Ferill 410. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 698  —  041. mál.




Svar


menningar- og viðskiptaráðherra við fyrirspurn frá Orra Páli Jóhannssyni um listamannalaun.


     1.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að fjölga mánuðum við úthlutun starfslauna með breytingum á lögum um listamannalaun, nr. 57/2009, í áföngum á 2–3 árum?
    Ráðuneytið hefur undanfarin misseri unnið með Bandalagi íslenskra listamanna að því að setja fram tillögur sem miða að því að fjölga mánuðum við úthlutun starfslauna listamanna með breytingum á lögum um listamannalaun. Gert er ráð fyrir að fjölgun mánaða verði sett fram í áföngum á nokkrum árum.

     2.      Telur ráðherra tilefni til að ráðast í endurskoðun á lögum um listamannalaun með tilliti til fjölda úthlutunarmánaða og mannfjöldaþróunar?
    Í ráðuneyti menningar og viðskipta hefur undanfarin misseri átt sér stað markviss vinna í því skyni að endurmeta lög um listamannalaun með tilliti til fjölda úthlutunarmánaða. Fjöldi starfandi listamanna, bæði útskrifaðra úr Listaháskóla Íslands og í samhengi við fjölda íbúa landsins, verður skoðaður sérstaklega við þá vinnu.

     3.      Hver er hlutfallsleg skipting starfslauna listamanna eftir listgreinum?
    Samkvæmt 5. gr. laga um listamannalaun, nr. 57/2009, miðast samanlögð starfslaun við 1.600 mánaðarlaun eða 133,33 árslaun. Starfslaun eru veitt úr sex sjóðum þar sem launasjóður hönnuða veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 50 mánaðarlauna, launasjóður myndlistarmanna veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 435 mánaðarlauna, launasjóður rithöfunda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 555 mánaðarlauna, launasjóður sviðslistafólks veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna, launasjóður tónlistarflytjenda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 180 mánaðarlauna og launasjóður tónskálda veitir árlega starfslaun og styrki sem svara til 190 mánaðarlauna.
     4.      Telur ráðherra að gildandi lög nái nægilega utan um fjölgun listamanna sem sækja um listamannalaun, til að mynda innan ákveðinna listgreina?
    Hægt er að skoða árangurshlutfall hvers launasjóðs á vef Rannís og hægt að skoða árangurshlutfall bæði út frá „höfðatölu“ og fjölda umsóttra mánaða, sjá nánar í töflum undir fyrirsögninni „Tölfræði eftir árum“. 1 Ef horft er til síðustu úthlutunar á yfirstandandi ári sést að árangurshlutfall umsóttra mánaða fer niður í 10%. Hæst fer árangurshlutfallið í 34% þegar horft er á „höfðatölu“ í launasjóði rithöfunda en þar er árangurshlutfall mánaða 21%. Bent hefur verið á að launasjóður rithöfunda hafi ákveðna sérstöðu þar sem rithöfundar hafa ekki „verkefnasjóð“ til að sækja í eins og hægt er í ýmsum öðrum listgreinum. Þá hefur verið bent á að fjöldi úthlutaðra mánaða í launasjóð hönnuða (50 mánuðir) sé of lítill og gert ráð fyrir að sá fjöldi verði endurskoðaður í uppfærðum lögum.

     5.      Kemur til álita af hálfu ráðherra að fjölga starfsgreinum sem heyra undir listamannalaun?
    Í vinnu ráðuneytisins með Bandalagi íslenskra listamanna, sem getið er í svari við 1. lið, hefur verið gengið út frá því að bætt verði við lög um listamannalaun launasjóði kvikmyndahöfunda annars vegar og nýliða hins vegar. Þá hefur verið gert ráð fyrir því að heiðurslaun listamanna sem veitt eru árlega af Alþingi í tengslum við afgreiðslu fjárlaga verði færð inn í sjóð eldri listamanna í væntanlegu frumvarpi.

     6.      Hver er aukning gildra umsókna um listamannalaun frá því að úthlutunarmánuðum var síðast fjölgað? Aukning vegna aðgerða sökum heimsfaraldurs kórónuveirunnar óskast undanskilin í svarinu.
    Heilt yfir má segja að frá því að úthlutunarmánuðum var síðast fjölgað í 1.600 hefur umsóknum um listamannalaun fjölgað um u.þ.b. 50%, eða úr tæplega 700 á ári í rúmlega 1.000 á ári. Fyrsta úthlutun samkvæmt gildandi lögum var árið 2010. Það flækir útreikninginn að fram til ársins 2019 var hægt að sækja um samstarfsverkefni þar sem nokkrir einstaklingar voru á bak við umsókn þannig að ef fjöldi einstaklinga er talinn þá skekkir fjöldinn í sviðslistahópum heildartöluna mikið (nokkur hundruð manns geta verið þar á bak við).

1     www.rannis.is/sjodir/menning-listir/starfslaun-listamanna/uthlutanir/