Ferill 269. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 420 — 269. mál.
Svar
félags- og vinnumarkaðsráðherra við fyrirspurn frá Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur um fólk á flótta og stuðning sveitarfélaga.
1. Hver er opinber stefna ráðuneytisins í þjónustu við fólk á flótta?
Opinber stefna stjórnvalda hvað varðar þjónustu við flóttafólk birtist m.a. í ákvæðum laga um útlendinga, nr. 80/2016, og ákvæðum reglugerðar um útlendinga, nr. 540/2017, sem og í ákvæðum laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012. Þá er í fimmtu stoð þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda fyrir árin 2022–2025, nr. 29/152, tilgreindar sérstakar aðgerðir er snúa að móttöku flóttafólks og inngildingu þess í íslenskt samfélag en þingsályktunin var samþykkt á Alþingi 16. júní 2022.
2. Með hvaða hætti hafa stofnanir ríkisins óskað eftir samstarfi við sveitarfélög um móttöku fólks á flótta og hvernig hafa viðbrögð sveitarfélaganna verið?
Vinnumálastofnun sem fer með þjónustu umsækjenda um alþjóðlega vernd er í samstarfi við þau sveitarfélög þar sem stofnunin kemur upp húsnæðisúrræðum fyrir umsækjendur um alþjóðlega vernd. Þá vinnur Fjölmenningarsetur náið með sveitarfélögum í samræmi við ákvæði laga um málefni innflytjenda, nr. 116/2012, en í því sambandi má m.a. nefna aðstoð Fjölmenningarseturs í tengslum við vinnu sveitarfélaga við gerð móttökuáætlana vegna móttöku innflytjenda og stuðning stofnunarinnar við framkvæmd sveitarfélaganna á samræmdri móttöku flóttafólks. Sveitarfélögin hafa almennt verið samstarfsfús við framangreindar stofnanir.
3. Kemur til greina að sett verði lög að norrænni fyrirmynd til að fleiri sveitarfélög taki á móti fólki á flótta?
Ráðuneytið er með það til skoðunar hvort rétt sé að leggja til við Alþingi að sett verði lög að norrænni fyrirmynd í því skyni að fjölga þeim sveitarfélögum sem taka á móti flóttafólki en enn hefur ekki verið tekin ákvörðun um hvort slíkar tillögur verði lagðar fram.
4. Hvenær gerir ráðherra ráð fyrir því að búið verði að fjölga sveitarfélögum sem eru með samning um þjónustu við fólk á flótta?
Gert er ráð fyrir að fyrir lok árs 2022 verði búið að semja við fleiri sveitarfélög um þjónustu við flóttafólk.
5. Liggur fyrir aðgerðaáætlun hjá ráðuneytinu er varðar stuðning til sveitarfélaga sem taka á móti fólki á flótta? Ef hún er ekki þegar til, hvenær má áætla að von sé á slíkri áætlun?
Fyrir liggja drög að rammasamningi um stuðning til sveitarfélaga í tengslum við samræmda móttöku flóttafólks en hvert sveitarfélag getur verið aðili að slíkum samningi við ráðuneytið.