Markmið: Að samræma lífeyrisréttindi milli einstakra hópa starfsmanna á vinnumarkaði, einkum milli almenna vinnumarkaðarins og opinberra starfsmanna.
Helstu breytingar og nýjungar:
Lagt er til að lögfest verði að lágmarksiðgjald til lífeyrissjóðs verði a.m.k. 15,5% af iðgjaldsstofni í stað 12%. Einnig er lagt til að mælt verði fyrir í lögum um sk. tilgreinda séreign þannig að heimilt verði að skipta hinu lögbundna lágmarksiðgjaldi til lífeyrissjóðs þannig að allt að 3,5% geti farið til öflunar réttinda í tilgreindri séreign. Þá er lagt til að sjóðfélögum verði heimiluð skattfrjáls ráðstöfun tilgreindrar séreignar til kaupa á fyrsta íbúðarhúsnæði til viðbótar við gildandi úrræði um ráðstöfun séreignarsparnaðar. Einnig er lagt til að sjóðfélögum sem ekki hafa átt íbúðarhúsnæði í fimm ár frá því að umsókn um ráðstöfun kemur fram verði heimilað að nýta sömu séreignarsparnaðarúrræði og kaupendum fyrstu íbúðar. Lagt er til að lífeyrissjóðum verði heimilt að senda yfirlit og upplýsingar til sjóðfélaga með rafrænum hætti á vefnum Ísland.is. Enn fremur er lagt til að horfið verði frá því að lífeyrisgreiðslur frá lífeyrissjóðum séu verðtryggðar mánaðarlega til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs. Þess í stað er lagt til að lífeyrir verði verðbættur 1. janúar ár hvert til samræmis við breytingu á vísitölu neysluverðs næstliðins árs.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997.
Lög um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð, nr.
111/2016.
Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr.
1/1997.
Kostnaður og tekjur:
Áætlað er að lögfesting lágmarksmótframlags launagreiðanda í 11,5% muni minnka rekstrarafgang fyrirtækja sem hefur í för með sér 670 milljóna kr. lækkun á tekjum ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila á ársgrundvelli. Gert er ráð fyrir að hækkun mótframlagsins hækki gjaldstofn tryggingagjalds og að hún skili um 440 milljónum kr. á ári í ríkissjóð. Hærra tryggingagjald minnkar rekstrarafgang fyrirtækja með sama hætti og hærra mótframlag í lífeyrissjóð og lækka tekjur ríkissjóðs af tekjuskatti lögaðila því um sem nemur 70 milljónum kr. á ári.
Meðalskattprósenta ellilífeyrisþega var tæp 23% við nýjustu álagningu tekjuskatts einstaklinga fyrir tekjuárið 2019, þ.e. 8,5% til ríkis og 14,44% til sveitarfélaga. Miðað við þær forsendur hefðu verið greiddir 0,7 milljarðar kr. í tekjuskatt til ríkis og 1,1 milljarður kr. til sveitarfélaga í núverandi kerfi af 7,6 milljarða kr. hærri greiðslum til lífeyrisþega. Þar sem tekjuskattskerfið er ólínulegt skiptir höfuðmáli hvernig hækkunin dreifist meðal lífeyrisþeganna. Vegna þess að stjórnvöld hafa engar upplýsingar um tekjudreifingu hópsins sem hefur verið með 8% mótframlag en fer nú í 11,5% er ekki hægt að áætla með vissu hver tekjuáhrif á ríkissjóð verða á ársgrundvelli í framtíðinni en gróflega má áætla að þau verði á bilinu 0,6–1,2 milljarðar kr. ef viðbótarfjárhæðirnar hefðu verið skattlagðar á árinu 2020.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla: Málinu var vísað til ríkisstjórnarinnar eftir 2. umræðu.
Efnisflokkar:
Samfélagsmál: Almannatryggingar
|
Samfélagsmál: Félagsmál
|
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins
|
Hagstjórn: Skattar og tollar
|
Atvinnuvegir: Tölvu- og upplýsingamál