Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Markmið: Að styrkja lýðræðið með því að viðhalda trausti á framkvæmd kosninga og tryggja að beinar, frjálsar og leynilegar kosningar séu haldnar reglulega.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að einn lagabálkur gildi um kosningar í stað fjögurra áður og þannig verði stefnt að einfaldari og nútímalegri löggjöf um framkvæmd kosninga. Lagt er til að landskjörstjórn verði að sjálfstæðri stjórnsýslunefnd og að henni verði falin almenn yfirstjórn kosningamála. Þá er lagt til að komið verði á fót úrskurðarnefnd kosningamála sem tekur til úrskurðar ýmsar kærur á þessu sviði, m.a. um lögmæti forsetakjörs, sveitarstjórnarkosninga og þjóðaratkvæðagreiðslna. Gert er ráð fyrir að miðlæg vinnsla kjörskrár muni fara fram hjá Þjóðskrá Íslands og að rafræn kjörskrá verði meginregla. Lagt er til að utankjörfundaratkvæðagreiðsla muni ekki geta hafist fyrr en öll framboð hafa komið fram og að póstkosning verði heimiluð þegar greidd eru atkvæði utan kjörfundar. Gert er ráð fyrir að kjósandi muni eingöngu geta greitt atkvæði einu sinni í hverjum kosningum, annaðhvort utan kjörfundar eða á kjörfundi. Að auki er gert ráð fyrir að öllum sem þess þurfa verði heimilað að fá aðstoð við kosningu hvort sem er vegna fötlunar, veikinda, elli eða af öðrum ástæðum. Þá er lagt til að kosningarréttur þeirra sem búsettir eru erlendis verði rýmkaður verulega í alþingiskosningum, forsetakjöri og þjóðaratkvæðagreiðslum.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög og við gildistöku laganna falla úr gildi lög um framboð og kjör forseta Íslands, nr. 36/1945, lög um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, lög um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, og lög um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010. Við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á lögreglulögum, nr. 90/1996, lögum um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, og sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011.
Kostnaður og tekjur: Gert er ráð fyrir útgjöld ríkissjóðs muni aukast um samtals 133 milljónir kr. ásamt 38,4 milljónum kr. í einskiptisútgjöld vegna stofnkostnaðar.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla: Samþykkt með þónokkrum breytingum. M.a. var samþykkt að kjósandi geti greitt atkvæði að nýju á kjörfundi þótt hann hafi þegar greitt atkvæði utan kjörfundar. Einnig var samþykkt að Íslendingar missi ekki kosningarréttinn eftir 16 ára samfellda búsetu erlendis heldur verði hægt að sækja um hjá Þjóðskrá að komast aftur á kjörskrá. Þá var fallið frá því að leggja niður yfirkjörstjórnir kjördæma og að slíta skyldi kjörfundi eigi síðar en kl. 21 á kjördag. Gildistöku laganna var seinkað til 1. janúar 2022.
Efnisflokkar: Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Alþingi | Lög og réttur: Persónuleg réttindi | Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Stjórnkerfi og stjórnarskipunarmál | Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Sveitarstjórnarmál