Ferill 1071. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1766  —  1071. mál.




Fyrirspurn


til félags- og vinnumarkaðsráðherra um vinnubrögð úrskurðarnefndar velferðarmála í barnaverndarmálum.

Frá Birni Leví Gunnarssyni.


     1.      Telur ráðherra að úrskurðarnefnd velferðarmála byggi niðurstöðu sína eingöngu á barnaverndarlögum og viðeigandi reglugerð þegar hún úrskurðar um rétt fósturbarna til umgengni við blóðforeldra eða aðra nána fjölskyldumeðlimi? Telur ráðherra að nefndin gæti að ákvæðum stjórnarskrár, mannréttindasáttmála Evrópu (MSE) og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í úrskurðum sínum og samræmi við úrskurði Mannréttindadómstóls Evrópu og barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna við mat á því hvað teljist vera barni fyrir bestu?
     2.      Telur ráðherra að afgreiðsla úrskurðarnefndar velferðarmála og fyrri barnaverndarnefnda þar sem ekki er umfjöllun eða skírskotun til ákvæða stjórnarskrár, MSE og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem gilda um samband barns og foreldris fullnægi lögmætisreglunni, reglunni um fullnægjandi rökstuðning og rannsóknarreglunni?
     3.      Er það mat ráðherra að niðurstöður úrskurðarnefndar velferðarmála séu fullnægjandi ef ekki er tekið tillit til réttinda barns til friðhelgi einkalífs og fjölskyldu, eða réttinda barns til að eiga beina og reglulega umgengni við blóðforeldri, enda sé það ekki andstætt hagsmunum barnsins, sbr. 3 mgr. 9. gr. barnasáttmálans?
     4.      Ber úrskurðarnefnd velferðarmála lagaleg skylda til að byggja niðurstöðu sína á og túlka innlend lög til samræmis við ákvæði barnasáttmálans, MSE og stjórnarskrárinnar, sér í lagi 71. gr. stjórnarskrárinnar auk 8 gr. MSE, þegar kveðinn er upp rökstuddur úrskurður um réttindi barns í varanlegu fóstri til umgengni við blóðforeldri eða aðra nána ættingja?


Skriflegt svar óskast.