Markmið:
Að efla opinberan stuðning við nýsköpun á landinu með sveigjanlegu stuðningskerfi, sterkum tengslum við háskólasamfélag, atvinnulíf og hagaðila og áherslu á nýsköpun á landsbyggðinni. Að skýra ábyrgð, einfalda verklag og forgangsraða opinberum stuðningi og þjónustu við atvinnulífið.
Helstu breytingar og nýjungar:
Með frumvarpinu er Nýsköpunarmiðstöð Íslands lögð niður í núverandi mynd í samræmi við markmið nýsköpunarstefnu um forgangsröðun verkefna í þágu nýsköpunarumhverfis á Íslandi og verkefni stofnunarinnar endurskipulögð og flutt annað eftir því sem við á. Lagt er til að stofnað verði tæknisetur í formi óhagnaðardrifins einkahlutafélags í eigu ríkisins. Tæknisetrið mun byggja á grunni Efnis-, líf- og orkutækni, Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og þeim hluta Frumkvöðla og fyrirtækja sem snýr að frumkvöðlum og sprotafyrirtækjum á sviði hátækni. Lagt er upp með að félagið geti tekið við hluta af samstarfsverkefnum og skuldbindingum Nýsköpunarmiðstöðvar, þ.á.m. innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum, tækjabúnaði vegna rannsóknar- og prófunarstarfsemi Rannsóknastofu byggingariðnaðarins og starfræki frumkvöðlasetur fyrir fyrirtæki á sviði hátækni, verkfræði, raunvísinda og skyldra greina.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög og við gildistöku laganna falla úr gildi lög um opinberan stuðning við tæknirannsóknir, nýsköpun og atvinnuþróun, nr. 75/2007. Við gildistöku laganna verða jafnframt breytingar á lögum um byggingarvörur, nr. 114/2014, lögum um vísitölu byggingarkostnaðar, nr. 42/1987, og lögum um mannvirki, nr. 160/2010.
Kostnaður og tekjur:
Gert er ráð fyrir að kostnaður ríkisins vegna annars vegar lokunar stofnunarinnar og
verkefna hennar sem flytjast í annað form verði 655 milljónir kr. á árinu 2021 þar sem tímabundinn lokunarkostnaður nemur 305 milljónum kr. Gert er ráð fyrir að þessi kostnaður muni rúmast innan útgjaldaramma viðkomandi málefnasviðs atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í fjárlögum og fjármálaáætlun fyrir árin 2021–2025. Frá og með árinu 2022 er gert ráð fyrir að útgjöld muni lækka um 305 milljónir kr. og að afkoma ríkissjóðs batni sem því nemur.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla: Samþykkt með nokkrum breytingum. Helstu breytingarnar voru þær að ráðherra er heimilt að gera samninga við opinbera aðila eða einkaaðila um framkvæmd ýmissa verkefna á sviði nýsköpunar, s.s. samninga um rekstur stafrænna smiðja; ráðherra skal setja á fót stafræna nýsköpunargátt fyrir upplýsingagjöf um stuðning við nýsköpun og tryggja að ráðgjöf á fyrstu stigum nýsköpunarverkefna sé gjaldfrjáls og aðgengileg hvar sem er á landinu; og ráðherra skal veita sértæka styrki, Lóu – verkefnastyrki, til eflingar nýsköpun á landsbyggðinni.
Efnisflokkar:
Samfélagsmál: Atvinnumál
|
Samfélagsmál: Byggðamál
|
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins
|
Mennta- og menningarmál: Menntamál
|
Umhverfismál: Umhverfisstjórn og náttúruvernd
|
Atvinnuvegir: Viðskipti