Markmið: Að tryggja betur byggðafestu og nýliðun í sjávarútvegi. 
                    
                    
                        Helstu breytingar og nýjungar: 
Lagðar eru til breytingar á lögunum hvað snertir byggðakvóta, strandveiðar, bætur, línuívilnun o.fl. Lagt er til að ákvæði um nýtingu 5,3% aflaheimilda til sérstakra aðgerða, sem nú er að finna í ýmsum greinum laga um stjórn fiskveiða, verði dregin saman í einn kafla í lögunum og skapaður skýrari grundvöllur undir nýtingu þeirra og meðferð en nú er. Þá er lagt til að kveðið verði á um föst innbyrðis hlutföll í ráðstöfun umræddra 5,3% aflaheimilda milli einstakra verkefna og að þau hlutföll byggist á ráðstöfun til einstakra aðgerða fyrir fiskveiðiárið 2019–2020. Lagt er til að við úthlutun byggðakvóta verði lögð áhersla á stuðning við dreifðar sjávarbyggðir. Þannig verði föstu hlutfalli almenns byggðakvóta úthlutað til einstakra byggðarlaga árlega og byggi sú úthlutun á meðaltalsúthlutun fyrri ára á byggðakvóta. Þá er gert ráð fyrir að heimilt verði að ráðstafa aflaheimildum almenns byggðakvóta byggðarlags, samkvæmt beiðni sveitarstjórnar, að hluta eða í heild, til verkefna varðandi sértækan byggðakvóta og til tilraunaverkefna til byggðaþróunar. Einnig er lagt til að ónýtt hlutfall línuívilnunar á hverju þriggja mánaða tímabili færist sem viðbót við almennan byggðakvóta. Því verði síðan skipt milli sjávarbyggða í samræmi við hlutdeild þeirra í löndun línuívilnunar miðað við meðaltal undanfarinna ára.
                    
                    
                        Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.
                    
                    
                        Kostnaður og tekjur: Ekki er gert ráð fyrir áhrifum á ríkissjóð.
                    
                    
                        Aðrar upplýsingar: 
                    
                    
                    
                        Afgreiðsla: Frumvarpið var ekki afgreitt úr nefnd.
                    
                    
                    
                        Efnisflokkar:
                        
                            
                            Samfélagsmál: Atvinnumál
                        
                             | 
                            Samfélagsmál: Byggðamál
                        
                             | 
                            Atvinnuvegir: Ferðaþjónusta
                        
                             | 
                            Atvinnuvegir: Sjávarútvegur