Ferill 1106. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2175  —  1106. mál.




Svar


háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við fyrirspurn frá Ásthildi Lóu Þórsdóttur um endurskoðun laga um Menntasjóð námsmanna.


    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hver er staða endurskoðunar laga um Menntasjóð námsmanna, nr. 60/2020, samkvæmt ákvæði til bráðabirgða VIII í þeim lögum?
     2.      Hyggst ráðherra hafa samráð við hagsmunaaðila við endurskoðun laganna og ef svo er, hverja?
     3.      Hvenær hyggst ráðherra kynna niðurstöður endurskoðunar laganna og eftir atvikum fyrirhugaðar breytingar á þeim?


    Umrætt bráðabirgðaákvæði er svohljóðandi: Lög þessi skulu endurskoðuð innan þriggja ára frá því að þau koma til framkvæmda. Ráðherra skal kynna niðurstöður endurskoðunarinnar eigi síðar en á haustþingi 2023. Í samræmi við ákvæðið er á þingmálaskrá ráðherra fyrir 154. löggjafarþing boðuð framlagning skýrslu ráðherra um endurskoðun laganna. Vinna við skýrsluna hefur staðið yfir frá haustmánuðum 2022 og fjallar hún m.a. um reynsluna af lögunum og framkvæmd þeirra frá sjónarhóli Menntasjóðs námsmanna, stjórnar Menntasjóðs námsmanna og Landssamtaka stúdenta. Í skýrslunni verður m.a. leitast við að afla svara við því hvort þau fyrirheit sem gefin voru við setningu laganna um hagstæðara jöfnunarkerfi fyrir námsmenn hafi gengið eftir. Þá verður í skýrslunni fjárhagsleg greining á stöðu Menntasjóðs námsmanna og lánasafni sjóðsins og Lánasjóðs íslenskra námsmanna.
    Ráðgert er að drög að skýrslunni verði birt í samráðsgátt stjórnvalda fyrir framlagningu og kynningu hennar á Alþingi. Í kjölfar útgáfu á skýrslunni og umfjöllun um hana á opinberum vettvangi er gert ráð fyrir undirbúningi frumvarps til breytinga á lögunum sem verður lagt fram á vorþingi 2024. Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti mun boða stóran hóp hagaðila til vinnustofu um endurskoðun laganna við undirbúning þess frumvarps. Á þessu stigi liggur ekki fyrir boðslisti fyrir vinnustofuna.
    Ráðherra mun kynna niðurstöður endurskoðunar á lögunum í þeirri skýrslu sem boðað er að lögð verði fram á haustþingi 154. löggjafarþings samkvæmt framansögðu. Afrakstur vinnustofu um endurskoðun laganna verður nýttur sem efni í það frumvarp sem verður lagt fram á vorþingi 2024.