Ferill 1003. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.
153. löggjafarþing 2022–2023.
Þingskjal 2022 — 1003. mál.
Svar
heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Ástrós Rut Sigurðardóttur um stuðning við aðstandendur sjúklinga.
1. Hefur ráðherra í hyggju að auka stuðning við aðstandendur sjúklinga í formi áfallahjálpar, niðurgreiðslu sálfræðiþjónustu eða annarrar sambærilegrar aðstoðar?
Það er viðvarandi verkefni ráðherra að auka aðgengi að heilbrigðisþjónustu óháð stöðu í samræmi við markmið laga um sjúkratryggingar. Í 1. mgr. 21. gr. a laga nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, er kveðið á um að sjúkratryggingar taki til nauðsynlegrar sálfræðimeðferðar og annarrar gagnreyndrar samtalsmeðferðar heilbrigðisstarfsmanna sem samið hafi verið um skv. IV. kafla laganna. Segir í 2. mgr. ákvæðisins að ráðherra setji reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar þar sem m.a. sé heimilt að kveða á um nánari skilyrði og takmörkun greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði við sálfræðimeðferð.
Ákvæðið kom inn í lög um sjúkratryggingar með lögum nr. 93/2020 og öðlaðist gildi 1. janúar 2021. Í athugasemdum í frumvarpi til laga nr. 93/2020 kemur fram að markmiðið með frumvarpinu hafi verið að almenn sálfræðiþjónusta og önnur klínísk viðtalsúrræði falli undir greiðsluþátttökukerfi sjúkratrygginga og þannig veitt á sömu forsendum og önnur heilbrigðisþjónusta. Er vísað til þess að vaxandi fjöldi fólks greinist með geðraskanir eða önnur andleg veikindi en aðgengi að úrræðum og þjónustu fyrir þennan hóp sé takmarkað og kostnaður oft töluverður.
Að því er varðar aðgang að niðurgreiddri sálfræðiþjónustu bendir ráðherra á að þegar hefur verið gripið til aðgerða til að auka aðgang að þjónustunni með rammasamningi milli Sjúkratrygginga Íslands og sálfræðinga, sem fengið hafa samþykkt stofnunarinnar til að starfa samkvæmt samningnum, um sálfræðiþjónustu. Samningurinn tók gildi þann 17. október sl. og geta sálfræðingar, sem uppfylla þau skilyrði sem sett eru fram í samningnum, gerst aðilar að honum.
Með samningnum hefur ráðherra aukið möguleika fólks á að sækja sér sálfræðiþjónustu sem greidd er af sjúkratryggingum. Má jafnframt benda á að á fjárlögum 2022 voru framlög til samninga Sjúkratrygginga Íslands um sálfræðiþjónustu aukin um 150 millj. kr. og voru þá 250 millj. kr. sérgreind framlög á fjárlögum til að semja um sálfræðiþjónustu. Er fyrrgreindur rammasamningur skref í þá átt að auka aðgengi að sálfræðiþjónustu óháð efnahag.
Einnig er vert að taka fram að geðheilbrigðisþjónustan hefur almennt verið efld undanfarin ár með auknu fjármagni. Þverfagleg geðheilbrigðisþjónusta í heilsugæslu um land allt hefur meðal annars verið styrkt til muna.
Að lokum var stefna í geðheilbrigðismálum samþykkt á síðasta þingi og var metnaðarfull aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum samþykkt í framhaldi á þessu þingi þar sem áhersla er lögð á veitingu árangursríkrar og tímanlegar heilbrigðisþjónustu á viðeigandi stað innan heilbrigðiskerfisins.
2. Hefur ráðherra í hyggju að auka stuðning við börn sjúklinga?
Hinn 18. júní 2019 varð að lögum frumvarp um breytingu á ýmsum lögum vegna réttar barna sem aðstandenda. Með samþykkt frumvarpsins voru gerðar breytingar á lögum um réttindi sjúklinga, nr. 74/1997 (ný 27. gr. a), og lögum um heilbrigðisstarfsmenn, nr. 34/2012 (2. mgr. 13. gr.). Með þeim breytingum öðluðust börn sjálfstæðan rétt sem aðstandendur foreldra sem glíma við alvarleg veikindi eða foreldra sem láta lífið. Breytingarnar fólu í sér að börnum skuli tryggður nauðsynlegur stuðningur og ráðgjöf í þessum kringumstæðum, réttur til að umgangast nána vandamenn sé það til hagsbóta fyrir barnið og haft sé frumkvæði að samvinnu við skóla barns við þessar aðstæður.
Breytingarnar fela í sér að heilbrigðisstarfsfólk sem ber ábyrgð á meðferð skjólstæðings ber einnig ábyrgð á að kanna hvort barn sé í umsjá viðkomandi. Heilbrigðisstarfsmanni ber að kanna þarfir barns fyrir þjónustu og til dæmis bjóða að tengiliður barns sé virkjaður, sbr. lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna, nr. 86/2021. Heilbrigðisstarfsfólki ber jafnframt að mæta þörf barna fyrir upplýsingar, stuðning og eftirfylgd og þekkja lög og viðbrögð sem gilda um börn sem aðstandendur.
Á stjórnendum heilbrigðisstofnana hvílir sú ábyrgð að:
a. upplýsa starfsmenn,
b. innleiða verklag og bregðast við verklagi ef því hefur ekki verið fylgt,
c. samræma og skipuleggja vinnu stofnunarinnar og/eða útnefna þann sem samræmir og skipuleggur vinnuna,
d. tryggja að verkferlum sé framfylgt,
e. hafa yfirsýn yfir úrræði og leiðir sem nýtast barninu og fjölskyldunni innan og utan stofnunarinnar,
f. hafa þekkingu á þörfum og aðstæðum barna sem eru aðstandendur og sinna fræðslu, ráðgjöf og handleiðslu við aðra starfsmenn,
g. sjá um að íhlutun um barnið fari inn í aðrar áætlanir um þjónustu við fjölskylduna,
h. sjá til þess að samstarf sé við aðrar stofnanir.
Verkferla fyrir heilbrigðisstofnanir annars vegar í þeim tilfellum er foreldri deyr og hins vegar vegna veikinda foreldris má finna inni á vefsvæði Þróunarmiðstöðvar íslenskrar heilsugæslu.
Í 6. mgr. 27. gr. a er kveðið á um að ráðherra setji reglugerð um framkvæmd ákvæðisins. Sú reglugerð hefur ekki enn verið sett en í gangi er vinna innan ráðuneytisins við gerð hennar.