Ferill 1119. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2173  —  1119. mál.




Svar


innviðaráðherra við fyrirspurn frá Arndísi Önnu Kristínardóttur Gunnarsdóttur um vistráðningar EES-borgara.


     1.      Hvaða skilyrði þarf vistráðningarsamningur á milli EES-borgara og vistfjölskyldu að uppfylla til þess að teljast fullnægjandi samkvæmt leiðbeiningum á heimasíðu Þjóðskrár Íslands?
    Samkvæmt núgildandi verklagsreglum Þjóðskrár Íslands um efnið, sem taka einkum mið af skilyrðum 84. gr. útlendingalaga, nr. 80/2016, þarf samningur um vistráðningu, ef au pair kemur inn sem launþegi (sbr. a-lið 1. mgr. 84. gr. útlendingalaga), að innihalda eftirfarandi atriði: gildistíma samnings, laun (ef einhver eru), hlunnindi (til að mynda að því er varðar fæði og húsnæði) og ákvæði um sjúkra- og slysatryggingar. EES-borgari sem kemur til landsins sem au pair getur þó einnig sýnt fram á rétt til dvalar hér á landi á öðrum grundvelli en á grundvelli a-liðar 1. mgr. 84. gr. útlendingalaga, til að mynda á grundvelli c-liðar ákvæðisins, þar sem kveðið er á um að EES-borgari eigi rétt til dvalar lengur en þrjá mánuði ef viðkomandi hefur nægilegt fé fyrir sig og aðstandendur sína til að verða ekki byrði á kerfi félagslegrar aðstoðar á meðan á dvöl stendur og fellur undir sjúkratryggingu sem ábyrgist alla áhættu meðan dvöl hans hér á landi varir.

     2.      Hvaða reglur gilda um vistráðningar EES-borgara (au pair) hér á landi, svo sem um aldur, vinnutíma, lengd dvalar o.fl., í samanburði við reglur sem gilda um vistráðningu skv. 68. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016?
    Engar sérstakar reglur gilda um vistráðningar EES-borgara hér á landi. EES-borgarar sem koma til landsins sem au pair þurfa hins vegar, eins og aðrir, að uppfylla lagaskilyrði til dvalar hér á landi, sjá einkum XI. kafla útlendingalaga (sérreglur um útlendinga sem falla undir samninginn um Evrópska efnahagssvæðið og stofnsamning Fríverslunarsamtaka Evrópu), og ákvæði 1. mgr. 84. gr. laganna.