Ferill 439. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 813  —  439. mál.




Svar


matvælaráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Mogensen um CBD-olíu.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvernig miðar vinnu starfshóps ráðherra sem hefur það hlutverk að fjalla um CBD-olíu (cannabidiol) og nauðsynlegar breytingar á lögum um matvæli, nr. 93/1995, lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, og lyfjalögum, nr. 100/2020, sem gera þarf til að framleiða og markaðssetja megi CBD-olíu hér á landi?

    Starfshópur sá er vísað er til í fyrirspurn hefur frá skipan fylgst náið með þróun mála er varða CBD á vettvangi Evrópusambandsins, þar sem til skoðunar er að fella CBD og aðra kannabínóíða sem unnir eru úr hampplöntum undir nýfæðislöggjöf ESB. Nýfæði er samheiti yfir matvæli sem ekki voru hefðbundin neysluvara í ríkjum Evrópusambandsins fyrir 15. maí 1997 þegar löggjöf þessi tók gildi og hefur hún verið tekin upp í EES-samninginn og innleidd hér á landi.
    Til að verja neytendur fyrir mögulega hættulegum áhrifum af matvælum, sem ekki hafa verið á markaði í Evrópu, þarf að sækja um leyfi til að setja þau á markað. Liður í því ferli er álit Matvælaöryggisstofnunar Evrópu (EFSA). Stofnunin er með 19 umsóknir vegna CBD til meðferðar og í júní sl. gaf stofnunin út yfirlýsingu þess efnis að enn skorti töluvert upp á ýmis gögn sem nauðsynleg eru til þess að meta öryggi CBD. Meðal þess sem ekki liggur fyrir eru áhrif CBD á lifur, meltingarveg, innkirtlakerfi og taugakerfi í mönnum. Þá sýna rannsóknir á dýrum verulegar eiturverkanir á æxlunarfæri. Í ljósi þessarar óvissu og skorts á gögnum getur EFSA ekki staðfest öryggi CBD sem nýfæðis.

    Starfshópurinn telur að til þess að hægt sé að leggja mat á nauðsyn lagabreytinga þurfi niðurstaða EFSA að liggja fyrir. Ráðuneytið mun ekki aðhafast fyrr en starfshópurinn telur það tímabært.