Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 48 | Þingskjöl: 10 | Staða: Lokið
Markmið: Að styrkja lagaumgjörð og stjórnsýslu fiskeldis og með því að ýta undir að fiskeldi verði sterk og öflug atvinnugrein þar sem sjálfbær þróun og vernd lífríkis er höfð að leiðarljósi.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að heildarframleiðslumagn frjórra laxa verði byggt á áhættumati erfðablöndunar. Gert er ráð fyrir að hafsvæðum verði skipt í eldissvæði og heimiluð verði úthlutun með auglýsingu. Einnig er lagt til að stjórnsýsla verði efld og eftirlit aukið með fiskeldi. Jafnframt er gert ráð fyrir að umsóknir um rekstrarleyfi á svæðum sem ekki eru burðarþolsmetin falli niður. Gert er ráð fyrir að mælt verði fyrir um vöktun og heimild til aðgerða vegna laxalúsar. Að auki er lagt til að aukið gegnsæi verði um starfsemi fiskeldisfyrirtækja og að Umhverfissjóður sjókvíaeldis verði efldur. Gert er ráð fyrir að rekstrarleyfi fyrir ófrjóan lax verði háð nýtingu þeirra og að tekin verði upp heimild til álagningar stjórnvaldssekta. Auk þessa eru ýmis ákvæði felld úr lögum þar sem þau eiga ekki við vegna nýrra reglna um úthlutun eldissvæða eða þjóna ekki tilgangi sínum lengur.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um fiskeldi, nr. 71/2008.
Kostnaður og tekjur: Verði frumvarpið samþykkt óbreytt er gert ráð fyrir að á árinu 2020 aukist tekjur ríkissjóðs um 105 milljónir kr. og að útgjöld ríkissjóðs hækki um 175 milljónir kr. Áhrifin á ríkissjóð yrðu því 70 milljón kr. útgjaldaaukning. Hins vegar er gert ráð fyrir að tekjur af sérstakri gjaldtöku, í samræmi við 3. gr. frumvarpsins annars vegar og samkvæmt frumvarpi um gjaldtöku sem ráðuneytið áformar að leggja fram vorið 2019 hins vegar, verði nýttar til að greiða fyrir útgjaldaaukninguna, sem myndi þýða að nettóáhrif á afkomu ríkissjóðs yrðu engin á árinu 2020 né til framtíðar litið.
Afgreiðsla: Samþykkt með þó nokkrum breytingum, m.a. þeim að kveðið er á um mótvægisaðgerðir sem stofnanir, sem vinna að leyfisveitingum í fiskeldi, verða að taka tillit til og að við skiptingu fjarða eða hafsvæða í eldissvæði skuli til viðbótar við Skipulagsstofnun haft samráð við Umhverfisstofnun og svæðisráð viðkomandi svæðis. Enn fremur var samþykkt sú breyting að þeir rekstraraðilar sem sent höfðu Matvælastofnun fullnægjandi gögn um rekstrarleyfi á svæðum sem hafa verið burðarþolsmetin fá afgreiðslu samkvæmt lögunum eins og þau voru fyrir breytingu. Hið sama gildir um þau leyfi sem langt eru komin hjá Skipulagsstofnun.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Heilsa og heilbrigði: Heilbrigðiseftirlit | Atvinnuvegir: Landbúnaður | Umhverfismál: Mengun | Atvinnuvegir: Sjávarútvegur | Umhverfismál: Umhverfisstjórn og náttúruvernd | Atvinnuvegir: Viðskipti