Ferill 288. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 500 — 288. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Lilju Rannveigu Sigurgeirsdóttur um fósturlát og framköllun fæðingar eða útskaf úr legi.
1. Hversu mörg tilfelli á ári eru skráð í sjúkraskrá þar sem foreldri eða foreldrar hafa þurft að bíða í meira en sólarhring eftir því að framkalla fæðingu eða fara í útskaf úr legi eftir að fósturlát hefur verið staðfest?
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri er ekki til nein skrá sem heldur utan um það hvort kona hefur þurft að bíða eftir meðferð ef fósturlát hefur verið staðfest. Það er mat læknis hverju sinni hvort um sé að ræða bráð veikindi. Ef um mikla blæðingu eða sýkingarmerki er að ræða kallar það á skjót viðbrögð og er þá viðkomandi lögð beint inn á sjúkrahús og meðferð hafin án tafar, annaðhvort með lyfjum eða útskafi eða hvoru tveggja. Mun oftar er þó fósturlát greint án þess að um slíkt sé að ræða. Í slíkum tilvikum er læknisfræðilega besta meðferð talin vera svokölluð biðmeðferð þar sem beðið er eftir að fósturlát eigi sér stað á náttúrulegan hátt. Þannig má bíða í nokkrar vikur án nokkurs inngrips.
2. Er til staðar verkferill sem fer í gang þegar þessi tilfelli koma upp? Hvernig er honum þá háttað og hvenær fer hann í gang?
Verkferlar um hvaða meðferð er ráðlögð við fósturlátum eru til staðar og er þeim fylgt. Verkferlarnir eru mismunandi og fara eftir meðgöngulengd og virkjast þegar fósturlát er staðfest.
3. Hversu marga daga hafa foreldrar lengst þurft að bíða eftir framköllun fæðingar eða útskafi úr legi eftir að fósturlát hefur verið staðfest?
Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala er snemmfósturlát (fyrir 12 vikna meðgöngulengd) yfirleitt meðhöndluð án inngripa, annaðhvort með biðmeðferð eða lyfjameðferð. Biðmeðferð er talin besta meðferðin og með fæsta fylgikvilla en þetta ferli hefur þann ókost að taka stundum lengri tíma. Lyfjameðferð flýtir þessu ferli og er því oft valin. Útskaf úr legi fer þá aðeins fram ef slík meðferð ber ekki árangur eða ef konan óskar sérstaklega eftir því. Útskaf úr legi er skipulagt í samræmi við bráðleikann, allt frá því að vera gert samdægurs eða eftir nokkra daga.
Ef um síðbúið fósturlát er að ræða (12–22 vikna meðgöngulengd) er lyfjameðferð yfirleitt hafin fljótlega. Meðferð hefst með lyfjum og síðan er skipulögð innlögn eftir 36–48 klst. Ekki er alltaf hægt að hefja lyfjameðferð samdægurs en sú meðferð hefst þá oftast daginn eftir eða einstaka sinnum tveimur til þremur dögum síðar. Konur fá munnlegar og skriflegar upplýsingar um allt ferlið og er einnig boðin sálgæsla. Ávallt er hægt að ná símleiðis í heilbrigðisstarfsmann þar til innlögn á sér stað. Stundum óska konur eftir lengri fresti þar til meðferð hefst og er þá orðið við því.
Ef um andvana fæðingu er að ræða (fósturlát eftir 22 vikna meðgöngulengd) er nær alltaf hægt að koma að meðferð samdægurs ef þess er óskað. Langflestar konur þiggja þó að fara heim fyrst eftir að hafa fengið það staðfest að fóstur er látið og koma aftur til framköllunar fæðingar síðar sama dag eða næsta dag.
Við síðbúin fósturlát og andvana fæðingar er reynt að hafa aðbúnað sem bestan og því notuð sérstaklega útbúin stofa þar sem hægt er að annast konuna, maka hennar og/eða aðra fjölskyldumeðlimi á sem bestan hátt.