Markmið: Að styrkja samstarf og samhæfingu eftirlits á vinnumarkaði með tilliti til aðgerða gegn brotastarfsemi og félagslegum undirboðum.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagt er til að komið verði á laggirnar sérstakri samstarfsnefnd stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um aðgerðir gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði. Hlutverk hennar verður að móta stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda gegn slíkri brotastarfsemi. Þá er lagt til að komið verði á fót samstarfsvettvangi opinberra eftirlitsaðila gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði undir forystu Vinnueftirlits ríkisins. Samstarfsvettvangnum verður m.a. ætlað að efla og samræma eftirlit með því að allir aðilar á innlendum vinnumarkaði fari að ákvæðum laga, reglugerða og kjarasamninga sem gilda á vinnumarkaði og standa fyrir sameiginlegum aðgerðum gegn brotastarfsemi á vinnumarkaði með eftirliti og virkri eftirfylgni. Enn fremur er lagt til að Vinnueftirlitið fái auknar heimildir til að beita viðurlögum, m.a. í því skyni að gera stofnuninni kleift að bregðast á viðeigandi hátt við alvarlegum brotum gegn ákvæðum laganna, sem geta ógnað öryggi og vellíðan starfsfólks á vinnustöðum. Loks er gert ráð fyrir því að það hlutverk sem Vinnumálastofnun hefur haft samkvæmt lögum hvað varðar eftirlit á vinnumarkaði verði flutt til Vinnueftirlits ríkisins.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, nr. 55/1980.
Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, nr.
46/1980.
Lög um útsenda starfsmenn og skyldur erlendra þjónustuveitenda, nr.
45/2007.
Lög um vinnustaðaskírteini og eftirlit á vinnustöðum, nr.
42/2010.
Kostnaður og tekjur: Gert er ráð fyrir viðbótarstöðugildi hjá Vinnueftirlitinu en ekki kemur fram í frumvarpi hver kostnaðaráhrif á ríkissjóð gætu verið.
Afgreiðsla: Samþykkt með fáeinum breytingum sem voru tæknilegs eðlis.
Efnisflokkar:
Samfélagsmál: Atvinnumál
|
Samfélagsmál: Félagsmál
|
Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit