Þetta mál hefur sjálfkrafa verið sett í vöktun. Þú getur afvaktað það ofarlega á síðunni. Þú getur einnig breytt þessari virkni í notendastillingum.
Umsagnir: 1 | Þingskjöl: 4 | Staða: Lokið
Markmið: Að tryggja starfsskilyrði og sjálfstæði stjórnmálasamtaka sem og að auka gagnsæi í stjórnmálum.
Helstu breytingar og nýjungar: Lagt er til að stjórnmálasamtökum, kjörnum fulltrúum þeirra og frambjóðendum, sem og frambjóðendum í persónukjöri, verði bannað að fjármagna, birta eða taka þátt í birtingu efnis eða auglýsinga í tengslum við stjórnmálabaráttu nema fram komi við birtingu að efnið sé birt að tilstuðlan eða með þátttöku þeirra. Einnig er lagt til að stjórnmálasamtök sem fulltrúa eiga á Alþingi skuli eiga rétt á 12 milljóna kr. grunnrekstrarframlagi óháð stærð þeirra. Gert er ráð fyrir að skilyrði fyrir greiðslu kosningastyrks úr ríkissjóði verði rýmkuð þannig að nægjanlegt sé að stjórnmálasamtök bjóði fram í þremur kjördæmum til að þau geti sótt um slíkan styrk. Að auki er gert ráð fyrir að almennt fjárframlag úr ríkissjóði til stjórnmálasamtaka, sem skiptist á milli stjórnmálasamtaka í samræmi við atkvæðamagn, verði árlega endurskoðað með hliðsjón af breytingum á vísitölum verðlags og launa. Lagt er til að hámarksfjárhæð framlags frá einstaklingum og lögaðilum til stjórnmálasamtaka verði hækkuð úr 400.000 kr. í 550.000 kr., sem samsvarar þeim launa- og verðlagsbreytingum sem orðið hafa. Jafnframt er gert ráð fyrir samtals 100.000 kr. svigrúmi umfram þessa fjárhæð þegar um er að ræða framlög sem stjórnmálafélögum innan stjórnmálasamtaka er heimilt að afla frá einstaklingum og lögaðilum. Að auki er lagt til að fjárhæðarmörk framlaga sem einstaklingum er heimilt að leggja stjórnmálasamtökum til án þess að nöfn þeirra séu birt verði hækkuð úr 200.000 kr. í 300.000 kr. í samræmi við sjónarmið um almenna hækkun fjárhæðarmarka í lögunum í samræmi við launa- og verðlagsbreytingar.
Breytingar á lögum og tengd mál: Lög um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, nr. 162/2006.
Kostnaður og tekjur: Átta stjórnmálasamtök náðu kjöri til Alþingis í kosningunum í október 2017 og því mun árlegur kostnaður ríkissjóðs vegna grunnrekstrarframlags til þeirra nema 96 milljónum kr. á yfirstandandi kjörtímabili. Kostnaðarauki ríkissjóðs vegna fjárstyrks til að mæta útlögðum kostnaði við kosningabaráttu mun ráðast af fjölda framboða í öllum kjördæmum í hverjum alþingiskosningum en ef hann verður sá sami og í síðustu kosningum, þ.e.a.s. níu, þá mun kostnaður ríkissjóðs nema að hámarki 45 milljónum kr. Ákveði löggjafinn að hækka almenna framlagið til stjórnmálaflokka m.t.t. vísitöluhækkunar eins og gert er ráð fyrir í þessu frumvarpi, þar sem vægi neysluverðs- og launavísitölu vegur jafnt, mun það koma til með að fela í sér viðbótarkostnað fyrir ríkissjóð ár hvert.
Aðrar upplýsingar:
Afgreiðsla: Samþykkt með minni háttar breytingum.
Efnisflokkar: Hagstjórn: Fjárreiður ríkisins | Stjórnarskipan og stjórnsýsla: Stjórnkerfi og stjórnarskipunarmál