Ferill 1025. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1980 — 1025. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um aðgengi að heilbrigðisþjónustuí Kjósarhreppi.
1. Hvenær mun foreldrum nýfæddra barna í Kjósarhreppi bjóðast heimavitjanir hjúkrunarfræðings í ung- og smábarnavernd, rétt eins og öðrum nýbökuðum foreldrum sem falla undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins?
Heilsugæslustöðin í Mosfellsbæ sinnir ung- og smábarnavernd í Kjósarhreppi. Hins vegar er heimaþjónusta ljósmæðra, sem er þjónusta fyrstu tíu dagana eftir fæðingu barns, sjálfstætt rekin af ljósmæðrum á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Foreldrar hafa val um þá ljósmóður sem kemur heim til þeirra eftir fæðingu barns og hafa foreldrar beint samband við viðkomandi ljósmóður.
2. Hvenær munu íbúar Kjósarhrepps geta notið hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu í heimahúsi allan sólarhringinn, alla daga vikunnar, sem Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins veitir öðrum íbúum sem falla undir hana?
Heilsugæslustöðin í Mosfellsbæ, sem heyrir undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sinnir heimahjúkrun og annarri heilbrigðisþjónustu í heimahúsi í Mosfellsbæ og Kjósarhreppi á virkum dögum á dagvinnutíma. Reykjavíkurborg sinnir þessari þjónustu í Mosfellsbæ á kvöldin og um helgar á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Farið hefði vel á því ef samsvarandi þjónusta við Kjósarhrepp á kvöldin og um helgar hefði sömuleiðis verið hluti af þeim samningi. Ráðuneytið hefur því nú þegar falið Sjúkratryggingum Íslands að tryggja þjónustu heimaþjónustu Reykjavíkur við íbúa Kjósarhrepps með viðaukasamningi í samvinnu við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Á meðan gengið er frá þeim samningi er ábyrgð á þjónustunni hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.