigamikla áhættuþátt í stefnunni.
    Súrnun sjávar er tengd loftslagsbreytingum þar sem hana má rekja til losunar gróðurhúsalofttegunda og aukins styrks koltvísýrings í andrúmslofti, sem hafið tekur til sín að stórum hluta. Súrnunin getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir lífríki sjávar, þar á meðal ýmsar nytjategundir á borð við skelfisk. Súrnun, hlýnun og mögulegar breytingar á hafstraumum geta valdið margvíslegum og ófyrirsjáanlegum breytingum á vistkerfi hafsins til langs tíma og þar með haft áhrif á fiskveiðar og fiskeldi.
    Þar sem loftslagsbreytingar eru hnattrænt vandamál skiptir miklu máli að stjórnvöld taki virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi til að bregðast við þeim. Um leið þurfa þau að beita sér fyrir víðtæku samstarfi hér á landi um aðgerðir sem eru til þess fallnar að draga úr neikvæðum áhrifum loftslagsbreytinga.

6. Um f-lið.
    Netið er burðarás nútímaþjóðfélags og undirstaða daglegs lífs, atvinnu, þjónustu og tæknilegra framfara. Net- og upplýsingaöryggi er þverfaglegt viðfangsefni sem krefst víðtækrar samvinnu og samhæfingar fjölmargra aðila innan og utan stjórnkerfisins. Því er lagt til að útvíkka 8. tölul. stefnunnar þannig að stefnan taki til net- og upplýsingaöryggis á öllum sviðum samfélagsins.
    Notkun á stafrænni samskiptatækni fer vaxandi og stöðugt fjölgar þeim formum verslunar og viðskipta sem fram fara stafrænt.
    Framhald hraðrar tækniþróunar, svo sem ólíkra kynslóða farneta, mun skapa enn auknar kröfur til öryggis fjarskipta-, net- og upplýsingakerfa. Með umfangsmikilli notkun skýjalausna hefur ógn við fyrirtæki sem bjóða slíka þjónustu aukist. Þá hefur ógn við birgðakeðjur tækni- og hugbúnaðarfyrirtækja ágerst.
    Mikilvægir innviðir landsins eru í vaxandi mæli sjálfvirkir og samtengdir net- og upplýsingakerfum. Þetta skapar nýja veikleika með tilliti til bilunar í tölvubúnaði, bæði hugbúnaði og vélbúnaði, sem m.a. getur verið af mannavöldum. Sú altæka tenging sem netið felur í sér gerir það að verkum að ríki, skipulagðir hópar og einstaklingar geta útvegað sér búnað og aflað sér þekkingar til að gera netárásir á mikilvæga innviði hvar sem er í heiminum.
    Í netöryggisstefnu Íslands 2022–2037 frá því í febrúar 2022 eru sett markmið og áherslur til að efla netöryggi alls samfélagsins; atvinnulífs, almennings og stjórnvalda. Stjórnvöld hafa nú til skoðunar leiðir til að stuðla að öruggu netumhverfi á Íslandi. Annað mikilvægt markmið er að auka hæfni notenda og nýtingu þeirra á netöryggistækni. Á grundvelli markmiða og áherslna stefnunnar vinna stjórnvöld að framkvæmd aðgerða sem bæta netöryggi á Íslandi.
    Jafnhliða er netið nú í auknum mæli vettvangur stafrænnar brotastarfsemi. Stafræn brot eiga það sameiginlegt að þau eru framin á netinu, í gegnum net- og samskiptamiðla eða fyrir tilstuðlan einhvers konar nettengds búnaðar.

7. Um g-lið.
    Í núgildandi þjóðaröryggistefnu er tiltekið að stefna stjórnvalda skuli taka mið af öðrum ógnum sem þarfnast fullrar athygli, líkt og hryðjuverkum, skipulagðri glæpastarfsemi og fjármála- og efnahagsöryggi. Til viðbótar er lagt til að einnig verði tekið mið af stjórnskipun, stjórnkerfi, fjarskiptum, þ.m.t. fjarskiptatengingum við útlönd, og orkuöryggi.
    Stórfelldar truflanir á fjarskiptum hafa kerfislægar afleiðingar sem geta orðið mjög neikvæðar fyrir flutning á orku og vatni, flugsamgöngur, heilsuvernd, löggæslu, banka-, fjármála- og verðbréfaþjónustu, viðbragðs- og neyðarþjónustu og samfellda starfsemi stjórnkerfisins.
    Nánast öll tal- og gagnafjarskipti við útlönd fara um ljósleiðara á landi og síðan um þrjá fjarskiptasæstrengi sem tengja Ísland við umheiminn, þar af um tvo til Evrópu. Nú er unnið að uppsetningu á nýjum fjarskiptasæstreng milli Íslands og Írlands. Ef sæstrengur rofnar eða virkni hans skerðist af öðrum sökum er fjarskiptum beint um hina sæstrengina og geta þeir þannig leyst hver annan af hólmi. Fjöldi sæstrengja hefur því bein áhrif á áfallaþol fjarskipta við útlönd. Að sæstrengjum frátöldum eru fjarskipti við útlönd aðeins möguleg um gervihnetti. Dæmi eru um að fyrirtæki og stofnanir noti gervihnattasamband til fjarskipta. Það gerir til að mynda Isavia sem hefur notað slíkt samband sem varaleið fyrir tal- og gagnasamband vegna flugleiðsögu. Einnig er algengt að í skipum sé gervihnattasamband notað fyrir tal- og gagnasamband. Gervihnattasamband hefur takmarkaða flutningsgetu og getur aðeins annað litlum hluta þeirra fjarskipta sem fara um sæstrengina og óvíst að slík fjarskiptasambönd um gervihnetti geti annað öllum fjarskiptaþörfum mikilvægra innviða eða ríkisins við útlönd.

8. Um h-lið.
    Alþingi samþykkti sérstök lög um þjóðaröryggisráð, nr. 98/2016, skömmu eftir samþykkt þingsályktunar um þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland árið 2016. Í lögunum er kveðið á um að þjóðaröryggisráð skuli vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál og samráðs- og samhæfingarvettvangur um framkvæmd ráðuneyta og stofnana á þjóðaröryggisstefnunni, sem ráðið hefur lögbundið eftirlit með. Hlutverk þjóðaröryggisráðs er jafnframt að meta reglulega ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum. Í samræmi við hina víðtæku skilgreiningu á öryggishugtakinu sem þjóðaröryggisstefnan hvílir á er talið rétt að leggja til að í stefnunni verði áréttað að mat þjóðaröryggisráðs á ástandi og horfum taki til allra málefnasviða stefnunnar.