Markmið:
Sjálfbær þróun, heilnæmt umhverfi og umhverfisvernd sem vinna skal að með umhverfismati framkvæmda og áætlana sem eru líklegar til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif. Skilvirkni við umhverfismat framkvæmda og áætlana. Að almenningur hafi aðkomu að umhverfismati framkvæmda og áætlana og samvinna aðila sem hafa hagsmuna að gæta eða láta sig málið varða vegna umhverfismats framkvæmda og áætlana.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagt er til að lög um mat á umhverfisáhrifum og lög um umhverfismat áætlana verði sameinuð í eina löggjöf. Jafnframt er lagt til að þrjár Evrópugerðir verði innleiddar. Leitast er við að bæta framsetningu laganna með því að hafa ákvæði þeirra styttri og skýrari auk þess sem gert er ráð fyrir að efni núgildandi laga færist að einhverjum hluta í reglugerð. Lögð er til einfaldari málsmeðferð við umhverfismat framkvæmda þar sem fallið er frá tvöföldu samráði. Þá er lagt til að framkvæmdaraðili leggi fram eina umhverfismatsskýrslu í stað frummatsskýrslu og matsskýrslu. Gert er ráð fyrir möguleika á forsamráði framkvæmdaraðila, leyfisveitenda og Skipulagsstofnunar í þeim tilgangi að auka gæði og skilvirkni verkefnisins og er lagt til að kynningar og samráð um umhverfismat fari fram í gegnum landfræðilega samráðs- og upplýsingagátt. Gert er ráð fyrir að heildarferli umhverfismats styttist frá því sem nú er en þó eru lagðir til rýmri tímafrestir vegna málsmeðferðar en eru í núgildandi lögum. Lagt er til að framkvæmdaflokkum verði fækkað úr þremur í tvo og verða framkvæmdir í flokki A ávallt háðar umhverfismati. Framkvæmdir í flokki B eru hins vegar háðar umhverfismati sé talið líklegt að þær hafi í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög og við gildistöku þeirra falla úr gildi lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000, og lög um umhverfismat áætlana, nr. 105/2006. Jafnframt verða breytingar á skipulagslögum, nr. 123/2010, lögum um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, nr. 130/2011, og lögum um náttúruvernd, nr. 60/2013.
Kostnaður og tekjur: Kemur ekki fram í frumvarpi.
Aðrar upplýsingar:
Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins
2014/52/ESB frá 16. apríl 2014 um breytingu á tilskipun
2011/92/ESB um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið.
Löggjöf á Norðurlöndum
Danmörk
Bekendtgørelse af lov om miljøvurdering af planer og programmer og af konkrete projekter (VVM)
LBK nr 973 af 25/06/2020.
Finnland
Lag om förfarandet vid miljökonsekvensbedömning
5.5.2017/252.
Noregur
Lov om planlegging og byggesaksbehandling (plan- og bygningsloven)
LOV-2008-06-27-71.
Svíþjóð
Sjá einkum 6. kafla.
Afgreiðsla: Samþykkt með minni háttar breytingum.
Efnisflokkar:
Umhverfismál: Mengun
|
Umhverfismál: Orkumál og auðlindir
|
Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Sveitarstjórnarmál
|
Atvinnuvegir: Tölvu- og upplýsingamál
|
Umhverfismál: Umhverfisstjórn og náttúruvernd