Ferill 415. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Prentað upp.

Þingskjal 1658  —  415. mál.
Leiðréttur texti.

3. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um upplýsingagjöf um sjálfbærni á sviði fjármálaþjónustu og flokkunarkerfi fyrir sjálfbærar fjárfestingar.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar.


    Nefndin fjallaði um málið á milli 2. og 3. umræðu og fékk á sinn fund Benedikt Hallgrímsson frá fjármála- og efnahagsráðuneyti, Ingólf Friðriksson frá utanríkisráðuneyti, Árna Finnsson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands og Auði Önnu Magnúsdóttur, Þorgerði Maríu Þorbjarnardóttur og Tryggva Felixson frá Náttúruverndarsamtökum Íslands.
    Að beiðni nefndarinnar barst minnisblað um málið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti sem unnið var í samráði við utanríkisráðuneyti þar sem fjallað er um ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að fella jarðgas og kjarnorku undir flokkunarkerfi ESB fyrir sjálfbærar fjárfestingar.
    Um efni frumvarpsins vísast til greinargerðar með því.

Umfjöllun nefndarinnar.
    Málinu var vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að nýju að lokinni 2. umræðu. Rætt var um þá ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins að fella jarðgas og kjarnorku undir flokkunarkerfi ESB fyrir sjálfbærar fjárfestingar. Einskorðaðist umfjöllun nefndarinnar við þá ákvörðun og áhrif mögulegra málaferla vegna flokkunarkerfisins gagnvart Evrópusambandinu.
    Nefndin óskaði eftir að ráðuneytið tæki saman upplýsingar um þá ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar og að hvaða leyti Ísland væri skuldbundið til að taka upp flokkunarkerfið með sama hætti. Jafnframt var óskað eftir upplýsingum um það hvaða áhrif möguleg málaferli umhverfissamtaka vegna ákvörðunar framkvæmdastjórnarinnar hefðu á skuldbindingar Íslands við innleiðingu á umræddum reglugerðum.
    Í minnisblaði ráðuneytisins er það rakið að samkvæmt reglugerð (ESB) 2020/852 (Taxonomy-reglugerðin) ber framkvæmdastjórn ESB að útfæra tæknileg matsviðmið vegna umhverfismarkmiða reglugerðarinnar í framseldum reglugerðum. Gert er ráð fyrir að ráðherra innleiði þær með reglugerð. Framseld reglugerð (ESB) 2022/1214 byggist á samkomulagi sem náðist vorið 2022, m.a. vegna stríðsins í Úkraínu og yfirvofandi þrenginga í aðgengi Evrópu að orkugjöfum. Reglugerðin kveður á um breytingu á framseldri reglugerð (ESB) 2021/2139, sem þegar hefur verið tekin upp í EES-samninginn.
    Jafnframt kemur fram að gerðar séu mun ríkari kröfur til kjarnorku- og jarðgasvera samkvæmt reglugerðinni. Jarðgasver falli t.d. undir þann flokk að teljast umbreytingarstarfsemi, þ.e. þau verða að stefna að því að skipta jarðgasi út fyrir endurnýjanlega orku eða orku með lága kolefnislosun fyrir árið 2035. Þá þurfi kjarnorkuver að uppfylla ákveðin skilyrði um öryggi og staðlaða meðhöndlun úrgangs.
    Ekki hefur farið fram umræða um það hvaða beinu hagsmuni Ísland hefði af því að setja fram fyrirvara um innleiðingu reglugerðarinnar í ljósi þess að á Íslandi eru ekki jarðgas- eða kjarnorkuver og hvaða áhrif slíkir fyrirvarar hefðu á samningsstöðu ríkisins að öðru leyti. Þá er bent á að leiði málaferli til þess að gera þurfi breytingar á flokkunarkerfinu komi þær til framkvæmda hér á landi með sama hætti og reglur ESB sem teknar eru upp í EES-samninginn.

Breytingartillaga.
    Í 1. gr. frumvarpsins, með þeirri breytingu sem var samþykkt við 2. umræðu, er vísað til a- og c–f-liðar 9. tölul. 2. gr. laga um ársreikninga. Komið hefur í ljós að sú tilvísun er ónákvæm og að réttara sé að vísa til a- og c–i-liðar 9. tölul. 2. gr. laganna. Meiri hlutinn leggur til að þetta verði lagfært.
    Í 6. tölul. 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins er kveðið á um að við ákvörðun sektarfjárhæðar vegna brota gegn ákvæðum reglugerðarinnar skuli m.a. tekið tillit til „samstarfsvilja hins brotlega án þess að hafa áhrif á þörfina á að tryggja að sá hinn sami endurgreiði hagnað sinn af broti, eða tap sem hann komst hjá með broti.“ Meiri hlutinn telur skýrara að í stað orðsins „tap“ verði notast við „andvirði taps“.
    Þá leggur meiri hlutinn til nokkrar breytingar á 5. og 8. gr. frumvarpsins sem eru tæknilegs eðlis og miða að því að samræma orðalag ákvæðanna við ákvæði reglugerðarinnar.
    Að framangreindu virtu leggur meiri hlutinn til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað tilvísunarinnar „a- og c–f-lið 9. tölul.“ í 2. mgr. 1. gr. komi: a- og c–i-lið 9. tölul.
     2.      Við 5. gr.
                  a.      Í stað orðanna „er lýtur að umhverfisþáttum“ í 2. tölul. 1. mgr. komi: sem efla umhverfislega þætti.
                  b.      Í stað orðsins „tap“ í 6. tölul. 4. mgr. komi: andvirði taps.
     3.      Við 8. gr.
                  a.      Í stað orðanna „aðlögun að loftslagsbreytingum“ í 2. tölul. 1. mgr. komi: því að milda loftslagsbreytingar.
                  b.      Í stað orðanna „því að milda loftslagsbreytingar“ í 3. tölul. 1. mgr. komi: aðlögun að loftslagsbreytingum.
                  c.      Í stað orðanna „því að koma í veg fyrir og berjast gegn mengun“ í 6. tölul. 1. mgr. komi: mengunarvörnum og -eftirliti.
                  d.      Í stað orðanna „verndun og endurheimt líffræðilegs fjölbreytileika og vistkerfa“ í 7. tölul. 1. mgr. komi: því að vernda og endurheimta líffræðilega fjölbreytni og vistkerfi.
                  e.      Í stað orðsins „skaðleg“ tvívegis í 1. tölul. 2. mgr. og í 2. tölul. 2. mgr. komi: neikvæð.
                  f.      Í stað orðanna „félagslegra eiginleika þátta og sjálfbærra fjárfestinga“ í 7. tölul. 2. mgr. komi: félagslegra þátta og sjálfbærar fjárfestingar.

    Diljá Mist Einarsdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. apríl 2023.

Guðrún Hafsteinsdóttir,
form., frsm.
Þórarinn Ingi Pétursson. Guðbrandur Einarsson.
Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir. Jóhann Páll Jóhannsson. Lilja Rafney Magnúsdóttir.