Ferill 270. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 914 — 270. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um biðlista eftir ADHD-greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna.
1. Hver er fjöldi barna á biðlista eftir ADHD-greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna nú og hver var fjöldinn á sama tíma árin 2021 og 2020 hjá fyrirrennara hennar? Hver er áætlaður biðtími á hverjum tíma þessi þrjú ár?
Geðheilsumiðstöð barna tók til starfa 1. apríl 2022. Miðstöðin veitir börnum og fjölskyldum þjónustu á landsvísu og sameinar þá þjónustu sem Þroska- og hegðunarstöð, Geðheilsuteymi fjölskylduvernd og meðferðarteymi fyrir börn og unglinga hafa veitt hingað til. Hjá Þroska- og hegðunarstöðinni beið 351 barn eftir ADHD-greiningu í lok árs 2020 og þann 1. október 2021 biðu 432 börn. Um svipaðan biðtíma eftir þverfaglegri greiningu er að ræða bæði árin eða um 12–14 mánuði.
Um miðjan október 2022 voru 336 börn á lista yfir bið eftir þverfaglegri ADHD-greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna. Á þessum lista eru börn með bæði samþykktar og ósamþykktar tilvísanir sem á eftir að taka afstöðu til. Meðalbiðtíminn er um 12 mánuðir. Síðan voru 55 börn að bíða eftir viðtali hjá lækni teymisins og er hefur biðtíminn þar verið að meðaltali um 8 mánuðir.
2. Hver er fjöldi tilvísana í ADHD-greiningu hjá Geðheilsumiðstöð barna frá 1. janúar 2022 til þessa dags og fjöldi tilvísana á sama tíma árið 2021 hjá fyrirrennara hennar?
Fjöldi nýrra tilvísana í þverfaglega ADHD-greiningu frá 1. janúar til 17. október 2022 var 340. Athuga þarf að Geðheilsumiðstöðin var formlega stofnuð 1. apríl 2022. Samkvæmt upplýsingum frá Geðheilsumiðstöð barna má áætla að um 35% tilvísana sem berast sé vísað frá.
Á sama tíma árið 2021 var fjöldi nýrra tilvísana 308.
3. Hver er fjöldi nýrra tilvísana í ADHD-greiningu sem vísað var frá við móttöku frá 1. janúar sl. til þessa dags og fjöldi frávísana nýrra tilvísana á sama tíma árið 2021?
Frá 1. janúar til 17. október 2022 var 122 tilvísunum af þeim 340 sem bárust vísað frá. Tilvísanir sem berast Geðheilsumiðstöð barna eru metnar á þverfaglegum inntökufundi þar sem ákvarðanir eru teknar um vinnslu og afdrif máls. Frávísanir nýrra tilvísana geta til að mynda skýrst af því að þörfum barnsins sé betur mætt af öðrum þjónustuveitendum, svo sem Barna- og unglingageðdeild eða Ráðgjafar- og greiningarstöð, eða að gögn vanti. Frávísun getur líka skýrst af því að mál barnsins er nú þegar í vinnslu hjá öðrum þjónustuveitendum eða að um mjög ungt barn sé að ræða. Er tilvísandi aðili upplýstur og leiðbeint um næstu skref. Ef um mjög ungt barn er að ræða og réttast að bíða með greiningarferli er meðal annars mælt með þjónustu í nærumhverfi og tilvísandi aðila boðið að vísa á ný til Geðheilsumiðstöðvar barna ef þjónusta í nærumhverfi ber ekki árangur.
Í samræmi við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021, verður áfram lögð sérstök áhersla á að koma tilvísunum í réttan farveg og eftir fremsta megni að tryggja að tengiliður og/eða málstjóri í nærumhverfi sé alltaf upplýstur um ákvarðanir sem teknar eru á inntökufundi Geðheilsumiðstöðvar barna.
4. Hvaða áætlanir liggja fyrir um styttingu biðtíma eftir ADHD-greiningu og hver er að mati ráðherra ásættanlegur biðtími eftir þjónustu stofnunarinnar?
Geðheilsumiðstöð barna tók formlega til starfa 1. apríl 2022 með það að markmiði að styrkja geðheilbrigðisþjónustu barna til þess að geta mætt betur þörfum barna og fjölskyldna þeirra á landsvísu. Þetta markmið er í samræmi við heilbrigðisstefnu og geðheilbrigðisstefnu varðandi veitingu árangursríkrar og tímanlegar heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að stytta bið barna eftir þjónustu og leitast við að ná fram samlegðaráhrifum í þjónustunni, aukinni samvinnu og betri yfirsýn.
Unnið er að stöðugum umbótum í samráði við alla þjónustuveitendur til þess að gera þjónustuna skilvirkari og vinna niður biðlista eftir greiningu. Heilbrigðisráðherra hefur meðal annars samþykkt að farið verði í tímabundið átaksverkefni í samráði við sjálfstætt starfandi barnalækna og barnageðlækna til þess að vinna á biðlistum eftir ADHD-greiningum lækna.
Heilbrigðisráðherra undirbýr nú skipun nefndar um gerð grænbókar um stöðu ADHD-mála á Íslandi. Grænbókin verður unnin út frá samráðssjónarmiðum með áherslu á upplýsingasöfnun, stöðumat og framtíðarsýn. Einnig verður í henni lýst samvinnu helstu kerfa sem snerta málaflokkinn og þeim áskorunum og tækifærum sem þar leynast. Væntingar standa til þess að grænbókarvinnan leiði af sér tillögur til úrbóta í málaflokknum.
Árið 2016 gaf embætti landlæknis út viðmiðunarmörk varðandi hvað getur talist ásættanleg bið eftir heilbrigðisþjónustu. Viðmið þessi eru sambærileg við viðmið nágrannalanda okkar. Ásættanlegur biðtími að mati embættis landlæknis eftir skoðun sérfræðings er 30 dagar og biðtími eftir aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi skal vera innan við 90 dagar frá greiningu.