Ferill 313. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 323  —  313. mál.




Fyrirspurn


til félags- og vinnumarkaðsráðherra um sjúkrasjóði stéttarfélaga.

Frá Óla Birni Kárasyni.


     1.      Hvert er markmið og hlutverk sjúkrasjóða samkvæmt lögum?
     2.      Hvernig er eftirliti með sjúkrasjóðum stéttarfélaga háttað? Hefur hið opinbera eftirlit með starfsemi sjúkrasjóða að einhverju marki?
     3.      Hve margir sjúkrasjóðir tóku við iðgjöldum 20. september 2022 í samræmi við greiðsluskyldu 6. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980?
     4.      Hver er réttur starfsmanns sem ekki á aðild að stéttarfélagi til bóta? Ber atvinnurekanda að greiða iðgjald af launum starfsmanns sem ekki á aðild að stéttarfélagi eða grípa til annarra ráðstafana til að tryggja bótarétt viðkomandi starfsmanns?
     5.      Hvert er iðgjald sem hlutfall af launum sem greiða skal í sjúkrasjóði og hvaða laun eru lögð til grundvallar hjá einstökum sjúkrasjóðum?
     6.      Hvernig er iðgjald sem greiða skal í sjúkrasjóði ákveðið eða því breytt hjá einstökum sjúkrasjóðum? Hafa einhver viðmið vegna þessa verið bundin í lög eða reglugerðir?
     7.      Er sjúkrasjóðum stéttarfélaga alfarið í sjálfsvald sett að útfæra reglur um greiðslu bóta? Hverjar eru reglur um bætur hjá einstökum sjúkrasjóðum sem ráðherra hefur aðgang að upplýsingum um?
     8.      Hafa einhver viðmið eða reglur verið bundin í lög eða reglugerðir vegna:
                  a.      fjárfestingarstefnu einstakra sjúkrasjóða,
                  b.      fjármálaeftirlits og endurskoðunar reikninga einstakra sjúkrasjóða,
                  c.      skipanar stjórna einstakra sjúkrasjóða?
     9.      Hefur ráðherra aðgang að nýjustu upplýsingum úr ársreikningum einstakra sjúkrasjóða um eftirtalin atriði:
                  a.      tekjur vegna iðgjalds skv. 3. tölul.,
                  b.      aðrar tekjur,
                  c.      bótagreiðslur,
                  d.      rekstrarkostnað,
                  e.      annan kostnað,
                  f.      eignir,
                  g.      skuldir,
                  h.      hreina eign?
     10.      Hverjar voru heildareignir í sjúkrasjóðum hér á landi í árslok 2021?
     11.      Hver er heildarfjárhæð iðgjaldagreiðslna skv. 3. tölul., sundurliðað síðustu 5 ár?
     12.      Hver er heildarfjárhæð greiðslna úr sjúkrasjóðum hér á landi, sundurliðað síðustu 5 ár?


Skriflegt svar óskast.