Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 778  —  188. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með breytingartillögu


um frumvarp til laga um Vísinda- og nýsköpunarráð.

Frá 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að setja ný lög um Vísinda- og nýsköpunarráð í stað laga um Vísinda- og tækniráð, nr. 2/2003. Miklar breytingar hafa orðið á málaflokki vísinda og nýsköpunar þó að hlutverk Vísinda- og tækniráðs samkvæmt núgildandi lögum hafi staðið óbreytt. Samkvæmt frumvarpinu er ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun undir formennsku forsætisráðherra ætlað að samræma stefnu stjórnvalda þvert á ráðuneyti og auka yfirsýn, skerpa framtíðarsýn og efla gagnsæi í stefnumálum vísinda og nýsköpunar og styðjast í því efni við virka ráðgjöf Vísinda- og nýsköpunarráðs.
    Líkt og segir í frumvarpinu er markmið þess að styrkja langtímastefnumótun vísinda- og nýsköpunarmála með heildrænni nálgun á málaflokkinn, skýrari hlutverkum helstu aðila og öflugri sjálfstæðri gagnagreiningu, ásamt eftirfylgni og auknu samstarfi og samhæfingu milli ráðuneyta. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir nýju Vísinda- og nýsköpunarráði sem verði sjálfstætt ráðgjafarráð sem eigi í reglubundnu samstarfi við ráðherranefnd um vísindi og nýsköpun. Lögð er áhersla á sjálfstæði ráðsins og að það verði öflug rödd í samfélaginu og styðji við faglega stefnumótun ráðuneyta. Fólk veljist í ráðið á grundvelli krafna um umtalsverða reynslu á vettvangi vísinda, nýsköpunar og tækni.

Samsetning tilnefningarnefndar.
    Að mati 1. minni hluta endurspeglast áhersla á sérfræðiþekkingu hjá fulltrúum í Vísinda- og nýsköpunarráði ekki í fyrirhugaðri samsetningu tilnefningarnefndar skv. 5. gr. frumvarpsins. Nefndin skal tilnefna fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráð. Gert er ráð fyrir að forsætisráðherra skipi að höfðu samráði við ráðherra sem fer með málefni vísinda og nýsköpunar fimm einstaklinga í nefndina, tvo samkvæmt tilnefningu samstarfsnefndar háskólastigsins, einn samkvæmt tilnefningu samtaka fyrirtækja í atvinnurekstri, einn samkvæmt tilnefningu samtaka launafólks og einn án tilnefningar sem skal vera formaður.
    Fyrsti minni hluti tekur undir gagnrýni, sem fram kom í umsögnum um málið og frumvarpið við umfjöllun um málið í nefndinni, á aðkomu launþegahreyfingar að skipan í Vísinda- og nýsköpunarráð fyrir tilstilli tilnefningarnefndar. Í frumvarpinu er lagt til að samtök launþega tilnefni einn einstakling í tilnefningarnefnd. Bent var á að launþegahreyfingin hefur verið áhugalítil og nánast óvirk í nýsköpunarumræðu undanfarin ár.
    Gagnrýnt var að enginn fulltrúi hugvitsfólks fengi að koma að tilnefningum í það ráð sem móta skyldi stefnu í málefnum hugvits og nýsköpunar. Jafnframt kom fram gagnrýni á að Samtök atvinnulífsins hefðu aðkomu að tilnefningarnefnd þar sem samtökin væru í litlum tengslum við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki og umhverfi þeirra. 1. minni hluti tekur undir nefnda gagnrýni og telur það draga úr trúverðugleika tilnefninga í hið ráðgefandi Vísinda- og nýsköpunarráð.
    Sérfræðiþekking fulltrúa í tilnefningarnefnd á málefnasviðinu, þ.e. á sviði vísinda, tækniþróunar og nýsköpunar, er forsenda þess að unnt sé að tryggja fullnægjandi sérfræðiþekkingu innan Vísinda- og nýsköpunarráðs. Að mati 1. minni hluta er ráðherranefndin, sem sett er saman af fagráðuneytum ásamt starfshópi ráðuneyta, rétti vettvangurinn til að meta þarfir vinnumarkaðarins miðað við ráðleggingar Vísinda- og nýsköpunarráðs. Til þess að tryggja megi fullnægjandi sérfræðiþekkingu fulltrúa í Vísinda- og nýsköpunarráði telur 1. minni hluti þörf á því að breyta ákvæði 2. mgr. 5. gr. hvað varðar þá aðila sem tilnefna fulltrúa í tilnefningarnefnd. Mikilvægt er að sem flestir sem tengjast vísindum og ekki síður nýsköpun komi að tilnefningu í ráðið, að ferlið sé opið sem flestum og sé ekki útilokandi. Það verður einungis gert með því að tryggja aðkomu samtaka tæknimenntaðra, samtaka hugvitsfólks og samtaka sprotafyrirtækja. Með vísan til þess er lagt til að í stað samtaka launþega tilnefni samtök tæknimenntaðra einn einstakling í nefndina. Er í því efni m.a. vísað til umsagnar Verkfræðingafélags Íslands þar sem fram kemur að félagið sé eitt stærsta félag tæknimenntaðra á Íslandi. Þá verði einstaklingum í tilnefningarnefnd fjölgað um tvo og þeir verði þar með sjö. Samtök hugvitsfólks tilnefni einn einstakling og samtök sprotafyrirtækja einn í tilnefningarnefndina.

Umsýsla með Vísinda- og nýsköpunarráði.
    Samkvæmt 4. gr. frumvarpsins fer háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti með faglega umsýslu fyrir ráðherranefndina, undirbýr fundi Vísinda- og nýsköpunarráðs og ráðherranefndar og sinnir öðrum verkefnum við undirbúning stefnumótunar og greiningar- og upplýsingavinnu. Í umsögn Rannsóknamiðstöðvar Íslands – Rannís var hins vegar bent á að sjálfstæði ráðsins væri best tryggt með því að fagleg umsýsla með því, þ.m.t. upplýsingaöflun og greining á rannsóknum og nýsköpun, væri á hendi stofnunar utan Stjórnarráðsins. 1. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og telur mikilvægt að tryggja sjálfstæði Vísinda- og nýsköpunarráðs en ólíklegt er að umsýsla með ráðinu innan ráðuneytis sem tengist málaflokknum stuðli að því. 1. minni hluti telur eðlilegra að umsýsla með ráðinu verði hjá Rannís og að þar verði gert ráð fyrir sérstakri skrifstofu ráðsins. Lögð er til breyting þess efnis. Samræmist það vel núverandi starfsemi Rannís enda annast miðstöðin gagnasöfnun og miðlun upplýsinga fyrir starfandi Vísinda- og tækniráð og nefndir þess og aflar upplýsinga og gagna varðandi þróun vísinda og tækni á alþjóðavettvangi, sbr. 5. tölul. 1. mgr. 12. gr. laga um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, nr. 3/2003.

    Að framangreindu virtu leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


     1.      Í stað orðanna „Ráðuneyti sem fer með málefni vísinda“ í 4. gr. komi: Rannsóknamiðstöð Íslands.
     2.      Við 2. mgr. 5. gr.
                  a.      Í stað orðsins „fimm“ komi: sjö.
                  b.      Í stað orðanna „einn samkvæmt tilnefningu samtaka launafólks“ komi: einn samkvæmt tilnefningu Verkfræðingafélags Íslands, einn samkvæmt tilnefningu samtaka hugvitsfólks, einn samkvæmt tilnefningu samtaka sprotafyrirtækja.

Alþingi, 12. desember 2022.

Eyjólfur Ármannsson.