Ferill 347. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1609  —  347. mál.




Svar


félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rafneyju Magnúsdóttur um framfærsluviðmið.


     1.      Hvers konar framfærsluviðmið eru höfð til hliðsjónar við ákvörðun bótagreiðslna og félagslegs stuðnings ríkis og sveitarfélaga? Við hvaða framfærsluviðmið styðst umboðsmaður skuldara?
    Fjárhæðir bótagreiðslna og félagslegs stuðnings byggja á ákvæðum laga um almannatryggingar, nr. 100/2007, og laga um félagslega aðstoð, nr. 99/2007. Fjárhæðir greiðslna eru uppfærðar árlega með reglugerðum. Núgildandi reglugerðir eru reglugerð um fjárhæðir bóta almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2023, nr. 1438/2022, og reglugerð um fjárhæðir frítekjumarka (tekjumarka) almannatrygginga og félagslegrar aðstoðar fyrir árið 2023, nr. 1439/2022, en samkvæmt henni eru framfærsluviðmið 389.301 kr. á mánuði vegna þeirra sem búa einir og 309.616 kr. á mánuði vegna þeirra sem búa með öðrum.
    Fjárhæðir bótagreiðslna og félagslegs stuðnings eru mismunandi því að með þeim er miðað að því að koma til móts við ólíkar þarfir fólks og koma fólki í mismunandi stöðu til aðstoðar. Kerfi almannatrygginga, félagslegur stuðningur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð, ásamt fjárhagsaðstoð sveitarfélaga, er ætlað að tryggja framfærslu þeirra sem rétt eiga á viðkomandi greiðslum. Greiðslur almannatrygginga svo og greiðslur skv. 42. gr. og fjárhæð skv. 28. gr. almannatryggingalaga breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun um fjárhæðir skal, skv. 62. gr laganna, taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Þetta þýðir að m.a. er litið til ákvæða kjarasamninga þegar fjárhæðir eru ákveðnar.
    Kveðið er á um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga í VI. kafla laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991. Sveitarstjórn setur reglur um framkvæmd fjárhagsaðstoðar að fengnum tillögum félagsmálanefndar, sbr. 1. og 2. mgr. 21. gr. laga nr. 40/1991. Reglur sveitarfélaga um fjárhagsaðstoð eru mismunandi milli sveitarfélaga en sem dæmi má nefna getur grunnfjárhæð fjárhagsaðstoðar til einstaklings, 18 ára eða eldri, í Reykjavík, sem rekur eigið heimili, numið allt að 217.799 kr. á mánuði og 183.507 kr. fyrir einstakling sem býr með öðrum eða er án þinglýsts leigusamnings.
    Opinber neysluviðmið voru fyrst birt árið 2011 en þau voru síðast uppfærð í október árið 2019. Neysluviðmið sem þá voru birt voru unnin á grunni rannsóknar Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á árunum 2013–2016. Nýrri gögn yfir útgjöld buðu ekki upp á nauðsynlega sundurliðun útgjalda sem útreikningar neysluviðmiða krefjast. Þess vegna voru viðmið ársins 2018 framlengd með undirvísitölum vísitölu neysluverðs fyrir hvern útgjaldaflokk fyrir sig. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands vann uppfærslu neysluviðmiða fyrir árin 2018 og 2019 fyrir þáverandi félagsmálaráðuneyti, nú félags- og vinnumarkaðsráðuneyti. Sérfræðingar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands hafa bent á að gagnasettin úr rannsókn Hagstofunnar séu ekki lengur fullnægjandi til þess að nýta við útreikning neysluviðmiða í þeirri mynd sem þau hafa verið gefin út. Félags- og barnamálaráðherra skipaði í kjölfarið starfshóp til að yfirfara og endurskoða þá aðferðafræði sem er notuð við útreikninga neysluviðmiða sem ráðuneytið birtir. Niðurstaða starfshópsins var að ýmsir annmarkar væru á samspili gagna sem eru notuð sem undirlag í útreikningum neysluviðmiða og þeirrar aðferðafræði sem notuð væri. Einnig var það niðurstaða starfshópsins að það hvernig neysluviðmið eru nýtt í dag fari ekki saman við upprunaleg markmið um notkun þeirra. Því þyrfti að endurskoða þá aðferðafræði sem hefði verið beitt við útreikning neysluviðmiða og taka þyrfti ákvörðun um nýja nálgun á reikniaðferð með hliðsjón af endanlegri notkun viðmiðanna og fyrirliggjandi gögnum. Í ljósi framangreinds fer nú fram í félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu heildarendurskoðun á allri umgjörð neysluviðmiða með það að markmiði að finna lausn til framtíðar.
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið hefur aflað frá umboðsmanni skuldara styðst embættið við eigin útreikninga á framfærsluviðmiðum. Grunnurinn að útreikningunum byggir á rannsókn Hagstofu Íslands á útgjöldum heimilanna á tímabilinu 2013–2016. Í upplýsingum frá umboðsmanni skuldara er tilgreint að ekki hafi verið gerður nýrri gagnagrunnur þar sem Hagstofan hafi ekki haft tök á að vinna gögnin úr rannsókninni á þann hátt að hægt væri að nota þau til útreikninga á viðmiðunum. Af þessum sökum hafi umboðsmaður tekið ákveðna liði í viðmiðunum og reiknað upp á nýtt með nýrri viðmiðunartölum. Aðrir liðir hafi verið uppreiknaðir í samræmi við vísitölu neysluverðs.

     2.      Hvernig eru framfærsluviðmið samsett með og án húsnæðisliðar og hve há eru þau eftir samsetningu og eru þau vísitölubundin?
    Í upplýsingum frá umboðsmanni skuldara til ráðuneytisins kemur fram að hægt sé að nálgast framfærsluviðmiðin sem umboðsmaður skuldara notast við á vefsíðu embættisins en þau reiknast eftir fjölskyldustærð. Viðmiðin eru sett upp án húsnæðiskostnaðar þar sem embættið fær upplýsingar frá umsækjendum um raunkostnað vegna húsnæðis. Viðmiðin eru uppfærð reglulega miðað við vísitölu neysluverðs.
    Umboðsmaður skuldara hefur skilgreint sjö framfærsluviðmið. Þau eru þessi:
              1.      Matur, veitingar, dagvörur til heimilishalds og heimilisbúnaður. Hér undir falla t.d. brauð og kornvörur, kjöt, fiskur, mjólkurvörur og grænmeti sem og drykkjarvörur eins og kaffi, te, safar og gosdrykkir. Hreingerningavörur, snyrtivörur, húsgögn og borðbúnaður eru einnig dæmi um vörur sem tilheyra þessum flokki.
              2.      Föt og skór.
              3.      Lækniskostnaður og lyf. Hér undir falla t.d. lyf, vítamín, gleraugu og heyrnartæki en einnig þjónusta heimilislækna, sérfræðinga, tannlækna sjúkraþjálfun og endurhæfing.
              4.      Tómstundir. Íþróttir, pakkaferðir, blöð og bækur falla t.d. hér undir. Einnig áfengi og tóbak, skartgripir og gjafir.
              5.      Samskipti. Undir samskiptakostnað fellur kostnaður vegna farsíma, internets, netbeinis og myndlykils. Embættið miðar við lægsta mögulega kostnað hjá þeim fjarskiptafyrirtækjum sem eru með markaðsráðandi stöðu. Miðað er við eitt verð fyrir einstakling óháð barnafjölda og annað verð fyrir hjón/sambýlisfólk óháð barnafjölda.
              6.      Önnur þjónusta.
              7.      Samgöngur og annar ferðakostnaður.
    Hvað varðar önnur föst útgjöld þá notar umboðsmaður skuldara ekki viðmið um útgjöld í þessum flokki heldur tekur mið af raunútgjöldum hverrar fjölskyldu. Hér undir eru t.d. húsaleiga, rafmagn, hiti og hússjóður, fasteignagjöld, tryggingar aðrar en bílatryggingar og skóli og dagvistun.