Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 8 | Þingskjöl: 6 | Staða: Lokið
Markmið: Að tryggja að regluverk opinberra innkaupa styðji betur við stefnu hins opinbera í málaflokknum ásamt því að tryggja að ekki myndist ósamræmi milli EES-réttar og innlendra reglna við túlkun þeirra.
Helstu breytingar og nýjungar: Lögð er til breyting varðandi heimild til samningsútboða og samkeppnisviðræða þegar engin aðgengileg tilboð berast. Gert er ráð fyrir að bætt verði við ákvæði um keðjuábyrgð þar sem mælt er fyrir um heimild fyrir kaupanda til að fara fram á að aðalverktaki tryggi að allir starfsmenn, hvort sem um ræðir starfsmenn verktaka, undirverktaka eða starfsmannaleiga, fái laun, starfskjör, sjúkra- og slysatryggingar og önnur réttindi í samræmi við gildandi kjarasamninga og lög hverju sinni. Lagðar eru til breytingar á fyrirkomulagi innkaupa ríkisins til að auka sveigjanleika stofnana og viðfangsefna sem þau sinna. Ekki yrði lengur vísað til Ríkiskaupa í lögunum en þess í stað er gert ráð fyrir að ráðherra verði veitt heimild til að koma á fót sérstakri starfseiningu eða ríkisaðila sem veitir öðrum opinberum aðilum innkaupaþjónustu sem samræmist markmiðum laganna. Gert er ráð fyrir að starfseiningunni verði einnig falið að sinna fjölbreyttari verkefnum til að stuðla að bættum rekstri og árangri í starfsemi ríkisins.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um opinber innkaup, nr. 120/2016.
Kostnaður og tekjur: Ekki liggja fyrir upplýsingar um áhrif á ríkissjóð.
Aðrar upplýsingar: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/24/ESB frá 26. febrúar 2014 um opinber innkaup og niðurfellingu tilskipunar 2004/18/EB.
Afgreiðsla: Samþykkt með nokkrum breytingum. Helstu breytingarnar voru þær að í stað þess að heimila kaupanda að fara fram á keðjuábyrgð er það gert að skyldu og einnig var fallið frá því að leggja Ríkiskaup niður. Gildistöku ákvæðis um keðjuábyrgð var seinkað til 1. janúar 2020.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Atvinnuvegir: Viðskipti