Markmið: Að breyta ýmsum lögum sem tengjast tekju- eða gjaldahlið ríkissjóðs í samræmi við forsendur fjárlagafrumvarps fyrir árið 2021.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að krónutöluskattar (kolefnisgjald, olíugjald, almennt og sérstakt kílómetragjald, almennt og sérstakt bensíngjald, bifreiðagjald og gjald á áfengi og tóbak) hækki um 2,5%. Sama gildir um gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra og sérstakt gjald til Ríkisútvarpsins. Gert er ráð fyrir að skattfrelsismörk erfðafjárskatts hækki úr 1,5 milljónum kr. í 5 milljónir kr. ásamt því að þau taki árlegum breytingum miðað við þróun vísitölu neysluverðs. Flestar aðrar breytingar tengjast framlengingu bráðabirgðaákvæða.
Breytingar á lögum og tengd mál: Alls er verið að breyta 19 lögum.
Kostnaður og tekjur:
Gjöld
Tillaga í frumvarpinu um óbreyttar viðmiðanir vaxtabótakerfisins leiðir til þess að útgjöld vegna vaxtabóta nema 2,6 milljörðum króna á árinu 2021.
Tekjur
Hækkun nefskatta — útvarpsgjalds og gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra — nemur samtals 180 milljónum kr. Þá mun verðlagsuppfærsla krónutölugjalda (áfengi, tóbak, eldsneyti og bifreiða- og kílómetragjöld) auka tekjur ríkissjóðs um 1,8 milljarða kr. Gert er ráð fyrir að hækkun skattfrelsismarka erfðafjárskatts lækki tekjur ríkissjóðs um 0,5 milljarð kr. árið 2021. Aðrar breytingar hafa ýmist áhrif á tekju- og/eða gjaldahlið en samanlögð áhrif af þeim breytingum á afkomu ríkissjóðs eru talin óveruleg. Heildaráhrif frumvarpsins til hækkunar á tekjum eru metin 1,48 milljarðar kr.
Afgreiðsla:
Samþykkt með nokkrum breytingum:
-Sóknargjöld voru hækkuð úr 980 kr. í 1.080 kr.
-Lækkun á skattalegum ívilnunum vegna tengiltvinnbifreiða var frestað til ársins 2022.
-Virðisaukaskattur við endursölu vistvænna ökutækja var felldur niður enda sé ökutækið þriggja ára eða yngra á söludegi miðað við fyrstu skráningu.
-Aðilum sem nýta heimild til tekjufallsstyrkja var heimilað, í þeim tilvikum þar sem það er hagstæðara, að miða mánaðarleg stöðugildi skv. 1. mgr. 5. gr. laga um tekjufallsstyrki við stöðugildi þeirra sem reiknað var endurgjald fyrir í rekstrinum hlutfallslega miðað við starfstíma rekstrarins á árinu 2019.
Efnisflokkar:
Samfélagsmál: Félagsmál
|
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins
|
Hagstjórn: Skattar og tollar