Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 86 | Þingskjöl: 9 | Staða: Lokið
Markmið:
Helstu breytingar og nýjungar: Frumvarpið felur í sér nýja aðferð við ákvörðun aflaverðmætis í reiknistofni veiðigjalds. Lagt er til að frystiskip verði undanskilin útreikningi reiknistofns. Jafnframt er gert ráð fyrir að aflaverðmæti landaðs frysts afla lækki um 20% þegar 50% eða meira af afla tiltekinnar tegundar er frystur, óháð því hvort um frystiskip er að ræða eða ekki. Fyrir síld, kolmunna og makríl yrði miðað við meðalverð samkvæmt opinberum gögnum frá Fiskeridirektoratet í Noregi (fiskistofu Noregs). Fyrir þorsk og ýsu yrði miðað við meðalverð á fiskmörkuðum innanlands að teknu tilliti til vegins meðaltals slægs og óslægðs afla og gert er ráð fyrir að Fiskistofa safni þeim upplýsingum og birti opinberlega. Einnig er lagt til þrepaskipt frítekjumark í stað eins almenns frítekjumarks; fyrir alla nytjastofna nema þorsk og ýsu yrði það 40% af fyrstu 9 milljónum kr. álagningar en fyrir þorsk og ýsu 40% af fyrstu 50 milljónum kr. álagningar.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um veiðigjald, nr. 145/2018.
Kostnaður og tekjur: Áætlað er að breytingarnar hækki tekjur ríkissjóðs um 8–10 milljarða kr. árlega frá og með 2026. Áætlað álagt veiðigjald er því um 19,5 milljarðar kr. árið 2026 en m.t.t. frítekjumarks er gert ráð fyrir að innheimt veiðigjald verði um 17,3 milljarðar kr.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla: Samþykkt með töluverðum breytingum. Ákveðið var að þegar 50% eða meira af lönduðum afla fiskiskips, sem ekki telst frystiskip í skilningi þessara laga, í einstakri tegund eru frystar afurðir skyldi lækka aflaverðmæti þeirrar tegundar þess skips um 20%. Þá var ákveðið að aflaverðmæti makríls skyldi miðast við 80% af norsku markaðsverði. Samþykkt var að Fiskistofu yrði falið að reikna aflaverðmæti þorsks og ýsu á grundvelli gagna frá Verðlagsstofu skiptaverðs, birta vegið meðaltalsverð slægðs og óslægðs afla og afhenda ríkisskattstjóra útreikningana sem leggur þá til grundvallar við útreikning veiðigjalds. Einnig var samþykkt að breyta þrepaskiptingu frítekjumarks fyrir þorsk og ýsu í 65% af fyrstu 15 milljónum kr. álagningar og 45% af næstu 55 milljónum kr. álagningar. Ákveðið var að innleiða nýju reikniaðferðina í áföngum þannig að fyrir veiðigjaldsárið 2026 skyldi veiðigjald vegna síldar, kolmunna, makríls, þorsks og ýsu nema 85% af fjárhæð veiðigjalds og 95% veiðigjaldsárið 2027.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Atvinnuvegir: Sjávarútvegur | Hagstjórn: Skattar og tollar | Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Sveitarstjórnarmál