Markmið: Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2025.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagt er til að krónutöluskattar (áfengis- og tóbaksgjöld og bifreiðagjald), gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og útvarpsgjald hækki um 2,5%. Gert er ráð fyrir hækkun barnabóta og að heildarútgjöld vegna þeirra verði 21 milljarður kr. Gert er ráð fyrir að lækkun á framlagi ríkissjóðs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða skili um 4,6 milljarða kr. sparnaði. Lagt er lagt til að framlengja tímabundnar útreikningsreglur og viðmiðunarfjárhæðir vaxtabóta óbreyttar um eitt ár, og að bráðabirgðaákvæði verði framlengd til að sporna við því að víxlverkanir örorkubóta almannatrygginga og örorkulífeyris lífeyrissjóða hefjist að nýju. Breytingar eru lagðar til á eftirlitsgjaldi til að standa undir áætluðum kostnaði við rekstur Fjármálaeftirlits og skilavalds innan Seðlabanka Íslands. Þá er gert ráð fyrir að komið verði í veg fyrir aukna kostnaðarþátttöku vistmanna á hjúkrunarheimilum, að sóknargjöld lækki og að skilagjald á drykkjarumbúðir hækki. Breytingar verða gerðar á fjárhæð losunargjalds samkvæmt lögum um viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir og heimild Náttúruhamfaratryggingar Íslands til innheimtu álags á iðgjöld verður rýmkuð. Einnig verða gerðar breytingar á úrvinnslugjaldi ýmissa vöruflokka. Flestar aðrar tillögur fela í sér framlengingu bráðabirgðaákvæða.
Breytingar á lögum og tengd mál: Alls er verið að breyta 20 lögum.
Kostnaður og tekjur:
Gjöld
Útgjöld vegna vaxtabóta nema 2,1 milljarði kr. á árinu 2025. Framlag ríkissjóðs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða lækkar úr 7,1 í 2,5 milljarða kr. Barnabætur hækka um 2 milljarða og nema samtals 21 milljarði kr. Hlutur ofanflóðasjóðs í hættumati verður allt að 140 milljónir kr.
Tekjur
Verðlagsuppfærsla krónutölugjalda skilar 1,2 milljörðum kr. í auknar tekjur. Hækkun útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra nemur samtals um 240 milljónum kr. Tekjur Náttúruhamfaratryggingar Íslands geta aukist um 2,7 milljarða kr. Tekjuáhrif á ríkissjóð nema samtals um 4,1 milljarði kr.
Afgreiðsla: Samþykkt með ýmsum breytingum. Þar sem ekki var lengur áformað að frumvarp til laga um kílómetragjald af ökutækjum yrði að lögum fyrir áramót var kolefnisgjald hækkað um 59% og olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald og almennt og sérstakt bensíngjald um 2,5%. Framlag ríkissjóðs til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóða fyrir árið 2024 var lækkað minna en til stóð eða um 2,6 milljarða kr. Í stað þess að lækka sóknargjöld voru þau hækkuð um 2,5%.
Efnisflokkar:
Hagstjórn: Efnahagsmál
|
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins
|
Hagstjórn: Skattar og tollar