Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 3 | Þingskjöl: 5 | Staða: Lokið
Markmið: Að innleiða tilskipun ESB um vernd gegn ólögmætri öflun, notkun og birtingu viðskiptaleyndarmála og sjá til þess að kröfur tilskipunarinnar séu uppfylltar í íslenskum rétti. Að styrkja réttarvernd viðskiptaleyndarmála, gera handhöfum þeirra auðveldara að leita réttar síns og að einfalda stofnanaumgjörð á sviðinu með afnámi stjórnsýslueftirlits.
Helstu breytingar og nýjungar: Um er að ræða innleiðingu tilskipunar (ESB) 2016/943 um viðskiptaleyndarmál. Auk innleiðingar á tilskipuninni eru lögð til ný úrræði til verndar viðskiptaleyndarmálum og lagt til að refsimörk verði hækkuð. Einnig er lagt til að eftirlit Neytendastofu verði afnumið. Þá er gert ráð fyrir afnámi stjórnsýslueftirlits með öflun, notkun og afhjúpun viðskiptaleyndarmála.
Breytingar á lögum og tengd mál: Um er að ræða ný lög en við gildistöku laganna verða breytingar á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993, lögum um lausafjárkaup, nr. 50/2000, lögum um neytendakaup, nr. 48/2003, lögum um eftirlit með viðskiptaháttum og markaðssetningu, nr. 57/2005, lögum um opinber skjalasöfn, nr. 77/2014, og lögum um ráðstafanir til hagkvæmrar uppbyggingar háhraðafjarskiptaneta, nr. 125/2019.
Kostnaður og tekjur: Ekki er gert ráð fyrir neinum fjárhagsáhrifum á ríkissjóð.
Afgreiðsla: Samþykkt með breytingum sem eru tæknilegs eðlis og ekki ætlað að hafa efnisleg áhrif.
Efnisflokkar: Atvinnuvegir: Viðskipti