Markmið: Að vernda afkomu fólks, sem ekki getur gegnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavíkurbæ þar sem starfsstöð þess er staðsett í sveitarfélaginu, með því að tryggja launagreiðslur til viðkomandi upp að ákveðnu hámarki og viðhalda ráðningarsambandi.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagt er til að heimilt verði að veita tímabundinn stuðning vegna greiðslu launa starfsfólks á almennum vinnumarkaði sem ekki getur sinnt störfum sínum vegna náttúruhamfara í Grindavík þar sem starfsstöð þess er í sveitarfélaginu. Þá er lagt til að heimilt verði að veita starfsfólki og sjálfstætt starfandi einstaklingum tímabundinn stuðning vegna launataps þrátt fyrir að viðkomandi hafi ekki fengið greidd laun, s.s. vegna rekstrarörðugleika eða tekjufalls atvinnurekanda. Gert er ráð fyrir að hámarksstuðningur verði 633.000 kr. á mánuði. Einnig er gert ráð fyrir að greiddur verði 11,5% viðbótarstuðningur af greiddri fjárhæð hverju sinni vegna mótframlags í lífeyrissjóð. Þannig gæti stuðningur að hámarki numið 705.795 kr. vegna hvers einstaklings.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög.
Kostnaður og tekjur:
Gert er ráð fyrir kostnaði upp á 958–1.412 milljónir kr. á mánuði. Kostnaður vegna umsýslu Vinnumálastofnunar við þróun hugbúnaðarlausna er áætlaður á bilinu 20–30 milljónir kr. Þá er gert ráð fyrir að stofnunin þurfi að bæta við tveimur til þremur stöðugildum.
Afgreiðsla: Samþykkt óbreytt.
Efnisflokkar:
Samfélagsmál: Atvinnumál
|
Samfélagsmál: Félagsmál
|
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins
|
Lög og réttur: Löggæsla og eftirlit
|
Umhverfismál: Umhverfisstjórn og náttúruvernd