Ferill 314. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 369  —  314. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar og póstkosningu íslenskra ríkisborgara erlendis.


     1.      Hvað líður vinnu við að taka til skoðunar atkvæðagreiðslu utan kjörfundar sem samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VII í kosningalögum átti að afhenda ráðherra 1. september 2022? Hvenær skipaði ráðherra starfshóp samkvæmt ákvæðinu og hvaða einstaklingar sitja í honum?
    Vinna starfshópsins er nú á lokastigi og er ráðgert að skýrslu verði skilað til ráðherra í lok október 2022. Starfshópurinn var skipaður þann 30. desember 2021 en vegna anna við undirbúning sveitarstjórnarkosninga og síðar sumarleyfa var starfshópnum ekki unnt að skila niðurstöðum sínum 1. september eins og áskilið er í ákvæði til bráðabirgða VII í kosningalögum, nr. 112/2021. Að beiðni starfshópsins samþykkti ráðherra þann 24. ágúst sl. að starfshópurinn myndi skila niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. nóvember nk.
    Í starfshópnum eiga sæti: Birna Ágústsdóttir, tilnefnd af sýslumannaráði, varamaður hennar er Lárus Bjarnason, Kristinn Jónasson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, varamaður hans er Fjóla Valborg Stefánsdóttir, og Hjördís Stefánsdóttir, lögfræðingur í dómsmálaráðuneytinu, sem jafnframt er formaður starfshópsins.

     2.      Hvað líður vinnu við greiningu á póstkosningu íslenskra ríkisborgara erlendis í almennum kosningum sem samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII í kosningalögum átti að leggja fyrir Alþingi eigi síðar en við upphaf þings haustið 2022?
    Vinna starfshópsins er nú á lokastigi og er ráðgert að skýrslu verði skilað til ráðherra í lok október 2022. Starfshópurinn var skipaður þann 21. janúar 2022 en vegna anna við undirbúning sveitarstjórnarkosninga og síðar sumarleyfa var starfshópnum ekki unnt að skila niðurstöðum sínum við upphaf þings haustið 2022 eins og áskilið er í ákvæði til bráðabirgða VIII í kosningalögum, nr. 112/2021. Að beiðni starfshópsins samþykkt ráðherra þann 24. ágúst sl. að starfshópurinn myndi skila niðurstöðum sínum eigi síðar en 1. nóvember nk. og var Alþingi tilkynnt um það með bréfi, dags. 25. ágúst sl.