Ferill 248. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 697 — 248. mál.
Svar
mennta- og barnamálaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um ME-sjúkdóminn hjá börnum.
1. Hversu mörg börn greind með a) ME-sjúkdóminn (myalgic encephalomyelitis), b) skólakvíða, c) þunglyndi flosna árlega upp úr skóla? Svar óskast sundurliðað eftir árum, síðustu 10 ár.
Tölfræðiupplýsingum um fjölda barna sem greind hafa verið með ME-sjúkdóminn, skólakvíða eða þunglyndi er ekki safnað miðlægt af hálfu ráðuneytisins, né heldur af Hagstofu Íslands.
Í reglugerð nr. 897/2009 um miðlun og meðferð upplýsinga um nemendur í grunnskólum og rétt foreldra til aðgangs að upplýsingum um börn sín, með síðari breytingum, er fjallað um öflun, meðferð, miðlun og vörslu upplýsinga um nemendur í grunnskólum. Í reglugerðinni eru skilgreindar nauðsynlegar upplýsingar um nemendur sem teljast vera m.a. persónuupplýsingar um heilsufar, sérþarfir, líkamlega og andlega getu til náms eða annars skólastarfs sem afla þarf við undirbúning ákvarðana um réttindi og skyldur nemenda. Um getur m.a. verið að ræða kennslufræðilegar, læknisfræðilegar, sálfræðilegar sérkennslufræðilegar greiningar og aðrar greiningar og sérúrræði fyrir nemendur, sérkennsluumsóknir, námsáætlanir vegna sérúrræða og einstaklingsnámskrár. Persónuupplýsingar geta verið hvers konar skrifleg gögn, svo sem skýrslur, greinargerðir og umsagnir, eða gögn sem vistuð eru með rafrænum hætti og varða velferð og skólagöngu barns. Haldið er utan um þessar upplýsingar á vettvangi hvers grunnskóla og ber skólum að fylgja þar til gerðum skilyrðum vegna meðferðar og öflunar upplýsinga, skráninga og samskipta, miðlunar og varðveislu upplýsinga.
Í könnun Velferðarvaktarinnar meðal skólastjórnenda, sem framkvæmd var árið 2019, kemur fram að innan grunnskólastigsins sé talið að um 1.000 nemendur glími við skólaforðun eða um 2% nemenda. Niðurstöður eru ekki birtar eftir einstökum skólum. Helsta ástæða skólaforðunar er talin vera andleg vanlíðan, eins og kvíði og þunglyndi, sem er nefnd hjá um 76% skólastjórnenda og erfiðar aðstæður á heimili sem eru nefndar hjá um 29%. Hjá rúmum 83% skólanna eru til viðmið eða verklag sem gripið er til af hálfu skólans þegar upp koma tilvik um skólaforðun. Þeir aðilar sem skólinn hefur þá samvinnu við eru m.a. foreldrar/forsjáraðilar, barnið sjálft, barnavernd, félagsþjónustan, heilsugæslan og BUGL. Gripið er til úrræða á borð við umfjöllun í nemendaráði og viðtöl við barn hjá náms- og starfsráðgjafa, umsjónarkennara, sálfræðingi eða hjúkrunarfræðingi.
2. Hvaða áætlanir hafa verið gerðar af hálfu ráðuneytisins til að auka fræðslu meðal kennara og skólastjórnenda á ME-sjúkdómnum hjá börnum?
Með gildistöku nýrra laga um menntun, hæfni og ráðningu kennara og skólastjórnenda við leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla sem tóku gildi 1. janúar 2020 og unnin voru í víðtæku samráði við hagsmunaaðila og almenn sátt er um, var í fyrsta sinn lögfestur hæfnirammi kennara og skólastjórnenda. Markmiðið er að skýra almenna og sérhæfða þekkingu, leikni og hæfni sem kennarar og skólastjórnendur þurfa að búa yfir vegna uppeldis-, kennslu- og stjórnunarstarfa þeirra í leik-, grunn- og framhaldsskólum. Hæfniramminn er m.a. leiðsögn fyrir kennaramenntunarstofnanir um inntak kennaramenntunar og nánari útfærslu á hæfni kennara og skólastjórnenda til að hagnýta þekkingu og leikni í samræmi við aldur og þroska nemenda, faggrein, námssvið og greinasvið viðkomandi skólastiga og aðstæður hverju sinni.
Með menntastefnu til ársins 2030 hefur verið lagður grunnur að afar fjölbreyttum og umfangsmiklum umbótaaðgerðum til að skapa sterkari grundvöll fyrir gæðastarfi í skólum og aukinni vellíðan og farsæld barna. Í því felst m.a. áhersla á starfsþróun kennara og skólastjórnenda og hefur ráðuneytið veitt fjármagni til reksturs starfsþróunarnámskeiða á landsvísu til að fjölga tækifærum kennara og skólastjórnenda til að efla hæfni sína í að vinna í skólum sem starfa án aðgreiningar.
Ráðuneytið hefur ekki gert sérstakar áætlanir um að fræða kennara og skólastjórnendur sérstaklega um ME-sjúkdóminn hjá börnum.
3. Hvaða áætlanir hafa verið gerðar af hálfu ráðuneytisins um aukinn stuðning við börn með ME-sjúkdóminn?
Ráðuneytið hefur kynnt áform sín um innleiðingu breytinga á menntakerfinu til að fylgja sérstaklega eftir umfangsmiklum menntaumbótum, sem snúa að menntastefnu til ársins 2030, nýjum lögum um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og stefnu um Barnvænt Ísland, auk þess sem unnið verður að því að styrkja og samþætta heildstæða skólaþjónustu þvert á skólastig. Þetta var gert í samvinnu við breiðan hóp hagsmunaaðila, þ.m.t. sveitarfélög og samtök skólastjórnenda og kennara. Markmið áformanna fela í sér breytingar með það að markmiði að allir nemendur fái á grundvelli þarfa sinna notið bættrar þjónustu og menntunar án aðgreiningar óháð búsetu. Við framkvæmd laganna skulu réttindi barna tryggð í samræmi við Stjórnarskrá og alþjóðlegar skuldbindingar sem Ísland hefur undirgengist, einkum samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Þessar umbætur lúta að stuðningi í samræmi við þarfir barna óháð því af hvaða ástæðum þau þurfa stuðning. Ráðuneytið hefur ekki áform um að auka sérstaklega við stuðning við börn með ME-sjúkdóminn.