Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 870  —  438. mál.




Svar


fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um niðurstöður úttektar á meðferð vanskilalána.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hverjar voru niðurstöður þeirrar úttektar á meðferð vanskilalána hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum sem hermt var í skýrslu Evrópska bankaeftirlitsins frá 17. maí 2022 að fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefði framkvæmt?

    Við vinnslu svarsins óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum um úttektina frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands.
    Sú úttekt Seðlabanka Íslands sem Evrópska bankaeftirlitið (EBA) vísar til var gerð á kerfislega mikilvægum bönkum á Íslandi (KMB) og sneri að innri reglum og vinnubrögðum bankanna að teknu tilliti til viðmiðunarreglna EBA um stýringu á áhættuskuldbindingum vegna vanefndar og ívilnunar (e. Guidelines on management of non-performing and forborne exposures) og tæknistaðals. Viðmiðunarreglurnar tóku gildi 30. júní 2019 en tæknistaðalsins er getið í viðauka V við reglugerð (ESB) nr. 680/2014 sem innleidd var í íslenskan rétt með reglum um tæknilega staðla vegna gagnaskila fjármálafyrirtækja nr. 505/2017.
    Athugunin beindist að umgjörð bankanna til að kanna fylgni þeirra við framangreindar viðmiðunarreglur EBA. Með umgjörð er átt við að viðkomandi banki hafi komið upp heildstæðu, skilvirku kerfi varðandi meðhöndlun ívilnana með tilheyrandi stefnum, verklagsreglum og vinnuleiðbeiningum. Jafnframt var kannað hvort skilgreining bankanna á því hvenær um ívilnun er að ræða sé nægilega skýr til að tryggja samræmd og skilvirk vinnubrögð innan bankanna og hvort hún sé í samræmi við ofangreindar viðmiðunarreglur. Því tengt var skilgreining bankanna á fjárhagslegum erfiðleikum skoðuð, þ.e. hvaða skilyrði þurfa að vera til staðar til að lagt sé mat á ívilnun og hvenær fjárhagslegir erfiðleikar eru orðnir svo alvarlegir að lán eða lántaki eru metin í vanefnd skv. 178. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 575/2013, sbr. 1. mgr. 1. gr. c laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki. Tekið var úrtak til að staðreyna hvort bankarnir væru að skrá lán tímanlega og með viðeigandi hætti í vanefnd eða ívilnun.
    Niðurstöðurnar voru settar fram í formi athugasemda þar sem tilvik stóðust ekki kröfur laga og/eða reglna og settar fram sem ábendingar þegar um var að ræða tilvik sem rétt þótti að benda aðila á að taka til skoðunar og bæta úr eftir atvikum. Almennt leiddi athugunin í ljós að bankarnir voru komnir mislangt í innleiðingu á viðmiðunarreglunum. Í þeim tilvikum þar sem gerðar voru athugasemdir var farið fram á úrbætur af hálfu bankanna en mikilvægt er út frá varfærnissjónarmiðum að bankarnir flokki rétt, þannig að mat á útlánum endurspegli þá útlánaáhættu sem til staðar er hverju sinni.
    Seðlabankinn fylgist reglulega með vanefndum og ívilnunum hjá fjármálafyrirtækjum og öðrum lánastofnunum. Á eftirfarandi mynd má sjá þróun vanskilahlutfalla KMB frá árinu 2019 til 2022. Vanskilahlutfall útlána KMB til heimila mældist undir 0,8% í lok annars ársfjórðungs 2022 og hafði lækkað lítillega milli ársfjórðunga. Vanskilahlutfall fyrirtækjalána KMB lækkaði einnig og mældist tæp 2,9% sem er nokkuð lágt í sögulegu samhengi. 1

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.






1    Sjá í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki 2022/2.