Ferill 250. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1404 — 250. mál.
Svar
fjármála- og efnahagsráðherra við fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur um inn- og útskatt hótela og gistiheimila.
1. Hverjar voru fjárhæðir inn- og útskatts hótela og gistiheimila, sem og endurgreiðslur til þeirra vegna mismunar, á árunum 2017 til og með 2021 og hvernig var skiptingin milli rekstrarkostnaðar og stofnkostnaðar?
Í töflu að aftan eru sýndar viðeigandi fjárhæðir.
Tafla. Virðisaukaskattur hótela og gistiheimila 2017–2021. | ||||||
2017 | 2018 | 2019 | 2020 | 2021 | ||
Fjöldi aðila | 685 | 712 | 718 | 718 | 717 | |
Útskattur | 9.473 | 10.109 | 9.867 | 3.597 | 5.660 | |
Almennt þrep (24%) | 1.216 | 1.347 | 1.322 | 837 | 969 | |
Neðra þrep (11%) | 8.256 | 8.763 | 8.544 | 2.760 | 4.691 | |
Innskattur | 8.557 | 8.763 | 8.022 | 4.530 | 5.026 | |
Vegna rekstrarkostnaðar | 6.890 | 7.477 | 7.016 | 4.110 | 4.700 | |
Vegna stofnkostnaðar | 1.667 | 1.286 | 1.006 | 420 | 326 | |
Útskattur – innskattur | 916 | 1.346 | 1.845 | –933 | 634 | |
Fjárhæðir eru á verðlagi hvers árs í millj. kr. | ||||||
Upplýsingarnar ná til allra aðila sem skráðir eru í grunnskrá virðisaukaskatts í atvinnugreinum 55.10.1 (hótel og gistiheimili með veitingaþjónustu) og 55.10.2 (hótel og gistiheimili án veitingaþjónustu). Upplýsingarnar taka ekki til aðila sem reka hótel- og gistiþjónustu meðfram aðalstarfsemi sinni. Áætlanir um þá aðila sem ekki hafa skilað skattframtölum eða virðisaukaskattsskýrslum eru ekki meðtaldar. | ||||||
Heimild: Fjármála- og efnahagsráðuneyti, byggt á upplýsingum Skattsins. |
Þau grunngögn sem byggt er á eru skattframtöl og viðeigandi fylgigögn framangreindra rekstraraðila fyrir rekstrarárin 2017–2021.
Veltu og þar með útskatt má greina eftir skattþrepum. Útskattur í neðra þrepi reiknast af allri veltu í neðra þrepi, en hluti þeirrar veltu hjá þessum fyrirtækjum er veitingar. Veltan er ekki sundurliðuð í gistingu og veitingar í grunngögnum Skattsins.
Innskatt vegna almenns rekstrarkostnaðar er unnt að greina í skattframtölum og rekstrarframtölum, sundurliðaðan eftir skattþrepum og útgjaldaliðum.
Innskattur vegna stofnkostnaðar er greinanlegur út frá upplýsingum í skattframtali annars vegar og eignaskrá hins vegar. Eignaskrá er fylgiskjal með skattframtali rekstraraðila sem inniheldur upplýsingar um kaup og sölu eigna á rekstrarárinu.
Þau gögn sem að framan greinir gera það kleift að skipta innskatti af aðföngum upp eftir því hvort aðföngin eru til rekstrar eða fjárfestingar.
2. Hver hefði inn- og útskattur hótela og gistiheimila, sem og endurgreiðslur til þeirra, verið sömu ár ef þjónusta hótela og gistiheimila hefði verið í almennu virðisaukaskattsþrepi?
Hefði þjónusta hótela og gistiheimila verið í almennu skattþrepi (24%) í stað neðra þreps (11%) á árunum 2017–2021 má ætla að verð þjónustunnar hefði verið hærra og eftirspurn eftir henni því minni en ella. Hvorki liggja fyrir upplýsingar um það að hve miklu leyti hærri virðisaukaskatti hefði verið miðlað inn í verðlagningu né um verðteygni í þessu tilviki og þar með þau áhrif sem slíkt hefði haft á veltu í starfseminni að öðru óbreyttu. Þá má ætla að slík verðhækkun mundi einnig hafa afleidd áhrif á neyslu hótelgesta að öðru leyti sem gæti komið fram í samspili minni kaupa á annarri þjónustu, t.d. flugferðum, afþreyingu eða veitingum, hvort sem er í almennu skattþrepi eða neðra þrepi, eða skemmri dvalartíma og færri gistinóttum.
Telja verður að allt of mikil einföldun fælist í því ef litið væri fram hjá slíkum afleiddum áhrifum með því t.d. að ganga út frá því að öll velta sem skatturinn leggst á héldist óbreytt sem og samkeppnisstaða greinarinnar gagnvart annarri gistingu og öðrum ferðamannalöndum. Til að reyna að áætla áhrif af slíkri breytingu á inn- og útskatt þyrfti því að setja upp líkön til að framkvæma útreikninga fyrir hótel- og gistiheimilageirann í heild og afleidd áhrif á veltu í öðrum geirum. Að mati ráðuneytisins er efni fyrirspurnarinnar yfirgripsmikið og ef unnt ætti að vera að svara henni með fullnægjandi hætti þyrfti að ráðast í allmikla upplýsingaöflun, útreikninga og í reynd skýrslugerð. Er það mat ráðuneytisins að fyrirspurnin sé að þessu leyti í ósamræmi við ákvæði 1. mgr. 57. gr. laga um þingsköp Alþingis þar sem kveðið er á um að miða skuli við að unnt sé að svara fyrirspurn í stuttu máli. Þá er ljóst vegna umfangs fyrirspurnarinnar að ekki væri unnt að svara henni innan þeirra tímamarka sem kveðið er á um, sbr. 6. mgr. 57. gr. sömu laga.