Markmið: 
Að bæta afkomu örorkulífeyrisþega, sérstaklega kjör þeirra sem lakast standa, einfalda örorkulífeyriskerfið og auka stuðning við þá sem búa við langvarandi eða alvarlegan heilsubrest og fá meðferð eða taka þátt í endurhæfingu, draga úr áhrifum annarra tekna á fjárhæðir greiðslna með frítekjumörkum og gera kerfið í senn skilvirkara, gagnsærra og réttlátara. Að auðvelda þátttöku og endurkomu einstaklinga á vinnumarkað eftir áföll þannig að fólk hafi fjárhagslegan hag af atvinnuþátttöku og njóti stuðnings við atvinnuleit.
                    
                    
                        Helstu breytingar og nýjungar: 
Lagt er til að einfalda örorkulífeyriskerfið þar sem gert verður ráð fyrir tvenns konar lífeyri, örorkulífeyri og hlutaörorkulífeyri, sem fer eftir getu til virkni á vinnumarkaði. Þá er lagt til að nýtt mat, samþætt sérfræðimat, komi í stað núverandi örorkumats til að meta getu einstaklinga til virkni á vinnumarkaði. Í stað endurhæfingarlífeyris á að koma á fót sjúkra- og endurhæfingargreiðslum með lengri hámarkstíma og auknum sveigjanleika. Gert er ráð fyrir að hlutaörorkulífeyrisþegar sem eru í atvinnuleit geti fengið virknistyrk til allt að 24 mánaða. Enn fremur er lagt til að sameina og hækka frítekjumörk.
                    
                    
                        Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um almannatryggingar, nr. 100/2007.
Lög um félagslega aðstoð, nr. 
99/2007.
Lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 
55/2006.
Lög um heilbrigðisþjónustu, nr. 
40/2007.
Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 
40/1991.
Lög um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða, nr. 
60/2012.
Lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 
54/2006.
Lög um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 
144/2020.
Lög um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, nr. 
22/2006.
Lög um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar, nr. 
40/2009.
Lög um tímabundnar greiðslur vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir, nr. 
24/2020.
Kostnaður og tekjur: 
Gert er ráð fyrir að kostnaður greiðslukerfis vegna örorku og endurhæfingar aukist um 18,1 milljarð kr. á ári, auk einskiptiskostnaðar vegna nýs kerfis (fjárhæð ótilgreind). Áætlað er að vinnumarkaðsaðgerðir, þ.á.m. virknistyrkur, muni kosta 900 milljónir kr. Áhersla á endurhæfingu hefur skilað árangri á undanförnum árum og í stað 2,5% árlegs vaxtar greiðslukerfisins eins og forsendur fjárlaga hafa gert ráð fyrir hafa útgjöld síðustu ára ekki aukist að ráði umfram verðlagsbætur. Er sá uppsafnaði árangur metinn til allt að 8 milljarða kr. á ársgrunni. Kerfisbreytingarnar í frumvarpinu munu líklega leiða til lægra nýgengis greiðsluþega og stuðla að aukinni atvinnuþátttöku, sem gæti lækkað kostnað um 6 milljarða kr. á nokkrum árum. Að auki er gert ráð fyrir að árlegur kerfislægur vöxtur vegna fjölgunar greiðsluþega lækki um 2,2 milljarða kr. á ársgrunni eða úr 2,5% í 0,3%–0,4%. Samanlagt er því gert ráð fyrir að ávinningur af áherslu á endurhæfingu og þeim kerfisbreytingum sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu verði búinn að vega upp kostnaðaraukann að fimm árum liðnum.
                    
                    
                        Aðrar upplýsingar: Löggjöf á Norðurlöndum
Danmörk
Finnland
Noregur
Svíþjóð
                    
                    
                    
                        Afgreiðsla: Samþykkt með nokkrum breytingum.
                    
                    
                    
                        Efnisflokkar:
                        
                            
                            Samfélagsmál: Almannatryggingar
                        
                             | 
                            Samfélagsmál: Atvinnumál
                        
                             | 
                            Samfélagsmál: Félagsmál
                        
                             | 
                            Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins