Ferill 1044. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1869 — 1044. mál.
Svar
dómsmálaráðherra við fyrirspurn frá Indriða Inga Stefánssyni um opinberar fjársafnanir.
Fyrirspurnin hljóðar svo:
Hvernig er eftirliti háttað með opinberum fjársöfnunum stofnana og félaga, hvert söfnunarféð skilar sér og hvernig því er varið?
Við vinnslu fyrirspurnarinnar var óskað eftir upplýsingum frá embætti sýslumannsins á Suðurlandi, sem veitir leyfi fyrir opinberum fjársöfnunum á götum eða í húsum og fer að öðru leyti með verkefni sem sýslumanni eru falin í lögum um opinberar fjársafnanir. Byggjast svör ráðuneytisins meðal annars á þeim upplýsingum sem bárust frá embættinu.
Samkvæmt lögum um opinberar fjársafnanir, nr. 5/1977, með síðari breytingum, sbr. reglugerð nr. 786/2008, gefur sýslumaðurinn á Suðurlandi út leyfi fyrir opinberum fjársöfnunum á götum eða í húsum, sbr. 4. gr. laganna, og móttekur tilkynningar um opinberar fjársafnanir sem ekki eru háðar leyfi, sbr. 1. mgr. 3. gr. laganna.
Samkvæmt 8. gr. reglugerðar nr. 786/2008 ber leyfishöfum eða tilkynnendum um opinbera fjársöfnun að skila innan 6 mánaða frá lokum fjársöfnunar til sýslumanns eftirtöldum gögnum:
1. Endurskoðuðum reikningi söfnunarinnar.
2. Staðfestingu þess er móttekið hefur söfnunarfé.
3. Upplýsingum um hvar og hvenær birting á reikningi söfnunarinnar fer fram.
Ef söfnunarfé nær ekki 500.000 kr. má tilkynna opinberlega að reikningshald fjársöfnunar sé til sýnis á nánar tilteknum stað í a.m.k. 14 daga.