Ferill 339. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 704  —  339. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um lögregluvald Landhelgisgæslu Íslands.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hversu oft hefur Landhelgisgæsla Íslands beitt lögregluvaldi hvert undanfarinna tíu ára? Þess er óskað að fram komi hvort því valdi hafi verið beitt á innsævi, í landhelgi, efnahagslögsögu eða innan aðlægs beltis. Hafi valdinu verið beitt á öðru svæði er þess óskað að fram komi hvaða svæði sé um að ræða.

    Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá Landhelgisgæslu Íslands og er svarið unnið í samstarfi við embættið.
    Samkvæmt lögum um Landhelgisgæslu Íslands, nr. 52/2006, hafa þeir starfsmenn Landhelgisgæslunnar sem taldir eru upp í 6. gr. laganna heimild til að beita lögregluvaldi, þ.e. forstjóri og löglærðir fulltrúar hans, áhafnir skipa og loftfara Landhelgisgæslu Íslands, sprengjusérfræðingar og yfirmenn í stjórnstöð og vaktstöð siglinga. Beiting lögregluvalds hjá Landhelgisgæslu Íslands getur átt sér stað í allmörgum tilvikum, svo sem þegar skipum eru gefin fyrirmæli af stjórnstöð Landhelgisgæslu eða vaktstöð siglinga um að færa sig, taka upp veiðarfæri eða halda til hafnar. Slík tilvik eru ekki skráð á aðgreindan hátt og því eru ekki til nákvæmar skráningar á fjölda þeirra tilvika þegar Landhelgisgæslan beitir lögregluvaldi. Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar skráir atburði í tímaröð á hverjum degi, en að fara í gegnum skráningar stjórnstöðvarinnar tíu ár aftur í tímann til að meta það hvenær beitt hafi verið lögregluvaldi eða að fyrirmæli hafi verið gefin út um beitingu þess, er nær ómögulegt að taka saman. Slíkt myndi útheimta mikla vinnu og tíma sem ekki væri hægt að réttlæta við vinnslu fyrirspurnarinnar.
    Hins vegar er hægt að fá hugmynd um það hversu oft lögregluvaldi hefur verið beitt með því að fara yfir þær kærur til lögreglu sem Landhelgisgæslan hefur gefið út sl. 10 ár. Hafa verður þó í huga að það geta verið önnur tilvik þar sem um er að ræða beitingu lögregluvalds, í víðasta skilningi þess hugtaks, án þess að það hafi leitt til þess að kæra hafi verið gefin út. Þá eru dæmi þess að Landhelgisgæslan hafi komið að máli í samstarfi við lögreglu en lögreglan farið með rannsókn málsins og því ekki gefin út kæruskýrsla af Landhelgisgæslunni. Slík tilvik eru ekki skráð sérstaklega. Þá geta einnig verið skráð atvik í skipsdagbækur varðskipanna og í flugskýrslur loftfara Landhelgisgæslunnar þar sem skipstjórum skipa og báta eru gefin fyrirmæli sem í lagalegum skilningi geta verið skilgreind með þeim hætti að lögregluvaldi hafi verið beitt. Það má hins vegar leiða líkur að því að slík mál séu jafnframt skráð í málaskrá stjórnstöðvar. Þá eru kærur einnig gefnar út af skipherrum varðskipanna og skipstjórnarmönnum í áhöfnum loftfaranna. Umfangsmikil vinna þyrfti að eiga sér stað til að fara í gegnum allar skipsdagbækur og flugskýrslur til að leitast við að draga út færslur sem gefa e.t.v. til kynna að lögregluvaldi hafi verið beitt þar sem sérstakri skráningu um slík tilvik er ekki við haldið.
    Þegar litið er á árin 2012–2022 (fram til 1. nóvember 2022) voru gefnar út 174 kærur til lögreglu á tímabilinu. Af þessum 174 málum var lögregluvaldi beitt í 58 tilvikum. Átta þessara tilvika áttu sér stað í efnahagslögsögunni utan aðlæga beltisins, sjö innan aðlæga beltisins (skráð frá 2018 þar sem aðlægt belti var fært inn í lög nr. 41/1979, um landhelgi, aðlægt belti, efnahagslögsögu og landgrunn, með lögum nr. 58/2017 sem tóku gildi 21. júní 2017), 22 innan landhelgi, 20 mál á innsævi og eitt utan efnahagslögsögunnar. Það mál sem um var að ræða utan efnahagslögsögunnar varðaði íslenskt skip sem var á veiðum í grænlenskri lögsögu, með íslenskan skipstjóra, og skv. 1. mgr. 92. gr. hafréttarsáttmálans ná því íslensk lög og reglur yfir skipið. Í nær öllum framangreindum tilvikum var um að ræða að skipi hafi verið gert að halda til lands. Í engu tilviki var um valdbeitingu að ræða. Sjá nánar eftirfarandi töflu.

Ár Innsævi Landhelgi Aðlægt belti Efnahagslögsagan utan aðlægs beltis Önnur hafsvæði Heildarfjöldi mála á ári
2022 2 0 0 1 0 3
2021 1 2 0 0 0 3
2020 0 2 5 0 0 7
2019 1 1 0 1 0 3
2018 3 1 2 2 0 8
2017 4 1 0 1 0 6
2016 1 1 2 0 4
2015 6 8 0 0 14
2014 0 4 0 1 5
2013 1 1 0 0 2
2012 1 1 1 0 3
Samtals 20 22 7 8 1 58