Ferill 1074. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1775  —  1074. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi fyrir Úkraínu.


Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson, Sigurður Ingi Jóhannsson, Kristrún Frostadóttir, Inga Sæland, Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


    Alþingi ályktar að fela utanríkisráðherra að festa kaup á færanlegu neyðarsjúkrahúsi til notkunar fyrir særða hermenn og færa úkraínsku þjóðinni.

Greinargerð.

    Frá því að innrás Rússa í Úkraínu hófst 24. febrúar 2022 hefur það verið markmið íslenskra stjórnvalda að veita Úkraínu stuðning í samræmi við þarfir Úkraínu og getu Íslands. Þverpólitísk samstaða hefur verið um stuðning við Úkraínu á Alþingi og leggja formenn flokkanna áherslu á þá samstöðu með framlagningu þessarar þingsályktunartillögu. Þá er áréttuð samstaða um þá stefnu að framlag Íslands til Úkraínu sé hlutfallslega sambærilegt að umfangi við það sem önnur Norðurlönd leggja af mörkum.
    Á fundi forsætisráðherra með Vólódímír Selenskí forseta Úkraínu í Kænugarði 14. mars 2023 kom forsetinn því sérstaklega á framfæri að brýn þörf væri á færanlegum neyðarsjúkrahúsum fyrir særða hermenn og óskaði eftir stuðningi Íslands í þeim efnum. Í heimsókninni undirstrikaði Selenskí einnig þakklæti fyrir yfirgnæfandi stuðning íslensks almennings við málstað Úkraínu. Á fundi þeirra í Helsinki hinn 3. maí sl. ítrekaði forseti Úkraínu þessa beiðni.
    Mikill skortur er á færanlegum sjúkrahúsum til að sinna særðum hermönnum. Slíkt sjúkrahús gagnast særðum hermönnum á vígvellinum en þar væri einnig hægt að sinna almennum borgurum eftir atvikum. Slíkt sjúkrahús væri einnig hægt að nýta eftir að átökum lýkur.
    Utanríkisráðuneytið hefur skoðað möguleika á að kaupa færanlegt sjúkrahús sem hægt er að starfrækja sjálfstætt, án tengingar við fyrirliggjandi innviði, og uppfyllir staðla Atlantshafsbandalagsins um sjúkrahús þessarar gerðar. Stjórnvöld í Eistlandi hafa boðist til að taka að sér verkefnisstjórn við samsetningu á slíku sjúkrahúsi.
    Þrjú sjúkrahús af þessari gerð hafa verið send til Úkraínu og er óskað eftir þremur til viðbótar. Hafa yfir tíu þúsund sjúklingar fengið aðhlynningu í sjúkrahúsunum, aðallega hermenn en einnig óbreyttir borgarar. Eistnesk stjórnvöld lögðu til eitt, Þýskaland annað og Noregur og Holland í sameiningu hið þriðja. Framleiðslutími á sjúkrahúsi af þessu tagi er um það bil hálft ár.
    Áætlaður kostnaður við kaup á slíku sjúkrahúsi nemur um það bil 7,8 milljónum evra, eða um 1,2 milljörðum kr.