Ferill 1020. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 1779 — 1020. mál.
Svar
innviðaráðherra við fyrirspurn frá Gísla Rafni Ólafssyni um vegaframkvæmdir í Kjósarhreppi.
1. Hvaða áætlanir eru uppi um að byggja nýja brú yfir Laxá í Kjós?
Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var brúin yfir Laxá í Kjós lagfærð talsvert á síðasta ári þar sem vafi þótti leika á burðarþoli hennar. Eftir þær endurbætur er burðarþol brúarinnar talið viðunandi. Vegagerðin hefur markvisst unnið að því undanfarin ár að fækka einbreiðum brúm í vegakerfinu en það sem ræður forgangsröðun er fyrst og fremst ástand brúa með tilliti til burðarþols og umferðarmagns. Enn eru í vegakerfinu einbreiðar brýr þar sem umferð er meiri en í Hvalfirði.
2. Hvaða áætlanir eru uppi um að lagfæra og binda slitlag á Eyrarfjallsvegi?
Eyrarfjallsvegur er 11 km langur og þar af er bundið slitlag á um 1 km. Eyrarfjallsvegur er eini tengivegurinn sem eftir er í Kjós með malarslitlagi. Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni eru um 220 millj. kr. á ári veittar af tengivegaáætlun til að koma bundnu slitlagi á tengivegi á svæðinu. Það sem fyrst og fremst hefur ráðið forgangsröðun er umferðarmagn og hversu mikillar þjónustu vegirnir krefjast. Sólarhringsumferð á Eyrarfjallsvegi var aðeins 44 til 60 bílar árið 2021 en þrátt fyrir það er stefnt að því að leggja bundið slitlag á 1,5 km kafla í ár.
3. Hvaða áætlanir eru uppi um almennt viðhald héraðsvega í Kjósarhreppi?
Fjármagn fyrir viðhaldi héraðsvega er fengið af almennu viðhaldsfé hjá Vegagerðinni og hefur viðhald héraðsvega setið eftir þar sem umferðarmeiri vegir eru hafðir í forgangi. Reynt er að hafa í forgangi að viðhalda þeim þannig að þeir haldi burðarþoli og þoli akstur þyngri bíla eins og fóðurbíla, mjólkurbíla og eftir atvikum stærri hópferðabíla. Viðhald var unnið á Eyrarfjallsvegi, Þorláksstaðavegi og Flekkudalsvegi á síðasta ári.