Ferill 266. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 408  —  266. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um frest vegna sanngirnissjónarmiða og frestun réttaráhrifa.


     1.      Hversu oft hefur Útlendingastofnun veitt lengri frest vegna sanngirnissjónarmiða skv. 3. mgr. 104. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016? Svar óskast sundurliðað eftir árum.
    Samkvæmt upplýsingum frá Útlendingastofnun er ekki tiltæk tölfræði yfir þau tilvik sem stofnunin hefur veitt lengri frest til sjálfviljugrar heimfarar skv. 3. mgr. 104. gr. laga um útlendinga. Stofnunin leitast þó ávallt við að koma til móts við þá sem vilja yfirgefa landið sjálfviljugir og kemur reglulega fyrir að stofnunin veiti lengri frest. Eins hefur stofnunin leitað til fólks og boðið því að fá aðstoð við sjálfviljuga heimför á grundvelli samnings íslenskra stjórnvalda við Alþjóðlegu fólksflutningastofnunina (International Organization for Migration, IOM) þrátt fyrir að frestur til sjálfviljugrar heimfarar sé liðinn. Er það í samræmi við markmið íslenskra stjórnvalda um að gera útlendingum, sem hafa ekki rétt til dvalar hér á landi eða hafa fengið ákvörðun sem felur í sér að þeir skulu yfirgefa landið, mögulegt að snúa aftur til síns heimaríkis með mannúðlegum og öruggum hætti án aðkomu lögreglu.

     2.      Hversu oft hefur kærunefnd útlendingamála borist krafa um frestun réttaráhrifa ákvörðunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið skv. 6. mgr. 104. gr. laganna? Svar óskast sundurliðað eftir fjölda umsókna og lyktum mála ár hvert.
    Eftirfarandi tölfræði barst frá kærunefnd útlendingamála yfir fjölda beiðna um frestun réttaráhrifa sem nefndinni hefur borist frá árinu 2016 til og með 1. september 2022 og lyktir þeirra. Vakin er athygli á að sumar beiðnir eru afgreiddar á öðru ári en þær berast.

2016 2017 2018 2019 2020 2021 2022*
Beiðnir 134 152 129 169 112 258 103
Lokið með úrskurði 105 158 130 167 109 217 1
Réttaráhrifum frestað 0 0 9 9 5 2 6
Beiðni hafnað 102 136 117 153 90 207 111
Máli vísað frá 3 22 4 5 14 8 6
* Til 1. september 2022.