Markmið: Að viðhalda atvinnustigi og efnahagsumsvifum með því að styðja við litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir tímabundnu tekjufalli vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og aðgerða stjórnvalda til að verjast útbreiðslu hennar.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að einstaklingar og litlir lögaðilar í atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi sem hafa orðið fyrir minnst 50% tekjufalli á tímabilinu frá 1. apríl til 30. september 2020, samanborið við sama tímabil 2019, vegna heimsfaraldurs kórónuveiru eða aðgerða stjórnvalda til að hefta útbreiðslu hennar geti fengið styrk til að mæta rekstrarkostnaði á tímabilinu.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020.
Kostnaður og tekjur: Heildaráhrif á ríkissjóð eru óljós þar sem ekki er vitað hversu margir einyrkjar og lítil fyrirtæki munu uppfylla öll skilyrði frumvarpsins og sækja um styrkinn.
Að teknu tilliti til breytingartillagna nefndarinnar, sem samþykktar voru, þá áætlar fjármála- og efnahagsráðuneytið að heildarkostnaður ríkissjóðs vegna tekjufallsstyrkja verði að hámarki 23,3 milljarðar kr.
Afgreiðsla: Samþykkt með miklum breytingum.
Viðmiðunartímabil fyrir tekjufallsstyrki var lengt um einn mánuð, þ.e. til 31. október 2020. Fallið var frá kröfu um hámarksfjölda launamanna hjá rekstraraðilum og geta því allir rekstraraðilar sótt um tekjufallsstyrk að því gefnu að þeir uppfylli önnur skilyrði fyrir styrkveitingu. Þá miðast fjárhæð tekjufallsstyrks, sem rekstraraðili getur átt rétt á, við meðalfjölda stöðugilda á mánuði á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 en styrkur verður greiddur að hámarki vegna fimm stöðugilda. Krafan um tekjufall var lækkuð úr 50% í 40% og í stað þess að miða við tekjur rekstraraðila við sömu mánuði ársins 2019 og á þessu ári var samþykkt að miða við meðaltekjur á sjö mánaða tímabili á árinu 2019. Hafi rekstraraðili hlotið lokunarstyrk samkvæmt lögum um fjárstuðning til minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020 má draga hann frá tekjum rekstraraðila á því tímabili þegar tekjufall hans er metið. Fallið var frá skilyrði um lágmarkstekjur rekstraraðila vegna umsóknar um tekjufallsstyrk. Fjárhæð tekjufallsstyrks skal að meginreglu vera jafnhá rekstrarkostnaði rekstraraðila á tímabilinu 1. apríl til 31. október 2020, þó þannig að hún geti aldrei orðið hærri en sem nemur tekjufalli rekstraraðila á tímabilinu. Rekstraraðili skal draga frá stuðning sem hann kann að hafa hlotið samkvæmt lögum um stuðning úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti, nr. 50/2020, að því marki sem hann hefur hlotið slíkan stuðning vegna launa á sama tímabili. Skatturinn skal birta opinberlega upplýsingar um hverjum hefur verið ákvarðaður tekjufallsstyrkur.
Efnisflokkar:
Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins
|
Mennta- og menningarmál: Menningarmál
|
Hagstjórn: Skattar og tollar
|
Atvinnuvegir: Viðskipti